07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4386 í B-deild Alþingistíðinda. (3488)

357. mál, utanríkismál

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Skýrsla utanrrh. um utanríkismál hefur verið rædd allmjög í dag og m. a. af tveimur fulltrúum flokks míns. Ég ætla því ekki að fara að endurtaka eða ræða um þau atriði sem þeir gerðu skil, en ætla fyrst og fremst að ræða nokkuð um hafréttarmál, sem fram koma í IV. kafla þessarar skýrslu, og sömuleiðis um Jan Mayen.

Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa skýrslu. Ég get ekki annað en talið að hún sé í heild greinargóð og skipulega fram sett og nái yfir utanríkismálin almennt.

Ég vil leggja áherslu á að frv. það, sem hæstv. utanrrh. lagði fram um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn og er nú komið til seinni d., fái sem skjótasta afgreiðslu. Ég tel að það sé mjög aðkallandi og mikils virði í sambandi við hafréttarmálin almennt og þá ekki síst vegna Jan Mayen-málsins að það frv. verði sem allra fyrst gert að lögum. Í 7. gr. þess frv., um afmörkun svæða milli landa segir að afmörkun efnahagslögsögu og landgrunns milli Íslands og annarra landa skuli eftir atvikum ákveðin með samningum við hlutaðeigandi ríki og skuli slíkir samningar háðir samþykki Íslands. Þó verði tekið fram, að efnahagslögsaga og landgrunn Íslands séu miðuð við 200 sjómílur frá grunnlínum landhelginnar, að því undanskildu þó að þar sem skemmra er en 400 sjómílur milli grunnlína Færeyja og Grænlands annars vegar og Íslands hins vegar skuli efnahagslögsaga og landgrunn Íslands afmarkast af miðlínu. — Á Hafréttarráðstefnunni hafa lengi verið deilur um hvort miða eigi við miðlínu milli landa eða hvort sanngirnissjónarmið í hverju einstöku tilviki eigi að ráða þegar landgrunn er sameiginlegt eða 200 mílna efnahagslögsaga eins ríkis rekst á efnahagslögsögu annars. Í því máli koma einnig fram sjónarmið varðandi eyjar og kletta. Þar eru ólíkar aðstæður og eðlilegt að hvert slíkt tilvik sé skoðað fyrir sig. Þá koma til samningaviðræður milli hlutaðeigandi ríkja. Í 7. gr. í frv., sem hér liggur fyrir, er miðað við að slíkar samningaviðræður fari fram.

Þegar reglugerðin um útfærslu fiskveiðilögsögunnar var gefin út 15. júlí 1975 var miðað við 200 mílur í átt til Jan Mayen, en hins vegar þótti rétt við útgáfu reglugerðarinnar að láta miðlínu ráða á milli landanna. Þegar við athugum, hvernig ástatt var í samskiptum þjóða á milli í sambandi við hafréttarmál þegar við tókum þá djörfu ákvörðun að færa út í 200 mílur kemur í ljós að við höfðum flestar þjóðir á móti okkur á þeim tíma. Þess vegna ákváðum við að ekki skyldi koma til útfærslu í átt til Jan Mayen í 200 mílur, heldur miðlína látin ráða óákveðið, en lýst yfir að með því værum við ekki að tapa neinum rétti til 200 mílna útfærslu síðar. Þá höfðum við ekki beinna og aðkallandi fiskveiðihagsmuna að gæta á því svæði sem við höfðum á árum áður meðan síldveiðar voru. Þá var ekki um loðnuveiði að ræða að sumrinu því að hún hafði öll verið innan 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. En nú hafa orðið þáttaskil, einkum á s. l. sumri. Það þykir nú sannað að sami loðnustofninn þrífist við Ísland og á Jan Mayen-svæðinu sem kallað er. Þegar við tölum um Jan Mayen-svæðið er átt við stærra svæði en það sem Norðmenn vilja telja til yfirráðasvæðis síns umhverfis Jan Mayen, kemur einnig inn á svæði það sem Grænland kemur til með að hafa áhrif á þegar þar hefur verið tekin ákvörðun um útfærslu. Þær veiðar, sem átt hafa sér stað, sérstaklega s. l. ár, á öllu þessu svæði, getum við ekkert fullyrt um né hve mikið var veitt á því yfirráðasvæði Noregs sem Norðmenn telja sig eiga að hafa.

