06.04.1979
Neðri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4032 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs m. a. sem nm. í fjh.- og viðskn., þar sem ég hef skrifað upp á nál. meiri hl. með fyrirvara, sem ég mun gera nokkra grein fyrir í máli mínu nú.

Ég vil þó byrja á því að þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf við ákveðnum spurningum sem ég beindi til hans við 1. umr. þessa máls, fyrir líklega tæpum tveimur sólarhringum. Ég hlýt að játa það, að svör hæstv. forsrh. voru mjög skýr og það fór á engan hátt milli mála hvað í þeim fólst, enda átti ég von á að svo mundi verða. Hitt verð ég að segja, því miður, að vissulega hefði verið ánægjulegra fyrir mig ef hæstv. forsrh. hefði talið sig hafa nokkurn möguleika á því að hnika til þeim atriðum eða því atriði í frv., sem ég spurði sérstaklega um, en það var hvort þær láglaunabætur, sem gert er ráð fyrir að greiða 1. júní, fengju að standa lengur en í 6 mánuði. Það kom skýrt fram í svari hæstv. ráðh., að hann telur þess engan kost. Þar af leiðandi hlýt ég með tilliti til annarra atriða einnig, sem ég kem nokkru nánar að, að halda mig við þá afstöðu sem ég kynnti við 1. umr. málsins.

Ég vil fara nokkrum orðum um örfá atriði sem hæstv. forsrh. minntist á. Hann kvaðst ekki skilja þá röksemdafærslu af minni hálfu, að ég gæti talið nokkur vandkvæði á því að fylgja frv. þrátt fyrir ákvæðið varðandi láglaunabæturnar. Nú er það auðvitað svo, að ég er manna fúsastur að viðurkenna að það sé til nokkurra bóta að þessar láglaunabætur skuli þó greiddar í 6 mánuði frekar en þær væru alls ekki greiddar, og ég mun að sjálfsögðu veita því bráðabirgðaákvæði stuðning út af fyrir sig. En hitt tek ég fram, að í tengslum við aðra þætti málsins og heildarniðurstöðu þess tel ég mjög illa farið að kveðið skuli skýrt á um það í frv, að þessar láglaunabætur skuli aðeins gilda í 6 mánuði, og það, að þetta skuli fram tekið, á mjög verulegan þátt í því að ég get ekki veitt frv. í heild stuðning.

Hæstv. forsrh. hafði á orði, að ef menn vildu líta á málin með svipuðum hætti og ég geri væri í rauninni aldrei hægt að gera neitt fyrir láglaunafólkið í landinu sérstaklega. Þessari kenningu vil ég vísa algerlega á bug.

Það hefur yfirleitt verið svo með launaákvarðanir, hvort sem hefur verið til hækkunar eða lækkunar, hvort sem laun hafa verið ákveðin í kjarasamningum eða með ákvörðunum héðan frá Alþ., að slíkar ákvarðanir um breytingar á launakjörum hafa yfirleitt verið við það miðaðar að þær stæðu þangað til um annað hefði verið samið. Hér er því um algera undantekningu að ræða í þessum efnum, að það skuli kveðið skýrt og afdráttarlaust á um að sú launabreyting, sem felst í þessum sérstöku greiðslum, skuli aðeins standa í 6 mánuði. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma vitað til þess, að ákvæði um, að launagreiðslur skyldu standa ákveðinn tíma, aðeins ákveðinn mánaðafjölda, hafi verið að finna í kjarasamningum. Og ég minnist þess reyndar ekki heldur í sambandi við ráðstafanir til breytinga á launum, sem gerðar hafa verið með ákvörðun Alþingis. Þegar það er jafnbrýnt og ég tel það vera að stíga í þessu landi einhver varanleg skref í átt til launajöfnunar er illt við það að búa, að menn skuli ekki geta fengið fram samkomulag um að þessar litlu launajöfnunarbætur fái að gilda áfram.

Hæstv. forsrh. greindi frá því, að hv. 1. þm. Austurl. — (Gripið fram í.) Já, það vitum við báðir og þekkjum vel, og ég segi vegna innskots hæstv. forsrh., að það er enginn misskilningur uppi í þeim efnum, að verkalýðshreyfingin hefur formlegan rétt til að semja um annað. Að sjálfsögðu hafa verkalýðsfélögin sína möguleika til að leita samninga, en það höfðu þau líka áður en þetta frv. var lagt fram. Frv. breytir engu um það.

