29.03.1979
Sameinað þing: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3727 í B-deild Alþingistíðinda. (2910)

225. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum og ríkisstofnunum

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 448 till. til þál. ásamt hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur um sveigjanlegan vinnutíma hjá ríkisfyrirtækjum og ríkisstofnunum þar sem segir:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að 1) láta kanna, að hve miklu leyti sé hægt að koma við sveigjanlegum vinnutíma starfsmanna ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana, og 2) koma slíkri vinnutilhögun á, þar sem slíkt þykir henta.“

Í upphafi grg. er því lýst, að till. þessi sé m. a. flutt vegna yfirlýsingar sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu Sjálfstfl. um efnahagsmál, þar sem m. a. er komist svo að orði, með leyfi forseta: „Kaupmáttur á vinnustund verði aukinn með sveigjanlegum vinnutíma, starfshvatningu og hagræðingu.“ Með þessari stefnuyfirlýsingu um sveigjanlegan vinnutíma leggur Sjálfstfl. áherslu á mikilvægi þess, að vinnutilhögun taki sem mest tillit til mismunandi einkaaðstæðna starfsfólks. Þessari þáltill. er þess vegna ætlað það hlutverk að leggja til við stjórnvöld að þau færi sér í nyt kosti sveigjanlegs vinnutíma, þar sem það á við, þegar tekið er tillit til þjónustuhlutverks stofnana og fyrirtækja annars vegar og haft hefur verið samráð við starfsmenn og stjórnendur þeirra hins vegar.

Í grg. með þessari þáltill. er því lýst m. a., hvernig sveigjanlegur vinnutími er. Hann er í örstuttu máli sá, að í stað þess að öllum starfsmönnum fyrirtækja sé ætlað að koma til vinnu á ákveðnum tíma er heimilt að menn geti komið á mismunandi tíma að morgni til vinnu og eins farið heim að kvöldi í samræmi við það, en skili annaðhvort yfir sama daginn ákveðnum vinnustundafjölda eða stundum er um það að ræða að vinnustundafjöldi á viku er lagður til grundvallar eða jafnvel á mánuði. Yfirleitt er þó um það að ræða, að svokallaður „kjarnatími“ er eða fastur vinnutími, þegar öllum ber að vera til staðar á vinnustað. Þetta kerfi er að sjálfsögðu hægt að útfæra með mismunandi hætti, en ég tel ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þá sálma hér.

Það mun hafa verið fyrirtækið Skeljungur hf. sem fyrst íslenskra fyrirtækja kom á hjá sér þessari skipan á árinu 1974, en síðan hafa önnur fyrirtæki jafnframt tekið upp þennan hátt, þ. á m. Olíuverslun Íslands, Flugleiðir, Skýrsluvélar ríkis og Reykjavíkurborgar og líklega Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Á sínum tíma, eftir að þessi háttur hafði verið á hafður hjá Skeljungi um hríð, gerðu forstöðumenn þess fyrirtækis könnun meðal starfsmanna og í þeirri könnun kom fram að á þá 40 starfsmenn, sem breytingin gat náð til, hafði hún ýmis góð áhrif. Í könnun þessari voru lagðar fram ýmsar spurningar og ég vil fara nokkrum orðum um niðurstöðurnar.

25% starfsmannanna breyttu ekki vinnuhegðun sinni og hófu vinnu að öðru jöfnu kl. 9 að morgni. 70% starfsmanna hófu yfirleitt störf fyrir kl. 9 og þar af rúmlega helmingurinn kl. 8. Samkv. könnun þessari óskaði þorri starfsmanna eftir áframhaldandi sveigjanlegum vinnutíma þegar könnunin fór fram. Þegar spurt var um, hvort óhagræði hefði fylgt þessum breytingum, kom fram, að yfirgnæfandi meiri hluti taldi svo ekki vera. Mætingar á milli kl. 9.30 og 10 reyndust vera fáar, þótt að öðru jöfnu væri talið hagræði að því að hafa þann möguleika opinn fyrir starfsfólk að það gæti komið allt til kl. 10, ef þannig stæði á. Þá var breytingin talin m. a. hafa fækkað þeim tilfellum að starfsmenn skiluðu ekki réttum starfstíma, t. d. þegar mætt er kl. 9.10 og farið kl. 5. Það var dregið úr fjarvistarbeiðnum vegna aukinna möguleika starfsmanna til þess að athafna sig í einkaerindum utan skrifstofutíma, annaðhvort á milli 9 og 10 að morgni eða milli 4 og 5 síðdegis. Og það kom jafnframt fram í könnuninni, þegar spurt var, að það var álit starfsmanna að starfsandi hefði batnað almennt meðal starfsliðsins á skrifstofunni.