Ég tel að við Íslendingar getum ekki annað en haldið okkur fast við kröfur okkar í þessum efnum. Það er enn þá ekki ráðið um réttindi eyja eins og Jan Mayen á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, þó að ákvæði 121. gr. draga að hafréttarsáttmála sé kannske Norðmönnum að einhverju leyti styrkur í þeirri baráttu sem þeir hyggjast heyja. Yfirlýsing Norðmanna um að þeir hyggist taka sér 200 mílna efnahagslögsögu er þess eðlis að við verðum að standa vel á verði og styrkja eins og okkur er kostur íslenskan málstað. Lítum á það sem skiptir verulegu máli í röksemdafærslu okkar Íslendinga:

1. Jan Mayen er á landgrunni okkar.

2. Svæði þetta heitir á öllum jarðfræðikortum „íslenska hásléttan“, og er dýpi yfirleitt 1000–2000 metrar þar sem það er ekki enn þá minna.

3. Úthafsgjá liggur á milli Noregs og Jan Mayen sem er u. þ. b. 3500 m á dýpt.

4. Jan Mayen varð fyrst annexía Noregs 1921 og ekki innlimuð fyrr en 1930. Fram að þeim tíma var eyjan allt eins talin íslensk og norsk. Þessu megum við ekki gleyma þó að senn séu liðin 50 ár.

5. Íslendingar sóttu til Jan Mayen rekavið og töldu sér fullheimilt að fá á undan Norðmönnum og hafa ætíð lítið svo á að þeim væri heimil hagnýting hafsvæðisins umhverfis Jan Mayen.

6. Þá eiga hafréttarreglur, eins og nú er komið störfum Hafréttarráðstefnunnar, að byggjast á sanngirnissjónarmiðum fyrst og fremst. Óbyggð smáeyja, sem fyrir tilviljun varð norsk, en ekki íslensk, getur ekki haft sambærilegan rétt við þjóðland, land þar sem býr og starfar þjóðfélag. Er samanburður allur okkur í hag ef við lítum á sanngirnissjónarmiðið annars vegar, en lítum hins vegar á að Jan Mayen er svo að segja óbyggð eyja þar sem búa tiltölulega fáar manneskjur sem ekkert nýta af auðlindum eyjarinnar.

7. Engar alþjóðareglur hafa myndast um óbyggðar smáeyjar á landgrunni annars ríkis. Fulltrúar Norðmanna hafa verið beðnir um að benda á dæmi um slíka eignatöku, en það hefur ekki komið fram hjá þeim enn þá.

8. Efnahagslögsaga Norðmanna við Jan Mayen mundi skerða hafsbotnsréttindi okkar, jafnvel þótt þeir viðurkenndu óskoraða 200 mílna efnahagslögsögu okkar, því að efnahagslögsagan tekur bæði til hafsins og hafsbotnsins.

9. Réttur til efnahagslögsögu einskorðast við þjóðlönd og hefur verið að myndast „de facto“ þar sem ríki hafa tekið sér hann. Engin slík lög hafa myndast um óbyggðar smáeyjar á landgrunni annarra. Sjálft orðið „efnahagslögsaga“ sýnir að tilvist hinnar nýju þjóðréttarreglu byggist á því að tryggja þurfi hag fólksins sem strandríki byggir, en slík nýskipan er ekki tekin upp vegna fjarlægra eyja.

10. 12. gr. frv. að hafréttarsáttmála er ekki alþjóðalög fremur en annað sem í drögunum stendur, en ekkert af því hefur enn þá verið samþykkt. Því er ekki um alþjóðareglur að lögum að ræða. Aðeins það, sem almennt hefur komið til framkvæmda, er réttur í raun.

11. Geri Norðmenn alvöru úr því að lýsa yfir 12 mílna efnahagslögsögu, sem gengur inn á landgrunn annars ríkis sem okkar, vegna óbyggðrar smáeyjar með þeim hætti sem þeir hafa tilkynnt hljótum við að snúast öndverðir gegn slíku.

Á þingflokksfundi Sjálfstfl. í dag var samþykkt, að þingflokkur Sjálfstfl. telur að Norðmenn geti ekki lýst yfir 200 sjómílna efnahags- eða fiskveiðilögsögu umhverfis Jan Mayen án undangenginna samninga við Íslendinga. Ég tel að samþykkt Sjálfstfl. í þessum efnum og vonandi einnig annarra þingflokka verði til að styrkja stöðu hæstv. utanrrh. þegar hann hittir að máli innan nokkurra daga utanrrh. Norðmanna, Frydenlund, og verði til þess að sýna Norðmönnum að okkur Íslendingum er full alvara í því að láta í engu rétt okkar. Hitt er svo annað mál, sem verður ekki í efa dregið, að við Íslendingar viljum auðvitað hafa sem vinsamlegust samskipti við nágrannaþjóðir okkar og þá ekki síður við Norðmenn en aðrar nágranna- og frændþjóðir okkar.