Hæstv. forsrh. greindi frá því, að hv. 1. þm. Austurl., formaður þingflokks Alþb., Lúðvík Jósepsson, hefði í viðræðum fulltrúa stjórnarflokkanna í fjh.- og viðskn. Ed. og Nd. leitað eftir því, að þessar bætur fengju að standa lengur, en því hafi verið hafnað og þess vegna hafi málalyktir orðið þessar. Ég veit að þessi frásögn hæstv. forsrh. er í alla staði rétt, og mér er kunnugt um að af hálfu allra þm. í mínum þingflokki er uppi eindreginn vilji til að þessar bætur standi áfram, þó að margir í þingflokki okkar hafi talið sig til þess knúða að sættast á þessi málalok að sinni, miðað við hvað andstaðan gegn áframhaldandi greiðslum láglaunabótanna virtist sterk og ákveðin hjá samstarfsflokkunum. En eins og kom fram í máli mínu við 1. umr. vil ég ekki, með tilliti til þess hvernig verðbótakafli frv. er að öðru leyti, una þessu.

Hæstv. forsrh. kvað það vera sína persónulegu skoðun, að í rauninni þyrftu lægri launin eða láglaunin að fara hækkandi. Ég vil þakka honum fyrir þau orð og ég vil segja það, að enda þótt menn láti oft og tíðum ein eða önnur ummæli falla sem sína persónulegu skoðun, ef þeim fylgir engin ábyrgð, vil ég ekki væna hæstv. forsrh. um að ekki fylgi hugur máli í þessum efnum. Ég vil treysta því, að í rauninni sé það vilji hæstv. forsrh. að lægstu og lægri laun í landinu fari hækkandi á næstu mánuðum, og ég á við að þau færu hækkandi enda þótt ekki væri um það að ræða að meira kæmi til skipta í þjóðarbúinu, heldur vegna aukinnar launajöfnunar. En hæstv. forsrh. tók líka fram, að hann hefði ekkert umboð frá flokki sínum til að gefa eitt eða neitt undir fótinn í þessum efnum. Og það er nú einu sinni svo, að einmitt spurningin um það umboð skiptir meira máli en persónulegar skoðanir hæstv. forsrh. — með allri virðingu þó fyrir þeim. Það mun vera svo, að í þeim viðræðum, sem hæstv. forsrh. vitnaði til milli fulltrúa stjórnarflokkanna í fjh.- og viðskn., þar sem formaður flokks míns reyndi allt sem í hans valdi stóð til að knýja fram breytingu á þessu atriði og fá samþykkt að láglaunabæturnar fengju að standa, hafnaði því miður ekki aðeins fulltrúi Alþfl. algerlega þeim möguleika, heldur gilti hið sama um fulltrúa Framsfl.

En ég vil, vegna þess að hæstv. forsrh. minntist á sínar persónulegu skoðanir, minna á það, að fyrir tæplega tveimur árum stóðu yfir kjarasamningar, sem lauk í júní 1977, — þeir kjarasamningar sem síðan hefur staðið barátta um að fengju að standa hjá almennu verkalýðsfélögunum. Í þeim samningum var það meginkrafan að lægstu laun hækkuðu upp í 100 þús. kr. á mánuði fyrir dagvinnú. Og hvað skyldi sú upphæð vera há nú? Ég hygg að hún muni nú, miðað við hækkun framfærslukostnaðar, samsvara a. m. k. 200 þús. kr. á mánuði, en 100 þús. kr. krafan var á sínum tíma miðuð við verðlag 1. nóv. 1976. Ekki hef ég þá tölu nú nákvæmlega, en eitt er víst, að það vantar mikið á að lægstu laun, sem nú eru greidd, hafi náð því að samsvara 100 þús. kr. kröfunni miðað við verðgildi peninganna. Þau eru þar langt fyrir neðan og voru það strax er samningum lauk, vegna þess að krafan náðist ekki fram að fullu, þar vantaði mikið á. Ég nefni þetta ekki síst vegna þess að hæstv. núv. forsrh. greindi frá því einmitt þegar þessir kjarasamningar stóðu yfir á fyrri hluta árs 1977, að hann væri í rauninni fylgjandi þessari kröfu eins og hún var þá sett fram um 100 þús. kr. lágmarkslaun. Það ætti að skipa málum þannig nú, að lægstu laun næðu því að samsvara því sem þá voru 100 þús. kr., eins og hæstv. forsrh. taldi þá rétt, og ég get vel látið mér detta í hug að hann teldi það jafnvel rétt enn, ef hann væri einn í ráðum eða ef hann væri einn í ráðum með Alþb. Ef þannig ætti að skipa málum þyrfti hér enga kjaraskerðingu. heldur kjarabót. Þessi góði vilji hæstv. forsrh. hefur þó komið fyrir ósköp lítið, og er þó sagt að hann ráði miklu í sínum flokki. En þarna eru önnur sjónarmið greinilega sterkari og það miklu sterkari. Það höfum við fengið að reyna í þessu samstarfi.

