27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3627 í B-deild Alþingistíðinda. (2828)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær umr. sem hér hafa orðið um þetta mikilsverða mál. Ég fæ nú ekki séð annað en það hafi verið þörf á að hefja máls á þessu, því að það er áreiðanlegt að þetta mál hefur brunnið mönnum nokkuð á hjarta.

Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hann þó gaf við fsp. minni. Ég er ekki sammála um þessi svör öll. Sumt skýrðist, en ekki er ég t. d. sammála ráðh. um það, að ekki sé níðst á hagsmunum togaranna. Ég tel að fyrirhuguð skerðing komi fyrst og fremst niður á togurunum.

Í máli hæstv. sjútvrh. kom það fram, að hann taldi óhjákvæmilegt að veita loðnubátunum fiskveiðileyfi vegna þess m. a. að þeir hefðu verið búnir að útbúa sig á netaveiðar, þeir hefðu verið búnir að kaupa sér net o. s. frv. Ég vil taka það fram, að við fyrir norðan vorum búnir að útbúa okkur með togara, við vorum búnir að útbúa okkur með frystihús, við vorum búnir að útbúa okkur með sæmilega heilbrigt atvinnulíf, og það er slæmt ef það þarf að lamast. Við höfum í lítið annað að sækja en þorskinn. Fiskvinnslustöðvar okkar eru fáar, þar sem ég þekki best til, útbúnar til þess að taka á móti karfa í verulegum mæli. Svo er karfafiskiríið ekki freistandi eins og stendur. Það þarf auðvitað að stuðla að því að gera mönnum ljúfara að gera út á karfann. En verðið er þannig og vegalengd í fiskinn, að það er a. m. k. þriðjungi minna fyrir hvern túr sem farinn er á karfa heldur en á þorsk.

Loðnubátarnir hins vegar hafa í ýmislegt annað að fara heldur en þorskinn. Loðnuverð til sjómanna hefur verið hagstætt og loðnumenn eru búnir að gera það ljómandi gott, jafnvel þó þeir hafi verið stöðvaðir þó að enn væri veiðanleg loðna. Loðnubátarnir eru hentugir t. d. í kolmunnaveiðar o. s. frv., og þeir geta snúið sér að ýmsu öðru en þorskinum. Að vísu er það rétt, að þeir er mishentugir á kolmunnaveiðar, en stóru bátarnir henta þar vel og reyndar hafa stærstu skipin sem betur fer ekki fengið þorsknetaveiðileyfi.

Ég lít svo á að það verði a. m. k. að stöðva vertíðarfiskríið strax þegar búið er að ná því aflamagni sem náðist á vertíð í fyrra. Það er komið fram í þessum umr. að í lok mars verði kominn 35 þús. lestum meiri afli á land en á sama tíma í fyrra. Þess vegna held ég að það sé rétt að vera viðbúinn að stinga við fótum.

Hvað varðar skyldu bátanna að koma með net að landi, þá er rétt að geta þess að a. m. k. einn bátur, þ. e. a. s. Pétur Jónsson, gerði þetta í fyrra ótilneyddur og af sjálfsdáðum og taldi þetta borga sig. Þeir hefðu ekki verið að þessu ef svo hefði ekki verið.

Þáttur L. Í. Ú. hefur komið hér nokkuð til umr. og ekki að ástæðulausu. Ég lít svo á, þrátt fyrir að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi talað um einhverja dæmalausa samstöðu og einingu sem orðið hafi um þetta mál hjá L. Í. Ú., að þá hafi L. Í. Ú. þarna fórnað hagsmunum togaranna fyrir hagsmuni bátanna. Þetta er eins og hæstv. ráðh. sagði, ef ég man rétt, þá er þetta tilflutningur á hagsmunum á milli landshluta. Mér finnst að þessi tilflutningur hafi verið allt of mikill, og ég trúi ekki einingartali hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Ef hann færi vestur á firði og ætti tal við togarasjómenn þar, þá væru þeir ekki á sama mála og hann, að frammistaða L. Í. Ú. hafi verið ljómandi góð í þessu efni.

Það hefur borið á góma hér í þessum umr., að hæstv. ráðh. sé að missa af strætisvagninum að grípa ekki fyrr til takmarkana, setja ekki reglugerðina fyrr og koma ekki skipulagi á málin fyrr en hann gerði. Þetta er kannske að nokkru leyti rétt og það hefði verið æskilegra hefði þetta legið fyrir fyrr.

