26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4204 í B-deild Alþingistíðinda. (3305)

348. mál, heilsugæslulæknar

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að það er nokkurt vandamál að manna H l stöðvarnar, þó að oft hafi það gengið verr en núna, og sjálfsagt er aðalorsökin sú, að starf þar er talið meira bindandi en þar sem fleiri læknar vinna saman.

Fyrsti liður fsp. er um það, hversu margir heilsugæslulæknar séu skipaðir í starf utan Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæma. — Ráðnir í starf á því svæði, sem um er að ræða, eru 64, en innan við 50% þeirra eru skipaðir. Er það í sjálfu sér nokkuð alvarlegt mál.

Annar liður spurningarinnar: Hve margir ættu þeir að vera samkv. lögunum? — Ef við lítum svo á að á H l. stöðvum eigi að vera einn læknir, eins og lögin gera ráð fyrir, og á H 2 stöðvum skuli vera 2, en samkv. lögunum, eiga þeir að vera a. m. k. 2, ættu að vera 69 læknar á því svæði sem um er að ræða, þ. e. a. s. utan Reykjavíkur og Reykjaness. Heimilaðar stöður í fjárl. eru aftur á móti 67, eða 2 færri.

Þriðji liður spurningarinnar er um hve margir séu skipaðir á H 1 stöðvum, þ. e. í gömlu einmenningshéruðunum. — Í dag eru þeir 15 og þá tel ég að Ólafsfjörður sé setinn. Hann er það reyndar ekki í dag, en þangað kemur maður nú um mánaðamótin. Það vantar lækni á Flateyri, en því byggðarlagi er þjónað frá Þingeyri. Það vantar lækni á Raufarhöfn, en því byggðarlagi er þjónað frá Þórshöfn. Í tvö önnur héruð vantaði lækna fyrir nokkrum vikum en úr því leystist um mánaðamótin síðustu. Á þessum stöðum ættu læknar að vera 17, en eru 15 eins og ég sagði, þ. e. a. s. það vantar tvo í augnablikinu.

Síðasti liður spurningarinnar er þannig: Hvernig hyggst ráðh. leysa læknaskort afskekktustu héraðanna? — Eins og ég sagði hefur ástandið oft verið verra en núna, en hitt er annað mál að það er engan veginn gott. Sérstaklega er slæmt hve margir læknanna eru lausráðnir. Það hefur verið talað um að lengja héraðaskyldu kandídata úr 3 mánuðum í 4. Það hefur verið rætt um möguleika á því að taka upp við Háskólann sérfræðikennslu fyrir heilsugæslu- eða heimilislækna, en núna verða þeir að leita utan eins og aðrir sérfræðingar. Það hefur í þriðja lagi nokkuð verið hugleitt að fá lækna, sem eru við sérnám einmitt á þessu sviði í Svíþjóð, til þess að vinna í fríum sínum, en til þess hafa þeir boðist og mundi það geta leyst verulega úr, a. m. k. tímabundið. En heimild skortir til að borga ferðakostnaðinn. Þeir hafa sett það upp, að ferðakostnaðurinn til og frá Svíþjóð verði greiddur. Ég hef lítillega rætt við fjmrh. um hvort þetta mundi vera hægt, en ákvarðanir hafa ekki verið teknar enn þá um það.

Að síðustu vil ég svo segja það, að allmargir íslenskir læknar eru erlendis að sérhæfa sig í heilsugæslu og heimilislækningum. Ég reikna með að þegar þeir taki til starfa muni ástandið komast í viðunandi horf.