Varðandi það, sem hæstv. forsrh. ræddi um í sambandi við viðskiptakjaraviðmiðun varðandi greiðslu verðbóta á laun, þá minntist hann á að í álitsgerð Alþýðusambands Íslands hafi ekki verið komið fram með neina beina till. um hvernig þessari viðskiptakjaratengingu ætti að haga í upphafi þegar hún yrði sett á. Það er alveg hárrétt. Alþýðusambandið setti ekki fram neina beina till. um þetta. Það sagði í álitsgerð þess, eins og hæstv. forsrh. vitnaði til, að Alþýðusambandið væri til viðræðu um hvort og hvernig taka mætti upp viðskiptakjaravísitölu í framtíðinni. Meira segir ekki þar. En að sjálfsögðu var með því reiknað af hálfu Alþýðusambandsins, að eftir að það hafði hvað þetta varðar í raun og veru boðið fram sáttahönd, í máli sem Alþýðusambandið hafði löngum á undanförnum árum lítið viljað ræða, en lýsti nú yfir að það væri tilbúið til viðræðna um, hvort og hvernig taka mætti upp viðskiptakjaravísitölu, þá var reiknað með að óskað yrði eftir frekari viðræðum við Alþýðusambandið. En það er nú einu sinni svo, að eftir að málið komst á lokastig fóru engar viðræður fram. Það var að vísu búið að fjalla heilmikið um það áður og það má segja sem svo, að Alþýðusambandið hafi haft tækifæri til að setja sína tillögugerð fram, sem það ekki gerði. Mér er kunnugt um að jafnan var gengið út frá því af þess hálfu, að á lokastigi yrði sérstaklega fjallað um þetta atriði í alvarlegum viðræðum. Það var því miður aldrei gert. Hæstv. forsrh. setti fram ákveðna till. um þessi efni í frv. án þess að ítarleg umr. hefði farið fram um málið á einum eða neinum vettvangi, þar sem menn hefðu borið saman valkosti. Þeir eru sannarlega fleiri en einn og fleiri en tveir. Ég held að enginn þurfi að vera í neinum vafa um að Alþýðusambandið og verkalýðsfélögin almennt hefðu látið sig mjög miklu skipta og láta sig miklu skipta hvernig þessari tenginu við viðskiptakjör sé fyrir komið í upphafi. Það er auðvitað ekki á því nokkur vafi, ef þau hefðu átt þess nokkurn kost að velja á milli tveggja valkosta, annars vegar þess kosts, að tengingin kallaði fram 3% kaupskerðingu í fyrsta skipti sem hún færi að verka, eða þess kosts, að slík tenging kallaði fram í byrjun aðeins 0.3% kaupskerðingu, hvaða kost Alþýðusambandið hefði talið réttara að taka. (HBl: Hvor kosturinn er það?) Það er sá kostur að miða viðskiptakjaravísitöluna við viðskiptakjarastig síðasta hálfa ársins áður en hún er sett á, sem aðeins þýddi 0.3% skerðingu, þegar viðmiðun frv. við meðaltal alls ársins 1978 leiðir til 3% skerðingar.

Í þessum umr. hefur öðru hverju verið imprað á þeim atburði, þegar Kjaradómur hvað upp úrskurð sinn varðandi launaþakið margumtalaða, og það hefur m. a. verið vitnað til þess, að borgarstjórn Reykjavíkur hafi orðið einna fyrst til þess að greiða fullar verðbætur á hæstu laun á síðasta ári. Það er að sjálfsögðu algerlega rétt, að borgarstjórn Reykjavíkur tók á sínum tíma þessa ákvörðun og stóðu að henni fulltrúar allra meirihlutaflokkanna þar. Þessi ágæti borgarstjórnarmeirihluti, sem margt hefur vel gert og á vonandi eftir að gera enn þá fleira gott, og ég ber til hans allmikið traust, tekur þessa ákvörðun, en það er ekki þar með sagt að þess vegna þurfi þessi ákvörðun endilega að vera rétt. Og ég segi af minni hálfu, að ég hef frá því fyrsta verið andvígur þessari ákvörðun, og ég er sannfærður um að í öllum stjórnmálaflokkunum, sem eiga fulltrúa á Alþ., eru uppi, innan hvers flokks um sig, nokkuð mismunandi skoðanir í þessum efnum. Á því þarf reyndar enginn að vera hissa. Hitt er skylda okkar á Alþ., að segja meiningu okkar og gera grein fyrir viðhorfum okkar, hvort sem þau eru í samræmi við skoðanir einhverra annarra í þessu eða hinu máli, sem e. t. v. eru í sama flokki og við.