Um er að ræða annars vegar land sem byggir fyrst og fremst lífsafkomu sína á fiskveiðum, þar sem Ísland er, og hins vegar eyju undir norskum yfirráðum þar sem í raun og veru ekkert samfélag er til eða a. m. k. ekki neitt sem heitir að lifa á auðlindum hafsins. Á slíku er auðvitað reginmunur sem hlýtur að styrkja stöðu okkar í þessum málum í vitund annarra þjóða. Getur því ekki farið hjá því að á þessu verðum við að halda mjög ákveðið, en þó af lipurð.

Við viljum vafalaust öll vinna þannig að þessum málum að ná samkomulagi við Norðmenn um nýtingu fiskveiða á svæðinu umhverfis Jan Mayen. Hins vegar er það Íslendinga einna að ákvarða hvernig við nýtum 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar. Við færðum út fiskveiðilögsögu okkar 1975. Þá mótmæltu Norðmenn ekki. Með þögninni hafa þeir því samþykkt aðgerðir okkar 1975. Þar höfum við þegar fengið næstum því fjögurra ára forskot. Samgöngur eru það góðar á milli landanna að það hefðu átt að berast mótmæli til okkar á þessu tímabili ef einhver hefðu verið. Hinu er ekki að leyna, að við höfum hug á og eigum að hafa hug á að reyna að ná samningum um veiðarnar umhverfis Jan Mayen, sérstaklega um loðnuveiðarnar, um annað er ekki að ræða núna, og það er okkur auðvitað mikið kappsmál að eiga þá samninga við Norðmenn eina. Hins vegar vitum við ekkert hvað verður í framtíðinni um fiskveiðilögsögu Grænlands. Fiskveiðilögsaga Grænlands verður um 1.5 millj. km2. Þar af eru 700 þús. km2 við Vestur-Grænland og 500 þús. km2 sunnan 67° við Austur-Grænland. Hin nýja 200 sjómílna lögsaga Austur-Grænlands nær aðeins að 67° nl. br. enn sem komið er. Þessi mál eru, eins og hæstv. utanrrh. sagði í frumræðu sinni í dag, í höndum Dana, en þegar fiskveiðilögsagan verður færð út í 200 mílur, hvenær sem þeir gera það, verður boltinn gefinn til Efnahagsbandalagsins í sambandi við nýtingu þess hafsvæðis.

Ef við lítum á það hafsvæði allt sem þessar þjóðir koma til með í framtíðinni að ráða yfir, Grænland, Færeyjar og Ísland, er talið að fiskveiðilögsaga Færeyja sé um 270 þús. km2, fiskveiðilögsaga Grænlands verður um 1.5 millj. km2 þegar allar aðgerðir hafa verið gerðar og — eins og allir vita — fiskveiðilögsaga Íslendinga um 758 þús. km2. Hér er því um gífurlegt hafsvæði að ræða, og þrátt fyrir full- og ofnýtta ákveðna fiskstofna eru ótal möguleikar á því mikla hafsvæði fyrir þjóðirnar í framtíðinni. En hins vegar megum við auðvitað gjalda varhuga við að grænlenska fiskveiðilögsagan er og verður sennilega ekki í náinni framtíð undir stjórn þeirrar fámennu þjóðar, heldur meira í höndum þeirra sem stærri eru. Þá á ég sérstaklega við Efnahagsbandalagið.