Ótalmargt hefur verið skrifað um kosti og galla þessa kerfis. Á sínum tíma skrifaði Baldur Guðlaugsson lögfræðingur um þetta í Vinnuveitandann. Það var á árinu 1975. Og sjálfur skrifaði ég grein um þessi málefni í Iðnaðarmál á árinu 1976.

Það ber að taka fram, að sums staðar, og þó sérstaklega í Bandaríkjunum, var leitað annarra leiða þegar hugsað var um breytingar á vinnutíma starfsfólks. Á tímabili a. m. k. var lögð áhersla þar á fjögurra daga vinnuvikuna, en í seinni tíð hefur sú stefna verið tekin upp í Bandaríkjunum að halla sér fremur að sveigjanlega vinnutímanum, þar sem það á við. Nýlegar bandarískar kannanir, sem ég hef séð, sýna að þar er almenn ánægja með þetta nýja kerfi, en þó ber að geta þess, að það nær síður til þess fólks sem vinnur nætur- og vaktavinnu, þótt eflaust sé hægt að nýta ýmsa kosti kerfisins með því að gera slík störf og þá mætingar sveigjanlegri en hingað til hefur tíðkast. Ég bendi á þetta hér, því að verulegur hluti íslensks vinnuafls vinnur slík störf, og þá á ég fyrst og fremst við sjómennina, sem hafa litla sem enga möguleika til þess að nýta slíka þætti.

Í Bretlandi fór fram ítarleg könnun meðal þeirra, sem höfðu unnið við slíkt kerfi, og eins annarra. Þess má geta, að sérstaklega var þar reynt að hafa upp á viðhorfum launþegasamtakanna. Bresku launþegasamtökin, sem hafa látið álit sitt í ljós, eru líklega ein íhaldssömustu launþegasamtök í heimi. Ég vil nú lýsa í örfáum orðum hver viðhorf þeirra voru, en það geri ég í þessari ræðu til þess að benda á nauðsyn þess að haft sé samband við alla aðila áður en slíkt kerfi er tekið upp.

Þegar stjórnarstofnunin í Bretlandi, British Institute of Management, gerði þessa könnun, en hún var gerð af Sally Rosham, kom eftirfarandi í ljós sem sjónarmið verkalýðsfélaganna bresku:

Í fyrsta lagi benda verkalýðsfélögin á, að hugsanlegt sé að stjórnendur fyrirtækja reyni að lengja vinnutíma starfsmannanna þegar mörg verkefni eru fyrirliggjandi, en beini frítíma starfsmanna á verkefnasnauðari tímabil. Með þrýstingi, beinum eða óbeinum, getur stjórn fyrirtækja dregið úr yfirvinnu og farið þannig á bak við grundvallaratriði kjarasamninga.

Í öðru lagi gera launþegasamtökin þá kröfu, að félagar þeirra njóti ágóðans sem meiri framleiðni og minni fjarvistir skila fyrirtækjunum.

Í þriðja lagi gjalda verkalýðsleiðtogar varhug við sveigjanlega vinnutímanum vegna þess að hann raskar grundvellinum undir 8 tíma vinnudeginum, sem er árangur áratugabaráttu samtakanna.

Í fjórða lagi er í greininni minnst á að sveigjanlegur vinnutími dragi úr samstöðu starfsmanna, enda fækki samverustundum í vinnutímanum.

