27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3641 í B-deild Alþingistíðinda. (2833)

132. mál, varanleg vegagerð

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Það verður ekki annað sagt en þeir sjálfstæðismenn séu stórtækir í stjórnarandstöðinni. Það var annað uppi á teningnum þegar sjálfstæðismenn voru í ríkisstj. á síðasta kjörtímabili, þá var næsta lítið gert í vegamálum. En það er þannig með sjálfstæðismenn, að þeir treysta sýnilega betur vinstri stjórn til þess að gera stórátak í vegamálum heldur en sjálfum sér.

till. til þál., sem liggur hér fyrir, er um stórátak í vegamálum og 15 ára áætlun sem eigi að miða að því að leggja bundið slitlag á hringveginn og vegi til allra þéttbýlisstaða í landinu. Það má einnig geta þess, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson gleymdi að vísu, en það er nú kannske meginkjarni málsins, að þetta var kosningamál Sjálfstfl. í síðustu kosningum sem átti að bæta fyrir ýmislegt sem miður fór á síðasta kjörtímabili, kom fram eins og síðasta hálmstráið í kosningabaráttunni, átti víst að laða að einhverja kjósendur, en tókst ekki og virtist ekki hrífa á þann hátt sem þeir a. m. k. vonuðust eftir. En það er annar handleggur málsins.

Nú vil ég taka það skýrt fram, að ekki er ég á móti því að það verði lagt út í vegagerð og vegakerfið verði bætt til hagsbóta fólkinu í landinu, landsbyggðinni kannske sérstaklega, og öðrum. En það, sem ég vil leggja megináherslu á, er að það verður að fara með ráðum fram í þessu máli eins og á öðrum vettvangi. Ef á að fara að byggja upp vegakerfið eftir þeirri till. sem sjálfstæðismenn mæla hér fyrir um, þá tel ég að við kæmust ansi skammt. Það þarf að gera ítarlegar rannsóknir og athuganir á því, hvernig best verður að þessu verki staðið, og sérstaklega á fjárhagshlið málsins og þar á ég við tekjuöflunina. Að kasta fram hugmyndum eins og 2 milljörðum með happdrættisláni, 1 milljarði úr Byggðasjóði og umframtekjum af sérsköttun umferðar sem nemur 2 milljörðum, þetta er að kasta fram hugmyndum og kasta fram tölum. Ég vil segja að þetta sé heldur illa unnið og ekki málinu raunverulega til framdráttar.

Það, sem fyrst og fremst ber að leggja áherslu á, er að Vegagerðinni verði falið að benda á hagkvæmustu leiðir til þess að fara út í þetta verk, taka tillit til þess tíma, sem það tekur, og taka einnig tillit til þeirra fjárráða, sem þjóðin býr yfir varðandi þetta verkefni.

Það kemur ábyggilega ýmsum spánskt fyrir sjónir að sjá á þessari till. að 2. flm., hv. þm. Ólafur G. Einarsson, skuli hér með leggja til, að forgangsverkefnin í umferðarmálum þjóðarinnar skuli nr. eitt vera lagning slitlags á vegi víða um land í nokkrum áföngum, en síðan kemur eins og aukaatriði nánast í lokin þar sem sagt er: einnig til eftirtalinna verkefna, sem nokkurs konar aukaatriða í þessari till., en þar segir: 6. Reykjanesbraut (Reykjavík — Kópavogur — Garðabær — Hafnarfjörður). Þetta mun Garðbæingum e. t. v. koma spánskt fyrir sjónir, vegna þess að því fólki, sem í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og á Suðurnesjunum býr — og þar býr stór hluti þjóðarinnar, er það efst í huga að einhverri framtíðarskipan verði komið á umferðarmálin frá Reykjavík í gegnum Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og út á Suðurnes. Þetta er brýnasta verkefnið í umferðarmálum þjóðarinnar, þetta er forgangsverkefnið og á þessu máli verður að finna einhverja varanlega lausn næstu mánuði. Uppi eru þar ýmsar hugmyndir og menn eiga erfitt með að koma sér niður á þá leið sem heppilegust er. En eitt er víst, að í þetta verkefni verður að eyða öllu tiltæku fjármagni til þess að því verði lokið á sem skemmstum tíma. Þetta er mesta umferðaræð landsins og af þessum vegi koma líklega mestu tekjurnar í umferðarsjóð eða réttara sagt í ríkissjóð, sem síðan á að standa undir fjármögnun á varanlegum vegaframkvæmdum úti um land. Því er það nauðsynjamál fyrir hv, þm. Sverri Hermannsson að þessu máli verði komið í lag til þess að hægt verði að standa að einhverju leyti undir umframtekjum af sérsköttun umferðar frá og með næstu áramótum.