26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4204 í B-deild Alþingistíðinda. (3306)

348. mál, heilsugæslulæknar

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka ráðh. fyrir svörin.

Af orðum hans mætti ætla að allt væri í besta lagi. Það eru ráðnir 64 læknar af 69 sem eiga að vera á H 2 stöðvunum og það eru ráðnir 15 af 17 á H 1 stöðvar. En málið er ekki svona einfalt. Það er, eins og kom fram í máli hans, mikill munur á því, hvort læknir gegnir störfum lausráðinn eða hvort hann er skipaður í embætti. Slíkt öryggisleysi er fólkið úti á landinu ekki ánægt með. Þess vegna var fsp. mín borin fram um hvort fyrirhugað væri að breyta því ástandi.

Yfirleitt hefur alltaf tekist að koma læknum í héruð stuttan tíma, en miklu verra er að fá þá skipaða, og byggist það á ýmsu. Að mínu viti eru þeir t. d, einu opinberu starfsmennirnir sem ekki er tryggt að geti fengið sumarfrí. Enginn aðili tryggir þeim afleysingu í sumarfríum. Þó eru þessir menn í raun og veru á vakt allan sólarhringinn allt árið og hafa ekki leyfi til að fara burt frá störfum sínum, og skyldi maður þá halda að hið opinbera sæi þeim fyrir staðgengli. Svo er ekki. Landlæknir gerir að sjálfsögðu það sem honum er unnt til þess, en slíkt er á læknanna ábyrgð. Enginn telur sér í raun og veru skylt að sjá til þess að þeir komist í frí, sem þeim er þó fullkomin nauðsyn, og er ég þá að tala um þá lækna sem eru einir í héruðum, þ. e. a. s. í gömlu einmenningshéruðunum. Ennfremur búa þessir menn í raun og veru ekki við jafngóð kjör og aðstoðarlæknar á spítölum í þéttbýlinu. Í öðru lagi veitir aðstaðan, þar sem þeir eru á vakt allan sólarhringinn, þeim ekkert meiri réttindi en þeim læknum, sem vinna sína 8 tíma vakt, 6 tíma eða hvað það er, í fjölmennari héruðum. Það verður að líta á þetta sem ósanngirni vegna þess að þessir menn hljóta að öðlast á stuttum tíma tiltölulega meiri reynslu en þeir sem vinna venjulegan vinnutíma.

Loks er svo það, að þessum mönnum er að sjálfsögðu nauðsynlegra en öðrum að fara í nám öðru hvoru. Símenntun lækna er viðurkennd en þessir menn komast ekki í burtu nema þeir geti fengið fyrir sig staðgengil. Fyrir nokkrum árum var þannig háttað, að þegar menn höfðu þjónað ákveðinn tíma héraði sínu áttu þeir rétt á ársleyfi á fullum launum til þess að teita sér frekara náms. Þetta hefur verið afnumið. Munu læknar vera í hópi þeirra fáu sem hafa lakari kjör, a. m. k. á þessu sviði og reyndar öðrum líka, en þeir höfðu fyrir nokkrum árum.

Þetta er ásamt öðru ástæðan fyrir því, hvernig komið er. Ég held að ástandið sé mun erfiðara en kom fram í orðum hæstv. ráðh., þ. e. a. s. þó að takist að fá lausráðna menn til skamms tíma í þessi héruð sé það ekki það öryggi sem fólkið væntir.