02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér skilst að megintilgangur flm. með þessari till. sé tvíþættur: Í fyrsta lagi að tryggja innlendum veiðimönnum eðlilegan aðgang að íslenskum laxveiðiám og í öðru lagi að fá nokkurt fjármagn til þess að efla fiskrækt í sjó og vötnum. Og ég get tjáð mig mjög samþykkan báðum þessum sjónarmiðum. Reyndar get ég orðið við áskorun hans og tileinkað mér að nokkru þessa hugmynd og er kannske rétt að gera það. Svo er mál með vexti, að við hv. 4. þm. Norðurl. e. fluttum í Ed. fyrir allmörgum árum, svo að hætt er að vísu að höfundarrétturinn sé ekki í gildi enn, frv. í Ed. um einmitt slíkt gjald af veiðileyfum sem átti að renna til rannsóknarstarfsemi.

Hins vegar verð ég að segja að ég efast um að flm. nái þeim tilgangi, sem hann hefur lýst hér í mjög ítarlegri og fróðlegri framsöguræðu. Ég efast mjög um að forstjóra Pepsí-Cola, sem flýgur hingað á einkaþotu sinni til að veiða í Laxá í Dölum, muni nokkuð um að greiða veiðileyfi til viðbótar. Ég hygg sem sagt að þetta geti orðið leið til að afla tekna til að auka rannsóknarstarfsemi og að mörgu leyti eðlileg leið og leið sem er farin í ýmsum löndum. Ég er þeirrar skoðunar, að vel mætti athuga, eins og fram kemur í grg., að allir, sem laxveiði stunda, innlendir og erlendir, greiði slíkt veiðileyfi, en það verði hins vegar stórum hærra fyrir erlenda aðila. Svo er það t.d. í Noregi, þannig er það í Bandaríkjunum, þar sem ég þekki það af eigin raun, og er talið raunar sjálfsagt að innlendir aðilar hafi þar nokkurn forgang að slíkum hlunnindum.

Eins og ég sagði áðan, efast ég stórlega um að þetta hamli mikilli veiði erlendra aðila hér á landi, þó að vísu komi ekki fram hjá hv. frsm. hvað hann hugsar sér þetta gjald hátt. Væri fróðlegt að fá það upplýst.

Svo er hitt vandamálið, sem mjög er rætt nú, og það er vaxandi sókn erlendra veiðimanna í íslenskar laxveiðiár. Ég hef þegar átt viðræður við nokkra aðila um þetta mál og frekari viðræður eru í undirbúningi. Ég tel að þarna verði að ná samkomulagi með íslenskum laxveiðimönnum og veiðiréttareigendum. Ég efast stórlega um að nokkur boð eða bönn komi í veg fyrir slíka veiði.

Ég hygg að megi vel færa rök fyrir því og sé að öllum líkindum rétt, sem hv. frsm. sagði og vísaði í Sigurð Líndal prófessor, — ég hef einnig kynnt mér skýrslu hans, — að mjög er vafasamt að erlendir aðilar geti samkv. íslenskum lögum án heimildar félmrh. stundað það að taka á leigu íslenskar laxveiðiár. Ég hygg að þetta hljóti að falla undir atvinnurekstur. Þeir reka gjarnan um leið veiðihús og jafnvel framleigja árnar og til þess þarf sannarlega atvinnuleyfi. En ég er jafnsannfærður um að þetta verður ekki stöðvað með því að banna slíkt. Ég hygg að það séu nógu margir Íslendingar til, sem mundu gjarnan kjósa að vera milliliður, og reyndar vitum við þess fjölmörg dæmi. Því er ég þeirrar skoðunar, eins og ég sagði áðan, og er reyndar megintilgangur minn upp í ræðustólinn að leggja áherslu á, að þótt þetta mál sé góðra gjalda vert og geti væntanlega orðið til þess að efla fiskeldi og fiskrækt, sem er stórmál hjá okkur, þarf að leysa hinn vandann, um einhvern eðlilegan forgang íslenskra stangveiðimanna að íslenskum veiðiám, á annan máta. Ég efast um að það verði gert nema með samkomulagi veiðiréttareigenda og stangveiðimanna.

Ég vil svo að lokum vegna síðustu orða frsm., þar sem hann boðaði að hann mundi flytja frv. eða till. til þál. um nýskipun þessara mála, upplýsa að þetta er einnig í undirbúningi í landbrn. Veiðilöggjöfin er ákaflega viðamikið og viðkvæmt mál, og ég er þeirrar skoðunar, að að endurskoðun hennar beri að vinna í samráði við þá aðila sem eiga stórra hagsmuna að gæta. Ég er að undirbúa slíkt. Ég tel að það muni taka töluverðan tíma. En þessi atriði, sem hér hafa verið rædd, hljóta að sjálfsögðu að koma inn í slíka endurskoðun og jafnframt fjölmargt fleira, eins og verulega efld rannsóknarstarfsemi á þessu sviði. Sú spurning hlýtur að vakna, hvar sú rannsóknarstarfsemi á að vera, hvar leiðbeiningastarfsemi á að vera fyrir lax- og silungseldi og mörg önnur atriði þarf að taka til athugunar. Það mál þarf því verulegs undirbúnings við.