26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3582 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

212. mál, djúphiti í jörð og virkjunarréttur fallvatna

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal reyna að fara að dæmi fyrirspyrjanda og vera stuttorður. Það er rétt, sem hann sagði, að í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna var svofellt ákvæði:

„Djúphiti í jörð og virkjunarréttur fallvatna verði þjóðareign“.

Framkvæmd þessa ákvæðis stjórnarsáttmálans er í höndum iðnrh. og eru upplýsingar í svari mínu frá iðnrn. komnar.

Þegar ríkisstj. tók við í september 1978 var starfandi nefnd, sem fyrrv. iðnrh. skipaði hinn 12. mars 1976 til að semja frv. til l. um réttindi yfir jarðhita. Í þessari nefnd voru hæstaréttardómararnir Ármann Snævarr, formaður, og Benedikt Sigurjónsson svo og Gunnar Helgi Sigurðsson verkfræðingur. Lét nefnd þessi af störfum í október s. l., en þá hafði hún viðað að sér miklum gögnum um málið, einnig erlendis frá, en ekki gengið frá frumvarpsdrögum. Hefur mál þetta síðan verið til skoðunar í iðnrn. og þar verið undirbúin drög að frv. um breyt. á orkulögum varðandi eignar- og umráðarétt jarðhita í samræmi við stefnumörkun stjórnarsáttmálans. Nú í vikunni verður gengið frá skipun nýrrar nefndar á vegum iðnrn. til að fullgera frv., og standa vonir til þess að unnt verði að leggja það fyrir yfirstandandi þing.

Hvað virkjunarrétt fallvatna áhrærir er athugun og undirbúningur þess máls skemmra á veg kominn, enda ýmsar lagaaðstæður um þau efni flóknari en varðandi jarðhitann. Frumvarpsdrög eru ekki tilbúin, en nefnd verður skipuð fljótlega til að semja frv. um þessi efni í anda stefnuyfirlýsingar ríkisstj. Þess er hins vegar tæpast að vænta, að það mál verði lagt fyrir það þing er nú situr.