Efnahagsbandalagsþjóðirnar eiga við ýmsa erfiðleika að etja á sviði fiskveiðimála eins og aðrar þjóðir. Hafa margar þjóðir þess bandalags orðið að grípa til mikilla samdráttaraðgerða í fiskveiðimálum, sem gera það að verkum að stór hluti fiskiflota bandalagsþjóða liggur lítt notaður og vaxandi eru kröfur fiskimanna þessara þjóða um að nýta mun betur þá möguleika sem bandalagið getur haft. Við megum því búast við að þarna verði sótt á í framtíðinni.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna að þegar harðast var að okkur gengið um veiðiheimildir, eftir að fiskveiðilögsagan var færð út í 200 mílur og við stefndum markvisst að því að losa okkur við erlendar þjóðir á miðunum og fá full yfirráð yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu, sótti Efnahagsbandalagið á og átti við okkur tvo formlega viðræðufundi hér á landi og eins fundi úti í Brüssel. Þá ákvað fyrrv. ríkisstj. að við semdum drög að fiskverndarsamningi sem fulltrúum Efnahagsbandalagsins voru afhent, en harðlega var neitað um fiskveiðiheimildir innan fiskveiðilögsögu okkar. Þá hugsaði Efnahagsbandalagið eða fulltrúar þess fyrst og fremst um að fá hér veiðiheimildir fyrir skip þjóða innan bandalagsins, en kannske var minna hugsað um að búa til samræmda fiskverndarstefnu. Ég er sannfærður um að þau drög, sem þá voru afhent, urðu til þess að hægt var að tala um fiskveiðiheimildir. Á hinn bóginn eru þau mikils virði fyrir okkur vegna þess að við eigum mikilla hagsmuna að gæta, ekki eingöngu í loðnuveiði norðaustur og austur í hafinu, heldur einnig á milli Vestfjarða og Grænlands, þá á ég fyrst og fremst við sumarloðnuna og sömuleiðis eru enn vestar sameiginleg mið þar sem við veiðum þá fiskstofna sem við erum að nýta í ríkari mæli, og þá á ég einkum við kolmunnann sem verður vafalaust gífurlega stór þáttur í útgerð okkar á næstu árum og fer hraðvaxandi, sérstaklega nú þegar enn eru gerðar takmarkanir á loðnumagninu sem veiða má, og svo kemur djúprækjan sem er sótt í í vaxandi mæli af okkur Íslendingum. Ýmis önnur sameiginleg mið eru á þessum slóðum. Mikilvæg karfamið eru þar. Því ber okkur að haga málflutningi okkar og stefnu í fiskveiðimálum með þeim hætti að við getum laðað Efnahagsbandalagsþjóðir til samstarfs við okkur. Við þurfum sannarlega á því að halda og það innan ekki langs tíma að mínu mati.

Stærsti sigur okkar var auðvitað að færa út í 200 sjómílur og ná því marki að þær þjóðir, sem hér veiddu mest og hafa veitt hér í mörg hundruð ár, eru horfnar af miðum okkar og eins að losna við stóran og afkastamikinn fiskiflota sem sótti mikið í tilteknar fisktegundir á svæðinu frá 50 í 200 mílur. Þá komu auðvitað, eins og alltaf, kröfur fram um að segja upp öllum fiskveiðisamningum, reka sem sagt alla frá. En þar þurfti að gæta líka nokkurra skildinga, þó að ég viðurkenni fúslega að æskilegast hefði verið að engin erlend þjóð væri innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Þrjár þjóðir urðu eftir sem samninga hafa gert. Ég hafði þá skoðun fyrir mitt leyti og fyrrv. ríkisstj. samþykkti og staðfesti að þeim yrði ekki sagt upp.

Í fyrsta lagi var samningurinn við Færeyinga, sem er langstærsti samningurinn og er um verulegt magn af fiski. Skoðun okkar var sú, að við mundum eiga vísa mikla og vaxandi andstöðu þjóða á Hafréttarráðstefnunni ef við segðum upp samningi við þjóð sem er ekki nema um fjórðungur á við okkur að stærð, — það eru ekki margar slíkar meðal næstu nágranna okkar, — og er að berjast fyrir tilveru sinni sem fiskveiðiþjóð og á allt líf sitt undir fiskveiðum, er að mynda sjálfstæða fiskveiðistefnu og hefur staðið frammi fyrir miklum erfiðleikum gagnvart t. d. Efnahagsbandalaginu eða ákveðnum þjóðum innan þess og hefur með bæði lipurð og hyggindum náð mjög verulegum árangri í samstarfi eða í samningum við þær þjóðir. Því kom ekki til greina frá mínum bæjardyrum séð að reka nágranna okkar, frændur og vini algerlega af fiskimiðum okkar þó að við séum að gera mjög harðar og erfiðar ráðstafanir. Það var samið á sínum tíma við Færeyinga — og lækkað verulega — um 17 þús. tonna veiði, þar af 8000 tonn þorskur. Færeysku saltfisktogurunum var bægt frá í samningunum á tímabili fyrrv. ríkisstj. og síðan var þorskhlutfallið með frjálsu samkomulagi lækkað niður í 7 þús. lestir. Á tímabili núv. hæstv. ríkisstj. var enn þá lækkaður þorskkvóti Færeyinga um 1000 lestir. Hann er því kominn niður í 6000 lestir núna, sem var auðvitað hárrétt stefna. Auðvitað verða þeir, þó vinir okkar séu, að búa við hið sama og Íslendingar sjálfir.

