02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

12. mál, efling þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það er aðeins lítil athugasemd sem hefði kannske verið hægt að falla frá til að tefja ekki umr. Ég vil lýsa stuðningi við þessa tillögu. En hv. þm. Friðrik Sophusson lét þau orð falla hér í umr., að fyrirtæki úti á landi skorti ekki aðeins fjármagn, heldur einnig rekstrarlega þekkingu. Þessu vil ég mótmæla eins og það er fram sett. Ég get hins vegar tekið fyllilega undir það, að við atvinnurekstur í landi okkar skortir víða rekstrarlega þekkingu og veldur vissulega miklum erfiðleikum. En það á ekki aðeins við úti á landsbyggðinni heldur alveg eins eða jafnvel fremur víða í þéttbýlinu. Á þessu þarf að ráða bót, og ég tel að umræður, námskeið og alhliða fræðsla á þessu sviði sé mjög brýn og á það þurfi að leggja sérstaka áherslu þegar menn ræða um þetta mál almennt. — Ég vildi aðeins leyfa mér að vekja athygli á þessu, en að öðru leyti lýsa stuðningi við till. eins og hún liggur fyrir.