27.04.1979
Efri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4246 í B-deild Alþingistíðinda. (3349)

271. mál, heilbrigðisþjónusta

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins, áður en ég kem að brtt. sem ég ætla að mæla fyrir, koma inn á það sem hæstv. heilbrh. sagði áðan í sambandi við breyt. á l. um heilbrigðisþjónustu að því er varðar viðhaldskostnaðinn.

Ég verð því miður að lýsa vonbrigðum yfir því, að ekki skyldi vera framkvæmanlegt að flytja brtt. eða leiðrétta þetta ákvæði í lögunum. Að mínu mati voru gerð mistök þegar hv. Alþ. breytti lögunum á s. l. ári. Þá var farið spor aftur á bak að því er varðar sjúkrahúsin þar sem fallið var frá því, sem ætti í raun og veru að vera einfalt mál, að viðhaldskostnaður væri í samræmi við eignahlutfall þegar um er að ræða sameign ríkis og sveitarfélaga. Ég verð að lýsa vonbrigðum varðandi þetta atriði. Sveitarfélögin og stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sérstaklega hafa frá því á s. l. hausti margítrekað við hæstv. heilbrrh. að á þessu yrði gerð leiðrétting á yfirstandandi þingi. Við höfum til skamms tíma trúað að af því gæti orðið og þannig yrði létt af sveitarfélögunum mjög þungum byrðum sem á þau voru lagðar hvað þetta snertir án þess að nokkur tekjustofn kæmi á móti. Ég mun í samráði við aðra freista þess að leggja fram sérstakt frv. til l. um breyt. á lögum um heilbrigðisþjónustu eftir helgina, þar sem verði gerð tilraun til að færa í eðlilegt horf viðhald heilsugæslustöðva og sjúkrahúsbygginga, þ. e. a. s. viðhaldskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði í hlutfalli við eignaraðildina.

Ég vil enn fremur segja að mér finnst fram hafa komið fullkomin ástæða til að taka lögin að öðru leyti til endurskoðunar að því er varðar kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og ekki hvað síst þáttinn um sjúkrasamlögin sem ég tel að sé orðið löngu tímabært að taka til skoðunar. Það er augljóst að menn sitja ekki við sama borð í sjúkrasamlögunum, þau eru það misjafnlega rekin. Sum sjúkrasamlög greiða svo til alla þætti heilbrigðisþjónustu í umdæmum sínum, en önnur mjög takmarkað. Á þessu er fullkomin þörf að gera skoðun. Ég vænti þess, að heildarendurskoðun á almannatryggingum komi jafnvel inn á þessa þætti málanna, sem sýnist vera mjög nauðsynlegt.

brtt., sem ég ásamt hv. þm. Braga Níelssyni hef lagt fram á þskj. 568, er við frv. sem hér er til umr. Hún fjallar um að á undan 1. gr. frv. komi ný grein sem orðist svo:

„14. gr. 3. tölul. 4 orðist svo:

4. Stykkishólmsumdæmi.

1) Stykkishólmur H 2, starfssvæði Helgafellssveit, Stykkishólmshreppur, Skógarstrandarhreppur, Miklaholtshreppur“. — Þarna falli niður Eyrarsveit, sem er í núgildandi lögum.

„2) Grundarfjörður H 1“ — í stað þess að vera H í núgildandi lögum - „starfssvæði Grundarfjörður, Eyrarsveit“.

3) Búðardalur H 2 með viðkomandi starfssvæði óbreytt. En vekja má athygli á því við þessa umr., að eins og málum er háttað eru hreppar í Hólmavíkurumdæmi, þ. e. í A.-Barðastrandarsýslu, tengdir við H 2 stöðina í Búðardal og er raunar um það bráðabirgðaákvæði í lögum, en komið hefur fram ósk um að því yrði breytt þannig að hreppar þessir yrðu færðir úr Hólmavíkurumdæmi í Stykkishólmsumdæmi, þ. e. a. s. undir Búðardal H 2. Við gerum ekki ákveðnar till. um þetta hér vegna þess að í raun og veru snertir það einnig Vestfjarðakjördæmi, en eigi að síður vekjum við athygli á að komið hefur fram bein ósk um það heiman úr héraði frá þessum hreppum að taka til athugunar í heilbrn. hvort fært væri að breyta þessu nú eða ekki. Hefur beiðni legið hjá heilbrrn., en af einhverjum ástæðum ekki verið tekinn inn í frv. sem liggur fyrir.

Það þarf ekki að rökstyðja breytinguna í sambandi við Grundarfjörð. Það hefur verið mikill þrýstingur heiman að frá Grundarfirði að fá þessa breytingu. Eins og öllum er kunnugt er Grundarfjörður vaxandi sveitarfélag. Þar hefur verið mjög ör byggð á undanförnum árum og íbúafjöldinn í þessu héraði þ. e. a. s. Grundarfirði og Eyrarsveit, fer að nálgast 1000. Það er einróma álit sveitarstjórnarinnar í Grundarfirði og íbúanna þar, að sú læknisþjónusta, sem þeir hafa búið við, þ. e. a. s. sú aðstaða sem er á staðnum, sé mjög léleg. Raunar hefur hún verið til skamms tíma sama og engin. Það er því kominn tími til að veita heimild í lögum til að þarna verði komið upp heilsugæslustöð sem falli undir H 1. Við flm. væntum þess að það verði tekið til athugunar í sambandi við afgreiðslu þessa máls.