22.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3509 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

14. mál, rannsóknarnefnd til að kanna rekstur Flugleiða og Eimskipafélags Íslands

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Sú till. til þál., sem hér hefur verið til umr. síðan á haustdögum, sýnir glögglega að hv. flm., prófessor Ólafur Ragnar Grímsson, hefur tileinkað sér áróðurstækni jafnhliða stjórnmálafræðum. Þessi tillöguflutningur hans var fyrst og fremst sviðsetning, þar sem hann ætlaði sér aðalhlutverkið, enda greinilega vel undirbúið af hans hálfu. Hlutur fjölmiðla var til reiðu til að hylla aðalleikarann.

Það rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég hlustaði á tveggja klukkustunda framsöguræðu hans fyrir þessu máli á hv. Alþ. s. l. haust, að ég hafði fyrir nokkrum árum, þegar hv. 3. landsk. þm. var fyrirferðarmikill félagi í Framsfl., heyrt hann halda tilþrifamikla ræðu um,vissa trúða á Alþingi Íslendinga, sem hefðu þá iðju helsta að halda uppi málþófi og ómerkilegum tillöguflutningi á Alþ. í stað þess að snúa sér að alvöruvandamálum þjóðarinnar. Nú er þessi hv. þm. búinn að fá hlutverkið sem hann þráði svo heitt á þeim árum. Við venjulegir þm. eigum sjálfsagt að dást að þessum sérmenntaða stjórnlagafræðingi sem útdeilir á báðar hendur hverju málinu á fætur öðru og heldur hverja stórræðuna á fætur annarri til að bjarga okkar vesæla stjórnskipulagi frá eymd og volæði. Eða er ekki till. á þskj. 14 einmitt ein slík? Hv. 3. landsk. hlýtur að vita manna best þessa dagana hver vandi þjóðarinnar er og hvað okkur er fyrir bestu. Hans mat er ljóslega að koma verði stórfyrirtækjum í eigu Íslendinga, eins og Flugleiðum og Eimskipafélagi Íslands, fyrir kattarnef svo að þjóðfélagið þurfi ekki að vera að burðast með flugflota og myndarlegan skipastól. Með till. væri jafnframt verið að forða þjóðinni frá glæfralegum rekstri og fjárfestingarkapphlaupi. Öryggi þjóðarinnar á sviði samgangna við umheiminn væri í stórhættu í höndum einokunaraðila, sem fyrst og fremst störfuðu á grundvelli þröngra gróðasjónarmiða og teldu sig engar skyldur hafa við land og þjóð.

Skoðun mín er sú, að þetta sé svartnættishugsunarháttur og ég er undrandi að slíkt skuli koma frá tiltölulega ungum menntamanni, sem hefur átt þess kost að menntast og þroskast í lýðfrjálsu landi og verið a. m. k. áhorfandi að mesta framfaraskeiði í lífi þessarar þjóðar, átt þess kost að ferðast um heiminn og sjá framfarir og gildi þeirra. Á maður að trúa því, að unga fólkið á Íslandi í dag sjái ekki framfarir, vilji ekki framfarir, vilji ekki að í landi okkar séu athafnamenn til að byggja upp myndarlegan atvinnurekstur sem jafnast á við það besta meðal annarra þjóða? Ég leyfi mér að trúa því að hv. 3. landsk. þm., prófessor Ólafur Ragnar Grímsson, sé bara undantekning að þessu leyti.

Þannig er mat mitt á þáltill. hans og þá ekki síður á framsöguræðu í þessu máli. Þurfti það raunar ekki að koma á óvart eftir að hafa heyrt ræðu hv. þm. um Félagsmálaskóla alþýðu. Neikvæður málflutningur getur drepið gott mál, væri það í því máli. Ég tel það eina jákvæða við þessa till., að hún hefur vakið athygli margra á málinu og alþm. hafa þegar kynnt sér starfsemi þessara mikilvægu fyrirtækja landsins á sérstakan hátt og starfsemi fyrirtækjanna verið rædd ítarlega hér á hv. Alþ. og í fjölmiðlum fyrir opnum tjöldum og það er vel.

Vil ég taka undir ágætar ræður hv. þm., sérstaklega Friðriks Sophussonar og hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar, sem voru alveg frábærar. Það er full þörf á að benda sérstaklega á niðurrifsstefnu þessarar till. og hvernig slíkur tillöguflutningur á Alþingi Íslendinga getur beinlínis skaðað íslensk stórfyrirtæki á erlendum mörkuðum. Það er nauðsyn að menn sjái að sér í þessum efnum.

Ég hef þá skoðun, að bæði þessi stórfyrirtæki séu einn þýðingarmesti hlekkur, ekki aðeins í samgöngumálum, heldur einnig í viðskiptum og samskiptum Íslands við umheiminn. Þau eru stolt okkar út á við og ein mikilvægasta landkynning, því bæði þessi fyrirtæki eru rekin með myndarskap og hafa fengið viðurkenningu á alþjóðavettvangi sem eftir hefur verið tekið. Uppbygging þessara fyrirtækja hefur vissulega verið stórkostleg miðað við stærð þjóðfélagsins og hefur um leið sannað að við höfum átt og eigum atorkumenn sem hafa þorað að takast á við harða samkeppni á alþjóðamarkaði með glæsilegum árangri.

Við þekkjum öll sögu Eimskipafélags Íslands og mikilvægi þess í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Almenn þátttaka landsmanna í uppbyggingu félagsins sannaði best þörfina. Uppbygging þess og starfsemi öll hefur ávallt staðið á traustum grunni. Sama má segja um íslensku flugfélögin. Þar hefur kraftur, bjartsýni og hæfileikar haldist í hendur með þeim árangri að ævintýri er líkast. Tímarnir hafa breyst og eru sífellt að breytast. Tæknin sér fyrir því. Ég er fylgjandi hæfilegri samkeppni. Hins vegar dreg ég í efa, að okkar litla þjóð hafi hag af því að mörg stór og smá fyrirtæki keppi sín á milli um flutninga milli landa, sem oft eru vissar skorður settar af alþjóðasamningum, ekki síst í flugsamgöngum. Þess vegna tel ég að vinstri stjórnin 1971–1974 hafi gert gott verk er hún stuðlaði að sameiningu flugfélaganna Loftleiða og Flugfélags Íslands, sem nú eru Flugleiðir hf.

Skoðun mín er sú, að hlut okkar sem þjóðar sé betur borgið með stórum vel reknum fyrirtækjum á þessu sviði, sem kappkosta góða þjónustu og vinna sér traust bæði innanlands og á erlendum markaði. Við eigum að stuðla að eflingu slíkra fyrirtækja. Ég skal engan dóm á það leggja, hvort Flugleiðir hf. og Eimskipafélag Íslands hf. fullnægja öllum kröfum okkar á þessu sviði, en ég ber virðingu fyrir þessari starfsemi og hef þá skoðun að þjóðfélagið megi ekki án hennar vera.

Ég endurtek að ég get vel samþykkt að þm. kynni sér starfsemi slíkra fyrirtækja opnum huga, ekki sem rannsóknaraðili, eins og þessi furðulega till. ber með sér, heldur til þess að vera betur færir um að meta gildi slíkra fyrirtækja fyrir þjóðarhag og gera ráðstafanir á hverjum tíma í íslensku efnahagslífi, svo að slík þjóðþrifafyrirtæki, ekki síst í milliríkjasamskiptum, geti starfað og eflst til hags og heilla fyrir þjóðina í heild.