Ég er reyndar alveg sammála hæstv. forsrh. um að þetta umrædda launaþak gat auðvitað aldrei staðið til mjög langrar frambúðar, vegna þess að í verulegri verðbólgu hefði skjótlega komið að því — hefði það t. d. átt að standa í 5 ár — að launajöfnun hefði orðið enn þá meiri en nokkur von var til að hægt væri að tryggja í raunveruleikanum, þó að við hefðum kannske viljað að allir fengju nákvæmlega sömu laun. Það er ljóst. Málið snerist hins vegar eingöngu um það, hvort væri nú þegar tímabært að afnema þakið eða hvort ætti að draga það eitthvað lengur, eins og ég hefði talið rétt að gera, og þá einnig spurning um það, hvort átti að afnema það með einu pennastriki eða í áföngum. Ég hefði talið rétt að afnema það í áföngum, og það lét hæstv. forsrh. reyndar í ljós að hefði verið sín skoðun líka og það gladdi mig. Við virtumst því vera á margan hátt sammála um þetta. Og enda þótt ég hafi vitnað til þess í ræðu minni við 1. umr., að till. hæstv. forsrh. í frv.-drögunum frá 12. febr. um afnám launaþaksins kynni að hafa haft áhrif á Kjaradóm, ætla ég út af fyrir sig ekki að halda því til streitu. Ég hygg að ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur á sínum tíma hafi haft þar a. m. k. ekki minni áhrif, trúlega meiri, þeir í Kjaradómi vitna til hennar. En það breytir hins vegar engu um það, að það, sem hæstv. forsrh. lagði til í þessum efnum í frv.-drögunum frá 12. febr., var að mínu viti óheppilegt og ég verð að segja að það olli mér vonbrigðum. Það var ekki að mínu viti ástæða til þess af hálfu hæstv. forsrh., á sama tíma og settar voru fram í þeim frv.-drögum till. sem fólu í sér allverulega skerðingu kjara lægst launaða fólksins og alls almenns launafólks, að hafa í sama frv. till. um þaklyftingu. Það held ég að hafi verið óheppilegt. Það var ekki gert ráð fyrir í þessum frv.-drögum að þetta gerðist í áföngum.

Menn hafa vitnað svolítið í ákveðna ræðu, sem hv. 1. þm. Austurl., formaður Alþb., flutti á Alþingi árið 1974. Hæstv. forsrh. minntist á þessa ræðu og hv. 6. þm. Norðurl. e. las úr henni kafla við 1. umr. Ég hygg að það hafi verið sama ræðan, a. m. k. voru tilvitnanirnar mjög líkar báðar. Mér finnst ástæða til að minnast örlítið á þessa ræðu fyrst hana hefur borið hér á góma, enda þótt ég hafi hana ekki við höndina, sem er kannske hirðuleysi af minni hálfu.

Efnislega fjallaði þessi ræða um það, að hv. núv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, var þá, eins og margur hefur gert, að vara við mikilvirkum skrúfugangi kaupgjalds og verðlags, sem gæti, þegar hann kæmist á hátt stig, leitt til mjög mikilla erfiðleika í þjóðarbúi okkar, og hann varaði við þessu með sterkum orðum úr þessum ræðustól. Hver er ekki tilbúinn til að gera það? Ég hygg að við gætum öll tekið undir slíkar almennar aðvaranir. En ágreiningurinn kemur þá fyrst upp þegar menn fara að ræða um hvernig eigi að draga úr eða stöðva þennan skrúfugang. Þá eru þeir allmargir, því miður, sem sjá engan möguleika annan en að ráðast á kaupið og jafnvel kaupið hjá lægst launaða fólkinu, þar verði að byrja til þess að ráða við verðbólguna. Því hefur hv. 1. þm. Austurl., formaður Alþb., aldrei haldið fram. Það bið ég menn að hafa vel í huga þegar þeir vitna í þessa ræðu. Við höfum haldið því fram í Alþb., og engir talað skýrar og betur fyrir því sjónarmiði en einmitt Lúðvík Jósepsson, að í þessum efnum þurfi að byrja á því að halda í við verðlagið, láta það ekki æða upp úr öllu valdi, því að takist það allvel muni kaupið að sjálfsögðu hækka minna í krónutölu í framhaldinu en ella og atvinnuvegirnir þurfa að borga færri krónur, án þess þó að kaupmáttur launanna hafi skerst. Það er að sjálfsögðu þetta sem formaður Alþb. var á sínum tíma að leggja áherslu á að það þyrfti að herða á í glímunni við verðlagshækkanirnar, að hafa þar hóf á.

