02.04.1979
Efri deild: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3755 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég held að það hafi ekki margt nýtt komið fram í ræðum hv. ræðumanna stjórnarandstöðunnar hér.

Frsm. minni hl. lagði sérstaka áherslu á að það væri margt öðruvísi ef lögin, sem sett voru í febr. í fyrra, hefðu haldist óbreytt. Vitanlega voru þau lög sett til þess að draga úr verðbólgu og gera efnahagsmálin auðveldari. Það var áreiðanlega tilgangur beggja stjórnarflokkanna, sem að þeim stóðu, ég er ekkert að draga úr því. Hins vegar varð árangurinn af því ekki eins góður og við höfðum óskað. Í því yfirliti, sem Þjóðhagsstofnun hefur birt, kemur fram að hinn 1. des. var framfærsluvísitalan í reynd 135.3 stig, en hefði orðið samkv. febrúarlögunum óbreyttum að hennar mati 137.9 stig. Þær ráðstafanir, sem núv. ríkisstj. gerði eftir að hún komi til valda, nægðu því til þess að framfærsluvísitalan varð þó heldur lægri hinn 1. nóv., sú sem kaup var reiknað eftir 1. des., en hefði orðið að óbreyttum febrúarlögunum. Hins vegar var kaupið nokkru hærra, eða í staðinn fyrir 134.1 var það 141.6. Mér dettur í hug í því sambandi, þar sem ég held að hv. 5. þm. Vestf. hafi sagt áðan eitthvað á þá leið að ekki nægði að ætla launþegum að taka á sig byrðar, það þyrftu allir í þjóðfélaginu að gera, að það er vitanlega það sem núv. ríkisstj. hefur verið að reyna að gera og hefur tekist, eins og kom líka fram í máli hv. frsm. minni hl. Hann var að tala um að það hefðu verið lagðir skattar á atvinnurekstur og annað slíkt. Á þann hátt var verið að reyna að dreifa þessum byrðum. Ég held því að þarna sé einhver mótsögn í málflutningnum.

Hv. 5. þm. Vestf. ræddi um niðurgreiðslurnar og að þetta væri ekki vel grundað nú þegar við vanda væri að eiga í sölumálum landbúnaðarins. Það er rétt, að það eru til miklar birgðir landbúnaðarvara og sú hætta hefur vofað yfir undanfarin ár. Bændur væntu þess, að þegar niðurgreiðslur væru auknar og söluskatti aflétt mundi sala þessarar vöru vaxa. Sem betur fer hefur salan vaxið nokkuð, en þó ekki í mjög ríkum mæli. Það sýnir að mínu mati að þegar niðurgreiðslurnar eru komnar í visst mark eru því a. m. k. ákaflega mikil takmörk sett hvað hægt er að auka söluna mikið með því að bæta þá við. Hitt hefur miklu verri afleiðingar fyrir söluna, ef það verða miklar sveiflur upp og niður á niðurgreiðslunum. Stéttarsamband bænda hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að úr því yrði reynt að draga. Það teljum við að sé gert með því ákvæði að reyna að binda við vinnslu- og dreifingarkostnað. Hins vegar á að draga úr þessu svo hægt í áföngum að stefnumarkið eitt út af fyrir sig valdi ekki sveiflum.

Mér fannst dálítið athyglisvert að heyra það hjá hv. 5. þm. Vestf., að það þyrfti að gjalda varhug við arðsemismati. Það er í frv. þessu lögð áhersla á arðsemi, félagslega nauðsyn o. fl. Það er því fleira en arðsemi sem þarf að taka til greina.

Vegna aths. hv. þm. um 1. gr. frv., hvað væri „hæfilegt jafnvægi“, þá hef ég kannske ekki skýrt nægilega, þó að ég væri að reyna það, hvað við legðum áherslu á með brtt., sem átti þó að útskýra þetta nánar. Í meginmarkmiðun er rætt um nokkur atriði sem stefnt er að, þ. e. að tryggja næga og stöðuga atvinnu, halda verðhækkunum í skefjum, stuðla að jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd og greiða fyrir félagslegum og efnahagslegum framförum og bættum lífskjörum almennings. En í síðari mgr. og með þeirri breytingu, sem við gerðum á henni, töldum við að kæmi skýrt fram að það ætti ekki að leggja svo mikla áherslu á eitt atriðið í þessu, t. d. að stuðla að jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd, að það undir vissum kringumstæðum leiddi til þess að næg og stöðug atvinna væri ekki tryggð, það mætti ekki einblína svo á eitt þessara atriða að það kæmi um of niður á öðrum, því að að sumu leyti gæti þarna verið um mótsagnir að ræða.