Norski samningurinn er mjög lítilfjörlegur. Árið 1977 veiddu Norðmenn hér 3122 tonn og á s. l. ári var heildarveiði Norðmanna 2026 tonn, þar af tæp 200 tonn þorskur. Um umtalsverðan þorskafla er því í raun og veru ekki að ræða. Niðurskurður átti sér stað í tíð fyrrv. stjórnar. Það er í hendi sjútvrh. á hverjum tíma að afturkalla eða endurnýja ekki veiðileyfi til norskra fiskiskipa. Ég afturkallaði þau á s. l. sumri til þess að Norðmenn fyndu einnig fyrir þeim niðurskurði sem hér var verið að gera.

Ég tel fráleitt, á sama tíma og við þurfum að semja við Norðmenn um nýtingu hafsvæðisins umhverfis Jan Mayen, að segja upp þessum lítilfjörlega samningi. Við stöndum einnig í samningum við þá og þurfum að gera um norsk-íslenska síldarstofninn, sem vinir okkar Færeyingar vilja kalla Norður-Atlantshafssíldarstofninn. Þar brugðust Norðmenn okkur — það verður að segja hverja sögu eins og hún er — með því að leyfa að vísu takmarkaða veiði af þeim stofni í fjörðum Noregs. En grunur leikur nú á að þar hafi verið veitt miklu meira en norsk stjórnvöld heimiluðu. Það urðu okkur mjög sár vonbrigði að Norðmenn skyldu gera þetta, þrátt fyrir að búið var að lofa að hafa í þeim efnum samvinnu og samstarf við Íslendinga.

Þá er einnig nauðsynlegt fyrir okkur að semja við Norðmenn ef við viljum nýta hrefnuna í Norður-Atlantshafinu. Kvóta Alþjóðahvalveiðiráðsins hefur verið mjög misskipt í Norður-Atlantshafi og eins hefur þegar sunnar dregur verið leyft að veiða hlutfallslega miklu fleiri dýr. Við þurfum að auka þessa nýtingu miklu meira í fiskveiðilögsögu okkar, enda er um mikla skömmtunarveiði að ræða. Meðan kvótakerfið er, sem mun verða, höfum við auðvitað undirgengist að hlýða samþykktum Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem eru mikilvægar fyrir okkur eins og allar aðrar þjóðir sem hér hafa hagsmuna að gæta.

Þriðji samningurinn, sem um er að ræða, er belgíski samningurinn. Ég vil vitna til þess þegar samningurinn við Færeyinga kom til atkv. í marsmánuði, 14. mars hygg ég að það hafi verið. Þá gerði ég þegar grein fyrir afstöðu minni við nafnakall um samninginn. Ég sagði þá varðandi samninginn við Belga:

„Ég er því fylgjandi að utanrrn. Íslands í samráði við sjútvrn. taki upp frjálsa samninga við Belga um að lækka frá gildandi samningi hámarksafla þeirra úr 6500 tonnum, sem þeir hafa ekki komist upp í á undanförnum árum að veiða, og niður í a. m. k. 4400 tonn og þorskafla þar af um helming frá því sem hann er í gildandi samningi.“

Ég sé að hæstv. utanrrh. hefur ákveðið að ganga til samninga við Belga. Hann nefnir 5 þús. tonn og að þorskur megi ekki fara yfir 15% af því magni.