En það var reyndar fleira sem ég efast ekki um að honum hefur verið í hug er ræðan var flutt, og marka ég það af því sem hér var vitnað til. Það er ljóst, að honum eru í hug, þegar hann flytur þessa ræðu, áhyggjur út af því, að þegar olíukreppan hafði borist hingað, sú fyrri, og verið í fullu gildi næstu mánuði áður en ræðan var flutt, hvernig það mætti þá vera, að stórkostlegar erlendar verðhækkanir, sem við réðum ekkert við, kölluðu fram sjálfvirkar launahækkanir hjá okkur heima og síðan verðlagshækkanir koll af kolli, án þess að þar yrði rönd við reist. Þarna er að sjálfsögðu verið að láta að því liggja, að gegn þessu kynni að þurfa að gera ráðstafanir. Hvaða ráðstafanir? Að tengja verðbótagreiðslurnar við viðskiptakjörin, eins og nú er verið að gera. Þetta er Lúðvík Jósepsson að hugsa um á þeim tíma. Það er ekki vafi á því.

Ég skal taka það skýrt fram, að á þeim tíma var ég t, d. nákvæmlega sömu skoðunar og hann, að þetta væri tímabært, en það yrði hins vegar að gera á þann hátt að ekki væri í leiðinni verið að klípa af verkalýðshreyfingunni í upphafi. Það hlaut að vera vandi að finna punktinn, hvar þetta strik á væntanlegu línuriti átti að byrja, hvaða punkti. Það hlaut einnig frá því fyrsta að við í Alþb. fórum að velta þessum málum fyrir okkur, og það er langt síðan, að vera ljóst, að þróun verðbótagreiðslnanna niður á við við versnandi viðskiptakjör yrði að fylgja trygging fyrir því, að verðbæturnar á launin færu á samsvarandi hátt upp þegar viðskiptakjör færu batnandi og þetta er reyndar í frv. nú. Það er því ekki ágreiningur um það, heldur hitt, hvar setja á punktinn. Það er ég ósáttur við. Og það er ekkert smámál. Það skiptir miklu máli vegna þess að verði upphaflegi punkturinn valinn þannig að af leiði 3% kjaraskerðingu, eins og gert er í frv., þá má heita öruggt að sú kaupskerðing verði varanleg um mjög langan tíma. Hvort sem viðskiptakjörin versna eða batna verður kaupið alltaf 3% lægra en ella.

Ég gerði við 1. umr. grein fyrir meginviðhorfum mínum og þarf ekki að endurtaka mikið af því. Ég ætla ekki að fara út í að ræða við 2. umr. um greinar sem eru utan verðbótakaflans. Ég setti nokkrar lauslegar aths. fram um viss atriði þeirra við i. umr. Ég tek það þó fram, að utan verðbótakaflans snýr fyrirvari minn í nál. fyrst og fremst að einni grein, þ. e. a. s. ég mun aðeins greiða atkv. á móti einni grein utan verðbótakaflans þó ég hafi aths. við fleiri. Það er 64. gr. í frv.-gerðinni eins og hún lítur út eftir 2. umr. í Ed., en þar er fjallað um sérstaka skattlagningu á ofveidda fiskstofna. Ég kom inn á þau mál við 1. umr. og lýsti andstöðu minni og endurtek það ekki, en minni aðeins á að fyrirvari minn snýr m. a. að þessu, því að ég tel það óviðunandi.

Í sambandi við sjálfan verðbótakaflann, sem ég hef talað mest um, vil ég í örfáum orðum draga saman afstöðu mína.

Ég hef fyrir framan mig ekki bara eitt gagn, heldur tvö frá Þjóðhagsstofnun, og þau gætu reyndar verið miklu fleiri, en ég hef aðeins tekið tvö með mér hingað upp í ræðustólinn. Því miður votta þessi gögn það, þannig að ekki verður um villst, að í ákvæðum verðbótakaflans felst kaupskerðing upp á sem næst 6% frá því kaupi sem greiða ætti eftir kjarasamningum. Þessi kaupskerðing kemur til framkvæmda í áföngum, ekki öll 1. júní, heldur í áföngum, og verður komin fram að fullu gagnvart öllu launafólki, alveg til þeirra allra lægst launuðu, 1. des. Og ég segi ákveðið: Þetta er of mikið. Og alveg sérstaklega leyfi ég mér að segja: Þetta er of mikið þegar haft er í huga að það sýnist nokkuð auðvelt að færa að því gild rök að lögin, sem sett voru fyrir 1. des. á síðasta ári, 1978, hafi falið í sér ekki minna en um 4% kaupskerðingu frá kjarasamningum. Enda þótt þar kæmu á móti ýmsar félagslegar ráðstafanir, sem sjálfsagt er að meta nokkurs, var framin gagnvart öllum meginþorra fólks, sem ekki nýtur þeirra ráðstafana að sinni, varla minna en 4% kaupskerðing og þarna koma 6%. Það er auðvelt að leggja þær tölur saman. Ég þarf ekki að gera það hér.

