25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4174 í B-deild Alþingistíðinda. (3274)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Frsm. minni hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú talað í þessu máli af stillingu og háttprýði eins op; hans var von og vísa. En ég átti ekki von á slíkum stóryrðum sem voru hér látin falla af hv. 5. þm. Reykn. og þó öllu frekar af hv. 3. landsk. þm. Það liggur fyrir, að ekki er ágreiningur um að reyna að leysa þetta mál, sem varðar mjög launþega í landinu, á þann veg sem best má verða. Það er enginn ágreiningur um slíkt, ég hef hvergi heyrt það. Spurningin er hins vegar sú, eins og ég gat um áður, hvort væri haft nógu mikið samráð við aðila vinnumarkaðarins. Nú þegar lögð er áhersla á að það sé gert heyrir maður að með því sé verið að tefja málið og eins og hv. 5. þm. Reykn. sagði hefði málið verið nógu lengi að fara gegnum þingið. Á hvers ábyrgð er það, ef einhver dráttur hefur verið í þessum efnum? Ég er mér ekki þess meðvitandi, að við, sem stöndum að því minnihlutanál. sem hér er til umr., höfum verið að gera nokkra tilraun til þess að tefja þetta mál. Í þessu sambandi er talað um sendisveina atvinnurekenda á Alþ. og önnur slík köpuryrði eru viðhöfð, og svo hrópar hv. 5. þm. Reykn.: Hvað á að koma fyrir 3% sem launþegar afsöluðu sér í des.?

Hv. 3. landsk. þm. kemst í ham og fer að ráðast á Sjálfstfl. í þessu efni og lætur svo sem Sjálfstfl. hafi aldrei verið til viðræðu um að bæta hag launafólksins í landinu. Við vitum allir að hv. þm. er góðum gáfum gæddur eins og hann á kyn til, og auðvitað veit hann betur en þetta. Af því að hann veit betur verður hann svo æstur þegar hann lætur sér um munn fara þessi orð. Þetta er allt tengt við verkalýðsfjandsamlega stefnu Sjálfstfl., eins og það er orðað. Slíkt er algerlega úr lausu lofti gripið. Sjálfstfl. vill vera trúr stefnu sinni, gera allt sem hægt er til þess að leysa þetta mál á sem bestan veg. En það eru bara fleiri en við, sem stöndum að minnihlutaálitinu, sem telja að hér sé ekki rétt að farið. Vegna þess að flíkað hefur verið hér Vinnuveitendasambandinu, held ég, svo að ekki hallist á, að ég leyfi mér að vekja athygli á því sem Vinnumálasamband samvinnufélaganna segir um frv. Ég vænti þess, að menn fari ekki að halda því fram að Sjálfstfl. stjórni því. Með leyfi hæstv. forseta skal ég aðeins lesa upp nokkrar setningar af því sem Vinnumálasamband samvinnufélaganna hefur um frv. að segja, en það hefur skrifað ítarlegt bréf um það. Það, sem ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa, er á þessa leið:

„Frv. það, sem hér um ræðir, fjallar um mjög flókin og vandmeðfarin samskiptamálefni á vinnumarkaðinum, auk þess aukna tilkostnaðar sem það hefur í för með sér fyrir atvinnureksturinn. Það er þess vegna mjög misráðið af hálfu ríkisvaldsins að setja fram frv. sem þetta án þess að aðilar vinnumarkaðarins hafi fengið aðstöðu til þess að fjalla um efni þess sameiginlega. Höfum vér áður kynnt félmrh. og samráðh. hans þessi viðhorf og m. a. farið fram á að skipuð yrði nefnd, sem í ættu sæti fulltrúar launþega, atvinnurekenda og ríkisvalds, sem fjölluðu um efni frv. Af þeirri nefndarskipun hefur enn ekki orðið og ítrekum vér hér með ósk vora um að slík nefnd verði skipuð.“

Ég gæti lesið ýmislegt fleira úr þessu bréfi sem liggur fyrir frá Vinnumálasambandinu og er allnokkru ítarlegra en það bréf sem liggur fyrir frá Vinnuveitendasambandi Íslands, en ég sé ekki ástæðu til að gera það.

Það liggur líka bréf fyrir sem sent var félmn. Nd. af Alþýðusambandi Íslands. Þar er tekið fram, að það sé einróma álit miðstjórnar Alþýðusambandsins að enda þótt frv. væri ekki í öllum atriðum shlj. till. Alþýðusambands Íslands um þetta efni væri það þess eðlis, að Alþýðusambandið mælti með samþykkt þess. Kemur í mjög stuttri umsögn um þetta frv. fram, að Alþýðusambandið er ekki fullkomlega ánægt með þetta. Svo tala menn eins og það sé einhver goðgá að leggja til að málið verði athugað betur með það fyrir augum að fá sem heppilegasta lausn á þessum flóknu málum, eins og segir í bréfi frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, reyna að fá sem hentugasta lausn.

Í raun og veru er ekki ástæða fyrir mig að fara að svara beint þeim upphrópunum sem komu fram hjá hv. 5. þm. Reykn. og sérstaklega 3. landsk. þm. í garð okkar sjálfstæðismanna. Við þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir afskipti okkar af félagsmálum í þessu landi. Það gæti ekki samkv. þessu farið saman að á undanförnum áratugum, þegar mestar félagslegar framfarir hafa orðið í sögu okkar, hafi Sjálfstfl. á sama tíma haft mest áhrif og lengst á stjórn landsins. En það var ömurlegt að þessir hv. þm. skyldu, um leið og þeir voru að veitast að Sjálfstfl. í þessu efni, minnast á launaafsalið, 3% afsalið í des. Það var sannarlega raunalegt að það skyldi vera gert. (Gripið fram í.) Nú segir hv. 3. landsk. þm. að hann hafi ekki gert það. En ég man þó ekki betur e:n hann viki að því a. m. k. óbeint.

En það hefur verið talað unn hvað ætti að koma fyrir 3%, ef það yrði einhver frestun á þessu frv. Það óhæfilega í þessu máli er, að slík sjálfsögð réttindi sem hér er um að ræða samkv. þessu frv. eða ætlunin er að lögfesta þurfi verkalýðurinn í landinu að kaupa með því að afsala sér samningsbundnum rétti til launa. (Gripið fram í: Af hverju ertu þá á móti því?) Þetta er óhæfa. Það er ömurlegt að menn, sem hafa slík vinnubrögð á samviskunni, skuli í staðinn fyrir að fyrirverða sig fyrir þau hafa uppi slík köpuryrði í garð Sjálfstfl. sem hér hafa verið höfð í þessum umr.