Þá ræddi hv. 5. þm. Vestf. mjög um atvinnuvegaáætlanir, sem gert er ráð fyrir í frv., og taldi að það væri erfitt að finna fyrirmyndir að þeim. Upphaf 22. gr. hljóðar svo:

„Ráðuneyti einstakra atvinnuvega skulu hafa forgöngu um gerð atvinnuvegaáætlana hvert á sínu sviði.“ Nú vil ég ekki fullyrða að eitthvað þurfi að vera miklu verra þó að það sé ekki einhver ákveðin fyrirmynd til, ef mönnum finnst það vera gott á annað borð. En mig langar í þessu sambandi að benda á að hér er á borðum till. til þál. um stefnumörkun í málefnum landbúnaðarins, flutt af mjög mörgum þm. Sjálfstfl. Og enda þótt það hafi komið fram, að sú stefnumörkun sé kannske að einhverju leyti sniðin eftir hugmyndum sem núv. hæstv. landbrh. var búinn að undirbúa og dreifði á fundi eða ráðstefnu nokkru eftir áramótin, þá held ég að þessir hv. þm. hafi talið að þarna væri um gott málefni að ræða, úr því að þeir fluttu till. til þál. um þetta. 3. flm. er hv. 5. þm. Vestf. Ef um er að ræða stefnumörkun hlýtur að vera um að ræða einhverja áætlun fram í tímann.

Það getur vel verið að hægt sé að gera VII. kafla frv. eitthvað skýrari, — kafla sem hv. 5. þm. Vestf. sagði að væri saminn eftir ábendingum frá eða jafnvel af fulltrúum frá Seðlabankanum, — en ég held að það hljóti að hafa fjallað um hann menn sem eru kunnugir þeim málum.

Ræðumaður lagði einnig áherslu á að það þyrfti að gera þjóðinni ljóst að mikið lægi við nú að reyna að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Ég held að ég hafi einmitt bent á það í framsöguræðu minni, að slíkt er mjög mikilvægt. Ég taldi að sá mikli áhugi, sem hefur komið fram hjá almenningi um að þetta frv. væri afgreitt, væri einmitt besti rökstuðningurinn fyrir því að þjóðinni væri ljóst að þessa frv. væri þörf.

Hv. þm. benti einnig á að í bráðabirgðaákvæði í brtt. n. muni BSRB og BHM hafa nokkra sérstöðu gagnvart öðrum aðilum, þar sem þau samtök hafi gert samning við ríkisstj. um að fá viss réttindi í stað þessara 3%. Ég vil bara segja það, að það yrði þá tekið til athugunar fyrir 3. umr. þessa máls ef þarna þyrfti að koma fram einhver sérstaða vegna þess að þeir hafa þegar tryggt sér möguleika á því að geta fengið ákveðin réttindi fyrir þessi 3%.

Í sambandi við aths. hv. þm. við 54. gr. kom það fram í fjh.- og viðskn., að það gæti verið erfitt að vita með tveggja mánaða fyrirvara hvort draga þyrfti úr starfsemi. Ég vil benda á það, að þarna er talað um ráðgerðan samdrátt, og vitanlega gerir t. d. ekkert frystihús, sem ræðumaður tók sem dæmi, ráð fyrir því fyrir fram að það vanti hráefni til vinnslu. Ef þarna er um ófyrirsjáanlegar orsakir að ræða sýnist mér að greinin taki ekki tillit til þess, það sé því aðeins að þarna sé um ráðgerðan samdrátt að ræða.

63. gr. fjallar um endurskoðun á lögum um Aflatryggingasjóð. Þessi lagagrein út af fyrir sig breytir ekkert þeim reglum sem sjóðurinn starfar eftir. Það gerist ekki fyrr en slík endurskoðun hefur farið fram og þá ný lög sett um það.

Ég man ekki eftir að það sé fleira sérstakt sem ég þarf að taka fram í sambandi við þær aths. sem komu fram í ræðum hv. ræðumanna stjórnarandstöðunnar.