Það er stundum sagt af andstæðingum okkar, hv. talsmönnum Sjálfstfl., að innan ríkisstjórnarliðsins séu menn að rífast um hvað kaupskerðingin eigi að vera mikil, en allir séu í rauninni sammála um að hún eigi að vera nokkur. Ég skal taka það gjarnar. á mig, að ég hefði verið tilbúinn til að standa að vissri óverulegri kaupskerðingu. Ég er tilbúinn til þess. Ég hefði án hiks greitt atkv. með því að menn fengju engar verðbætur á laun vegna skattheimtu með tilliti til olíunotkunar á heimilum, enda þótt sú skattheimta hefði svarað til jafnvel meiri verðbóta en nemur þeim 0.5%, sem gert er ráð fyrir samkv. frv. Ég hefði einnig verið tilbúinn til að sætta mig við til samkomulags nokkru meiri skerðingu vegna tengingar við viðskiptakjör en nemur þeim 0.3% sem ég hef talað um að hefðu verið eðlileg. En það hefði mér þó því aðeins verið unnt, ef heildarskerðingin væri til muna lægri en hún er, því að ég tel hana vera mun hærri en skynsamleg rök standa til og allnokkru hærri en ég tel hyggilegt fyrir orðstír ríkisstj., því að hann skiptir mig máli líka.

Í þessum umr. hefur Alþfl. aðeins átt einn talsmann. Má vera að þeim eigi eftir að fjölga áður en málum lýkur. Það er nú verið að loka dyrunum á þann eina sem hefur talað við umræðuna, en það er ekki eftir mínum tilmælum. Það var hv. þm. Bjarni Guðnason. Ég held að hann hafi út af fyrir sig flutt mál þeirra ágætlega — ekki lakar en þó að þeir hefðu verið eitthvað fleiri saman, eins og maður átti kannske von á í byrjun. En kenning hans var þessi: Það er verðbólgan sem við erum að berjast við. Það er aðalatriðið, jafnvel eina atriðið. Við erum að gera þetta allt fyrir láglaunafólkið að keyra niður verðbólguna. — Ef þessar umr. hefðu nú verið að byrja, en ekki að ljúka, hefði ég viljað bera fram ákveðnar spurningar í þessu sambandi. Og ég ætla að setja þær fram. Ég tek það fram jafnframt, að ég er ekki endilega að óska svara við þeim hér á fundinum — við þurfum að fara að afgreiða málin, — en það væri fróðlegt að heyra þau svör síðar. Spurning mín er m. a. þessi: Ætla þeir Alþfl.-menn að koma til láglaunafólksins 1. des. n. k. og segja við það: Við tökum af ykkur láglaunabæturnar, þessi litlu 2%. Sú er aðferðin okkar til að ráðast gegn verðbólgunni. Við getum ekki ráðið við verðbólguna nema þið skilið þessum prósentum til haka. — Á það að vera leiðin í baráttunni við verðbólguna?

Þeir hv. þm. Alþfl., sem í þessum málum hafa átt, hafa haldið því fram í samningaviðræðum að útilokað væri að láta þessar litlu láglaunabætur standa. Og þeir hafa haft uppi þau rök, þó að það hafi ekki verið her í þingstofunni. heldur á samningafundum, að það færi allt úr böndunum ef láglaunabæturnar fengju að standa. Ég segi: Það er ekki hægt að hafa uppi slíkan málflutning við það fólk í landinu sem hefur innan við 200 þús. kr. í dagvinnulaun á mánuði. þennan málflutning Alþfl., að ef láglaunafólkið fái að halda 2% láglaunabótunum í jólamánuðinum og áfram, þá sé engin leið til að ráða við verðbólguna og það séu þess hagsmunir, láglaunafólksins. Það fylgir þessari kenningu að það er sagt: Við erum einmitt að gera það fyrir ykkur, fyrir láglaunafólkið, að taka láglaunabæturnar af ykkur.