Breska skýrslan greinir frá því, að meiri tortryggni gæti hjá launþegasamtökum verkamanna og iðjufólks en verslunar- og skrifstofumannafélögum.

Af því, sem hér hefur verið sagt, má ljóst vera að nauðsynlegt er að launþegasamtökin séu með í ráðum strax frá upphafi. Að vísu eru skoðanir skiptar um þetta meðal verkalýðssamtaka í Evrópu, og þess má geta að það var að frumkvæði verkalýðssamtakanna sem þetta var reynt í Svíþjóð á sínum tíma.

Ef lítið er almennt á kosti og galla þessa kerfis má benda á eftirfarandi kosti:

1. Komið er í veg fyrir umferðarteppu við stóra vinnustaði. Aðalferðatíminn til og frá vinnu er jafnaður út og ferðirnar taka styttri tíma.

2. Dregið er úr streitu sem stafar af skyldunni til að mæta stundvíslega.

3. Vinnuveitandinn þarf ekki að hafa slæma samvisku, þótt hann mæti ekki fyrstur á morgnana eða fari fyrr heim á kvöldin.

4. Laun eru aðeins greidd fyrir unnar stundir. Minni yfirvinna er unnin, bæði vegna þess að vinnan dreifist á lengri tíma og eins vegna þess að starfsfólkið tekur sig sjálft til og vinnur styttri vinnudag þegar lítið er að gera, en lengir vinnudaginn þegar verkefnum fjölgar.

5. Eins dags fjarvistir hverfa að miklu leyti.

6. Einfaldara er fyrir fólk að sinna einkamálum sínum í valtímanum, þ. e. a. s. þann tíma sem menn ráða því hvort þeir eru á vinnustað eða ekki.

7. Fólk velur sér vinnudag eins og hverjum hentar best.

8. Kerfið hjálpar til við endurnýjun og ráðningu starfsfólks og eykur möguleika giftra kvenna til þátttöku í atvinnulífinu.

9. Starfskraftur fyrirtækjanna verður stöðugri.

10. Ábyrgð starfsmanna eykst og samband stjórnenda og starfsfólks batnar. Vinnuáhugi verður meiri og framleiðni eykst.

11. Fólk á kost á kyrrð í valtímanum til að vinna að verkefnum sem einbeitingu þarf við.

12. Betri áætlanagerð og virkari boðmiðlun fá aukið gildi.

13. Lokið er við verkefni, en þau ekki geymd til næsta dags.

Helstu gallar, sem nefndir hafa verið, eru:

1. Aukinn rekstrarkostnaður, t. d. ljós og hiti, vegna lengingar heildarvinnudags.

2. Aukin vinna og meiri kostnaður vegna eftirlits og vinnutímaskráningar.

3. Ekki eiga allir kost á að vinna sveigjanlegan vinnutíma. Þeir, sem ekki eiga þess kost, fara gjarnan fram á kauphækkun.

4. Boðmiðlun er erfiðari, bæði innan fyrirtækisins og milli fyrirtækja og stofnana.

5. Starfsfólk getur ekki lengur rekið einkaerindi í föstum vinnutíma, yfirvinna minnkar og sérréttindi ákveðinna hópa hverfa.

Þessi atriði eru stundum fremur talin til ókosta af hálfu starfsfólksins.

Ég vil bæta því við, að undanfarna mánuði hefur talsverður áhugi verið á þessu máli, og ég vil geta þess að Landssamband sjálfstæðiskvenna og sjálfstæðiskvennafélagið Hvöt héldu ráðstefnu um þessi mál og hafa síðan kynnt þetta mál með því að senda um það upplýsingar til stærri fyrirtækja í landinu.

Hér er m. a. verið að samræma þarfir atvinnu- og fjölskyldulífsins, og væri vissulega gleðilegt ef þessi till. yrði samþykkt sem stefnumótandi ályktun á barnaári Sameinuðu þjóðanna.

Ég leyfi mér síðan, herra forseti, að leggja til að till. verði vísað til hv. allshn.