25.04.1979
Efri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4183 í B-deild Alþingistíðinda. (3281)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hér hefur margt og mikið verið sagt og mig langar aðeins til að leggja orð í belg. Það, sem mig tangar til að segja, er fyrst og fremst það, að mér finnst hálfgert okurkarlabragð að þessu frv. Ég get ekki hugsað mér að eins sjálfsögð réttindi og þessi þurfi að kaupa fyrir umsamin laun. Ég vildi bara segja að dýr mundi Hafliði allur ef í staðinn fyrir þær miklu félagslegu umbætur, sem afgreiddar hafa verið frá þessari d. á undanförnum árum, hefðu átt að koma í hvert sinn bætur frá launþegahreyfingunni í formi lækkaðs kaups. Hvar hefði það endað?

Ég get ekki annað sagt en að þetta eru að vísu sjálfsögð réttindi, en þau eru mjög takmörkuð. Það var eins og Jón Ásbergsson sagði: þessi löggjöf, verði frv. að lögum, takmarkar þessi réttindi verkamanna mjög mikið. Það má kannske deila um hvort nú sé nógu langt gengið eða ekki. En ég vil taka það fram, að löggjöf hefur verið í undirbúningi mörg undanfarin ár á vegum fyrrv. ríkisstj., þótt hún hafi ekki lítið dagsins ljós enn þá, og varðandi atvinnusjúkdóma og aðstöðu á vinnustöðum hafa nefndir verið í gangi alllengi til þess að semja slík lög. Hvort það, sem frá þeim nefndum mundi hafa komið, hefði verið í þessu eða svipuðu formi skal ég ekki um segja, en mig langaði aðeins með þessum orðum til þess að vekja athygli á því, að mér finnst of mikið verslunarbragð af þessu frv., mér finnst of mikið okurkarlabragð af því.