Ég ætla að vona að orð mín verði hv. Alþfl.-mönnum til svolítillar umhugsunar, ef það mætti verða til þess, að þeir yrðu kannske svolítið mýkri, þegar flokksmenn mínir fara að krefjast þess þegar líður á árið að þessar bætur standi áfram, heldur en þeir hafa verið varðandi þessi atriði í samningaviðræðunum að undanförnu. Ég efast ekki um að nokkur von er til þess, að hæstv. forsrh. muni líta á þau mál líka. En eins og þetta hefur gengið til get ég þó engu treyst í þeim efnum og þar af leiðandi ekki veitt frv. stuðning óbreyttu.

Ég sagði áðan að frv. fæli í sér 6% kaupskerðingu miðað við umsamin laun, — skerðingu sem kæmi til framkvæmda í áföngum. Nær helmingur þessarar skerðingar felst í breytingum varðandi skýr ákvæði kjarasamninga um meðferð frádráttarliða við útreikning verðbóta á laun og breytingum á ákvæðum kjarasamninga um greiðslur hins svokallaða verðbótaauka. Atriði af þessu tagi leiða til nær helmings skerðingarinnar. Þessi atriði eru mjög viðkvæm fyrir verkalýðshreyfinguna og andstaða verkalýðsfélaganna er mjög hörð gegn þessum breytingum. (Gripið fram í: Hvernig kemur það fram?) Hvernig það komi fram? Ég bendi hv. þm., sem mun vera á mælendaskránni hér á eftir, á að lesa álitsgerð Alþýðusambands Íslands um þau efni. Þá fer það væntanlega ekki milli mála, ef hann hefur ekki heyrt um þetta fyrr eða kannske ekki skilið það. — Atriði af þessu tagi eru vissulega þess eðlis, að það getur verið umdeilanlegt hvort eigi að haga þeim á þennan veginn eða hinn. En það er undir öllum kringumstæðum hyggilegt að reyna til þrautar að fá um slíkt samkomulag við verkalýðsfélögin í landinu og fulltrúa þeirra, þar sem um er að ræða atriði sem eru beinn hluti af sjálfum kjarasamningunum. Síðan koma til þau 3%, sem viðskiptakjaratengingin, eins og hún er úr garði gerð, verður, og loks þetta litla hálfa olíuprósent. Samtals er því þarna um a. m. k. 6% skerðingu að ræða.

Mig langar til að bæta því við, að það er allt að því átakanlegt að við skulum ganga til að ræða þetta frv. hér einmitt í dag, á sama sólarhringnum og einir þeir hæstlaunuðu í landinu hafa undirritað kjarasamninga sem færa þeim sumum hverjum meiri launahækkanir á mánuði, bara hækkunin ein, en svarar öllum mánaðarlaunum þess láglaunafólks sem verið er að deila um hvort eigi að fá að halda sínum 2% láglaunabótum eða ekki. Hvernig halda menn að svona atburðir verki úti í þjóðfélaginu? Halda menn að þeir verði til að ýta undir ró á vinnumarkaðinum? Það er hætt við að svo verði ekki.

Einn hv. þm. Sjálfstfl., sem er á mælendaskrá á eftir, lét þau orð falla við umr. hér á þingi fyrir nokkru, þegar rædd var till. okkar nokkurra Alþb.-manna um hámarkslaun, að slík till. væri óþörf vegna þess að við hefðum allir jöfn laun þegar búið væri að taka af mönnum skattana. Ég ætla ekki að efast um að ýmsir alþm. kvarti yfir eigin sköttum, og það gera vafalaust þeir menn með milljón á mánuði, sem nú hafa fengið í launahækkun ofan á þá milljón meira en svarar mánaðarlaunum almenns verkafólks. Þeir kvarta mikið yfir sköttunum. Það eru sennilega fleiri í þessum hópi en hv. þm: Friðrik Sophusson sem eru það illa upplýstir um kjör alþýðufólks í þessu landi, að þeir trúa því að allir búi við sömu kjör, að skattarnir jafni þau út. Það væri gaman að heyra hvað hv. þm. hefði að segja um þetta hér á eftir. Hefur flugmannadeilan kennt honum nokkuð um þetta?

