03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3781 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

178. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þar sem verið er að ræða hér um menningarmál langar mig til að víkja örlítið að einum þætti þeirra mála, sem reyndar hefur verið til umr. fyrr á þinginu og ástæða er til að ítreka fsp. til ráðh. um, enda á hæstv. ráðh. eftir að svara ýmsu því sem fram hefur komið, en það er varðandi útvarp og sjónvarp og stöðu þessara fjölmiðla, sem eru stuðningsmiðlar við menningu og mennt í landinu.

Ég vil rifja það upp, að á sínum tíma störfuðu tveir menn, Andrés Björnsson útvarpsstjóri og Andri Ísaksson starfsmaður í menntmrn., að því að útbúa hugmyndir um hvernig sjónvarp og útvarp gætu komið að sem mestu gagni við að miðla menntun til landsmanna. Það skal tekið fram, sem er augljóst, að þessi miðill hefur það umfram alla aðra að ná til allra landsmanna jafnt, og þess vegna er sjálfsagt að nota hann í því skyni að koma ákveðinni stefnu til skila. Þá á ég ekki við flokksbundna stefnu á neinn hátt, heldur það sem kallað er „kulturpolitik“, stefnu sem þingið markaði hverju sinni með sínum fjárveitingum. Mig langar til þess að heyra hæstv. ráðh. örlítið víkja að þessu, og þá leyfi ég mér að nota orðalag, sem hefur verið notað fyrr á fundinum, að það væri ástæða til að spyrja um hugrenningar hans í þessu sambandi, ef einhverjar eru, því að ég efast um að málin séu komin á framkvæmdastig.