Hitt er svo annað mál og ég vil biðja menn að velta því fyrir sér, hvort ekki væri skynsamlegra að færa þetta þorskveiðiplan ofurlítið til í árinu og reikna með því að þorskæviskeiðið byrjar að vorinu og telja svo 12 mánuði frá því. Það er ekki fráleitt, finnst mér, að miða ráðstafanir um afla og friðun frá vori til vors. Í verðlagningu landbúnaðarafurða er þetta miðað frá hausti til hausts, og það er ýmislegt sem mér finnst fljótt á litið geta mælt með því að menn geri þessa hluti upp við sig á vorin fremur en um áramót.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson tók hér til máls og það var heppilegt að heyra loðnusjómann blanda sér í málið. Ég var ekkert hissa á því að hv. þm. Guðmundur Karlsson sé þakklátur ráðh. og raunar ekki hissa á því að hv. loðnusjómaður Garðar Sigurðsson sé það líka. Hann dró í efa að ég færi með rétt mál þegar ég talaði um nýtingu á fiski í hinum ýmsu landshlutum. Ég vil leyfa mér að vitna til skýrslu frá Þjóðhagsstofnun sem út kom í október 1977 og fjallar um afkomu frystihúsa, en þar segir m. a.:

„Niðurstaða þessarar athugunar leiddi í ljós geysimikinn mun að því er varðar nýtingu aflans. Þannig nam framleiðslan á frystum þorski á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra um 40% af mótteknum þorski til frystingar, í Reykjavík og á Reykjanesi um þriðjungi“.

Þetta er vitnisburður sem ég verð að taka mark á, jafnvel meira en hv. þm. Garðar Sigurðsson.

Nú stendur yfir ein mesta aflahrota í mannaminnum. Hvernig fer nú? Hv. þm. virtist ekki hafa fylgst með því sem ég sagði um aldur á þorski. Þetta er flugskarpur alþm. og gæti skilið mál mitt ef hann fylgdist með, auk þess kunnugur störfum til sjós. Það, sem ég sagði, var að þessi samanburður, sem ég vildi gera, var um þorsk, sem annars vegar var veiddur á Halanum í fyrrahaust og var þá 51/2 árs, og bræður hans, sem ekki voru veiddir á Halanum, heldur syntu hér suður fyrir og er verið að veiða núna 6 ára gamlan missiri seinna.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson fór að tala um trossulengdina, og það er ágætt að hann leiðrétti Þjóðviljann. Ég vitnaði þarna umhugsunarlítið í þetta blað, en það ætti maður náttúrlega aldrei að gera. Þeir hafa nefnilega stundum farið frjálslega með staðreyndir í Þjóðviljanum. En það var þó gott að ég ofsagði ekki neitt. Þetta var helmingi meira, sem er af netum, heldur en nokkurn tíma Þjóðviljinn sagði. Ég er vanur að líta svo á að Þjóðviljinn hafi heldur of en van, og stundum hef ég staðið hann að því að ljúga um helming eða meira.

Ég er ekki reiðubúinn að láta allar þær friðunarráðstafanir, sem ég nefndi í ræðu minni hér í upphafi, taka gildi í einu. Það er fjarri því. En ég vil láta athuga þessa möguleika og ég er tilbúinn að standa að einum og einum eftir atvikum, ef svo vildi verkast. Ég held að það væru heppilegri leiðir en þær sem nú er verið að fara.

Það er mikill misskilningur, sem hefur komið fram í þessum umr., að halda því fram að þorskurinn stækki um helming á einu missiri. Það held ég geti alls ekki komið fyrir. A. m. k. trúi ég því ekki að hann stækki um helming frá því hann er 51/2 árs þangað til hann er orðinn 6 ára.

Hv. þm. Oddur Ólafsson taldi það mundu vera mér eitthvert harmsefni að lifandi þorskur hefði sloppið suður fyrir land. Það er síður en svo að það sé mér harmsefni, því að ég lít svo á að við þurfum að láta töluvert af þorski sleppa lifandi suður fyrir land, og á því byggist viðgangur okkar þorskstofns í framtíðinni að eitthvað sleppi lifandi og það töluvert mikið. En ég vil lofa einhverjum af þessum þorskum að hrygna. Ég vil ekki láta loðnubáta eða aðra góða fiskimenn moka þeim öllum upp áður en þeir ná að hrygna og leggja þar með grundvöll að áframhaldandi velmegun þessarar þjóðar.