26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3566 í B-deild Alþingistíðinda. (2776)

232. mál, veiting prestakalla

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er samið af n. er skipuð var 20. júlí 1977 af fyrrv. kirkjumálaráðh. Ólafi Jóhannessyni. Frv. er lagt hér fram með samþykki ríkisstj., en án skuldbindinga af hendi einstakra ráðh. eða þeirra þingflokka sem ríkisstj. styðja. Frv. felur í sér nokkrar breytingar frá núverandi reglum um veitingu prestakalla.

Í fyrsta lagi gerir frv. ráð fyrir að meginreglan verði að prestar verði kosnir af svokölluðum kjörmönnum, en samkv. frv. eru kjörmenn sóknarnefndarmenn í hverri sókn.

Önnur meginbreytingin er að tekin eru upp ákvæði um svokallaða köllun prests. Köllun er fólgin í því að tiltekinn meiri hl. kjörmanna eða 3/4 geta farið fram á að tiltekinn prestur taki þjónustu án þess að viðkomandi prestakall sé auglýst laust til umsóknar. Ef 3/4 hlutar kjörmanna samþ. síðan köllun á formlegum fundi, er prófastur stýrir, skal veita viðkomandi presti kallið. Gert er ráð fyrir í frv. að veiting, sem byggist á köllun, sé tímabundin og í lengsta lagi geti veiting í því tilfelli verið 4 ár.

Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir að almenn kosning geti farið fram að loknu vali kjörmanna, þ. e. ef 25% sóknarbarna fara fram á það. Hér er opnuð leið fyrir sóknarmenn að krefjast þess að fá að taka ákvörðun um val prests án milligöngu kjörmanna.

Allmiklar deilur hafa staðið um prestskosningar í núverandi mynd bæði á Alþ. og utan þess. Lögin um prestskosningar hafa staðið nær óbreytt frá því þau voru sett 1915. Þó hafa komið fram á Alþ. allt frá 1930 nokkur frv. er lúta að breytingum á lögunum, og einnig hafa komið fram þáltill. um sama efni. Um þetta vísast nánar til nál. er fylgir frv Á flestum Kirkjuþingum allt frá stofnun þeirra hefur þetta mál borið á góma. Komið hafa fram ákveðnar tillögur og lagafrv. Í því sambandi er rétt að minna á frv. er Kirkjuþing samþykkti 1972 og síðan 1976. Í nefndu frv. Kirkjuþings er gert ráð fyrir að kjörmenn velji sóknarpresta. Einnig er það að finna ákvæði um köllun. Frv. Kirkjuþings gerir hins vegar ekki ráð fyrir að prestskosningar með þátttöku sóknarmanna geti farið fram.

Hjá þeim, sem andsnúnir eru núv. reglum um prestskosningar, eru ýmsar ástæður tilfærðar, svo sem að prestskosningar leiði oft til sundurlyndis í söfnuðum vegna deilna sem oft séu fremur sprottnar af persónulegri afstöðu en málefnalegri, kosningabaráttan sé dýr fyrir umsækjendur og sé oft háð án þeirra vilja. Það er skoðun margra presta að núgildandi reglur um kosningar þeirra og skipun í embætti leggi of miklar hömlur á eðlilega tilfærslu þeirra í embættum og réttlátan og eðlilegan frama og eigi m. a. sök á því, að margir kandídatar fást síður til þess að fara í hin lakari brauðin, þar sem þeir eiga oft þeirra kosta einna völ að sitja í sama embætti alla ævi eða ganga hreinlega úr þjónustu kirkjunnar. Svo eru aftur aðrir sem telja núverandi fyrirkomulag, að sóknarmenn fái við almennar kosningar að velja sér prest, lýðræðislegasta og heppilegasta fyrirkomulagið.

Nefndin, sem samdi þetta frv., hefur haft bæði þessi sjónarmið í huga og reynt að finna málamiðlunarleið. Þótt menn greini á í þessum efnum er ljóst að endurskoða þarf ákvæði núgildandi laga um veitingu prestakalla. Þar má nefna t. d. að ýmis ákvæði laganna um framkvæmd kosningar eru úrelt.

Í III. kafla frv. eru ákvæði um almennar kosningar. Þar er að finna ákvæði um gerð kjörskrár sem eru skýrari en samkv. núgildandi lögum. Þar eru einnig ákvæði um utankjörstaðaratkvæðagreiðslu og er það nýmæli. Kosningaaldur er lækkaður niður í 18 ár. Gert er ráð fyrir að í hverju prófastsdæmi sé yfirkjörstjórn er annist framkvæmd kosninganna. Talning atkv. fer fram hjá yfirkjörstjórn í hverju prestakalli. Samkv. núgildandi lögum er ein yfirkjörstjórn fyrir allt landið. Ýmsum ákvæðum núgildandi laga um framkvæmd sjálfra kosninganna er sleppt, en vísað þess í stað til laga um kosningar til Alþingis. Þetta nefni ég sem dæmi um ýmsar breytingar og lagfæringar sem fram koma í þessu frv.

Rétt er að vekja athygli á ábendingu meiri hl. n., þar sem bent er á að nauðsynlegt sé að endurskoða ákvæði um kosningu sóknarnefndarmanna. Ef frv. þetta yrði að lögum væri því rétt að fjölga í sóknarnefndum í fjölmennari sóknum. N. gerði hins vegar enga ákveðna tillögu í þessa átt.

Ég vil geta þess að lokum, að Kirkjuþing hefur fjallað um frv. þetta og mælt með samþykkt þess.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.