Ég veit vel að það hefur ekki verið einfalt mál fyrir hæstv. ríkisstj. að koma í veg fyrir þann atburð sem átti sér stað í nótt við undirritun kjarasamninga. (HBl: Þetta gerðist nú allt undir hennar handleiðslu.) Undir hennar handleiðslu, ójá. (HBl: Já, með vitund og vilja Alþb.) Ójá. Hv. þm. Halldór Blöndal segir okkur að ríkisstj. hafi í raun og veru verið ljósmóðir þessara kjarasamninga. Skyldu fleiri hér í salnum vera þeirrar skoðunar? Það efast ég um. Ég ætla að segja það skýrt og skorinort, að þingflokkur okkar Alþb.-manna hafði gert ákveðna samþykkt, og ég hygg að þingflokkar hinna stjórnarflokkanna hafi gert það líka, á þá leið að menn voru tilbúnir til þess að setja lög sem frestuðu þessu verkfalli um ákveðinn tíma, þannig að launakjör þeirra manna, sem þarna er um að ræða, stæðu óbreytt. Það má mikið vera ef hæstv. ríkisstj. ætti ekki að athuga það vel, hvort ástæða kynni að vera til að gripa inn í þessa samninga, eins og þeir eru þokkalegir eða hitt þó heldur.

Annað fólk vinnur hjá Flugleiðum — því fyrirtæki sem hér kemst einna næst því að mega kallast auðhringur. Í hópi starfsmanna þess er líka verkafólk, — verkafólk sem skiptir máli hvað ákveðið er hér á Alþ., hvað er sett í frv. af þessu tagi og hvað ekki. Verulegur hluti af þessu láglaunafólki hefur átt í deilum við stjórnendur Flugleiða að undanförnu um það, hvort þá kjarasamninga, sem það býr við, ætti að túlka á þennan veginn eða hinn. Þar hefur staðið yfir erfið deila að undanförnu. Flugleiðir hafa ekki haft nokkra krónu aflögu fyrir þetta fólk, þannig að það fengi fram þá túlkun á sínum kjarasamningum sem það gerði kröfu til og telur réttmæta. Þar hefur verið um litlar upphæðir að ræða. En hérna er um stórar upphæðir að ræða. Og það er nú svo, af því að ég sé að hv. talsmaður Alþfl. í þessum umr., Bjarni Guðnason, situr hér enn og ég ávarpaði hann aðeins hér áðan, stundum er sagt að litlar tölur skipti litlu máli, spurt hvað menn séu að rífast út af 2 eða 3%, hvort það sé ekki betra að hafa þetta allt saman í friði. Vissulega væri það æskilegt. En stundum verður tala eins og 2% stór í munnum sömu manna sem telja hana kannske litla í öðru tilviki. Og þegar Lúðvík Jósepsson, formaður Alþb., bar fram kröfuna um að 2% láglaunabætur fengju að standa, ekki bara part úr ári, heldur áfram, var þessi litla tala stór í hugum Alþfl.-manna, hv. þm. Alþfl. Hún var svo stór, að þeir töldu að ef á okkar kröfu yrði fallist mundi verðbólgan sprengja hér allt í loft upp og verða meiri en nokkru sinni fyrr. Svona getur lítil tala stundum orðið stór í hugum þeirra manna sem oftast tala um að þetta kvart um tölur skipti svo sem engu máli.

Ég vil svo aðeins segja það að lokum, að mér þykir leitt að þurfa að gera þann ágreining sem ég hef hér gert. En ég tel það skyldu mína, og ég tel það m. a. skyldu mína ekki aðeins við minn flokk og það fólk sem ég er fulltrúi fyrir, heldur skyldu mína við ríkisstj. í heild að vara hana við. Það kann einhverjum að virðast að það sé órólegt á stjórnarheimilinu. Það fer eftir mælistikunni, hvort svo er dæmt eða ekki. En óróleiki þarf ekki alltaf að boða illt. Það er von mín, að þrátt fyrir það, sem hér hefur gerst, muni ríkisstj. eiga eftir að vinna góð verk og þau mörg. Og ég vil minna á það, sem ég sagði við 1. umr. þessa máls, hvaða ógn vofði yfir í kjaramálum alþýðu í landinu ef svo færi að Sjálfstfl. næði yfirhöndinni í íslenskum stjórnmálum. Ég geri mér skýra grein fyrir þeim mikla mun sem er á þeim ákvæðum frv., sem ég hef þó gagnrýnt, annars vegar og hins vegar því sem þá væri von á.

Vegna orða hæstv. forsrh. fyrr í dag, þar sem hann minntist á að ég væri a. m. k. hálfur stuðningsmaður þess máls sem hér er til umr., — eitthvað var það á þá leið, vil ég aðeins segja það og beina því ekki síst til hans, að enda þótt ég áskilji mér allan rétt, hvað sem liður meiri hl. í mínum flokki og hvað sem líður meiri hl. í ríkisstjórnarliðinu í heild, til að bera fram gagnrýni á einstakar gerðir þessarar ríkisstj. er ég jafntilbúinn til þess nú og áður, ef á þarf að halda, að verja þessa ríkisstj. vantrausti frá hægri og veita henni stuðning til allra þeirra mála sem ég með nokkru móti get staðið við.