Ef við lítum á þann samning, sem gerður var við Belga af fyrrv. utanrrh., Einari Ágústssyni, er fiskveiðikvóti Belga 6500 lestir. Er gert ráð fyrir að 12 belgískir togarar fái að veiða upp í þann samning. Eftir að sá samningur var gerður hafa aldrei verið 12 belgískir togarar sem hafa notað sér veiðiheimildir, því að 1974 er síðasta árið sem 12 belgískir togarar komu á Íslandsmið, 1975 voru þeir ekki nema 11, 1976 og 1977 voru þeir aðeins 10 og á s. l. ári var togarafjöldinn kominn niður í 8. Á fskj., sem fylgdi samningnum, stendur að af þessum 12 togurum voru 5 upprunalega innan við 200 tonn og ég held 4 á milli 200 og 300 tonn. Þarna var því ekki um nein stærðarskip að ræða. Ég tel sjálfsagt að endurnýja samning þennan og alls ekki segja honum upp. Ég hefði þó talið rétt að við gerðum kröfu um að lækka magnið í 4400 tonn. En það skiptir ekki sköpum fyrir okkur Íslendinga í þessum efnum miðað við skipafjöldann sem hér er um að ræða. Í raun og veru væru 5 þús. tonn enginn niðurskurður frá því sem verið hefur, því að 1977 var heildarafli Belga hér ekki nema 5960 tonn og á s. l. ári var hann 5743 tonn, þorskaflinn á s. l. ári þar af aðeins 1360 tonn, en með 5000 tonna veiði og 15% mættu vera þorskur er þorskaflinn um 750 tonn, sem er svipað eða það sama og ég vitnaði til í sambandi við afgreiðslu á færeyska samningnum.

Ég held líka að það sé mikilvægt atriði að ákvörðun sé tekin sem allra fyrst um að loðnuveiðar byrji seinna á þessu ári en hefur verið undanfarin ár, enda er sumarveiði á loðnu ný hér við land. Sjútvrn. var á þeim tíma að þreifa sig áfram með hvenær ætti að leyfa að byrja sumarveiði, og ég held að reynslan hafi kennt okkur að við eigum ekki að byrja jafnsnemma og leyft var á s. l. ári. Ef ég hefði átt að taka ákvörðun um það aftur hefði ég fært leyfistímabilið aftur og ákvarðað þegar í stað hvenær veiðitímabil ætti að hefjast, því að slíkt er líka nauðsynlegt fyrir útgerðarmenn og sjómenn að vita. En ég tel aftur á móti mikils virði að ákvörðun sé tekin sem allra fyrst, þannig að hæstv. utanrrh. geti sagt við starfsbróður sinn, Frydenlund, þegar hann ræðir við hann, að við höfum þegar í stað tekið ákvörðun um að draga verulega úr sumarveiði á loðnu með því að hefja veiðar seinna en áður. Það sýnir og sannar Norðmönnum þá að okkur er alvara.

Hitt er svo annað mál, að við verðum að fara mjög gætilega í þann niðurskurð sem á að gera. Það verður okkur auðvitað þungt áfall að stefna allt niður í 600 þús. lesta ársafla af loðnu, eins og fiskifræðingar hafa lagt til, bæði norskir, íslenskir og færeyskir, og ég tel fyrir mitt leyti að ástæða væri til þess að þær skýrslur væru kannaðar og viðræður hafnar sem fyrst um það atriði hvort hér sé virkilega svo mikil alvara á ferðum að skera þurfi niður loðnuafla svo gífurlega öfugt við þær björtu vonir sem vísindamenn okkar gáfu fyrir tæplega tveimur árum þegar þeir töldu að það mætti veiða allt upp í 1.5 millj. lesta. Hér er ekki um að ræða ofveiði eða að við höfum sótt meira í þennan fiskstofn en þeir hafa lagt til. Við höfum aldrei komist upp í lægri kantinn á því sem þeir sögðu að veiða mætti, fyrr en lítillega á nýliðinni vertíð að farið var fram úr markinu áður en sjútvrn. stöðvaði veiðarnar, svo að ekki hefur það skipt sköpum. Það liggja þá önnur og veigameiri atriði til grundvallar skoðun vísindamannanna.

Ég sagði í upphafi að ég ætlaði ekki að flytja ræðu um utanríkismálin almennt, heldur aðeins að gera hafréttar- og fiskveiðimálefni að umræðuefni. En þó get ég ekki stillt mig um að nefna það eftir ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, að Alþb. hefur samið sig inn í ríkisstj. á þeim forsendum að fylgja í öllum grundvallaratriðum stefnu fyrrv. ríkisstj. í utanríkismálum og þessu verður ekki breytt nema með samkomulagi allra þriggja stjórnmálaflokkanna, og þó að núv. hæstv. ríkisstj. sé brokkgeng vil ég ekki ætla henni að breyta um stefnu í utanríkismálum í neinum grundvallaratriðum. Það lítur því hálfkáfbroslega út þegar talsmenn Alþb., eins og þessi hv. þm., eru að kvarta og kveina um ýmislegt. Þetta er það sem þeir hafa sjálfir samið um og hafa heitið að vinna að í samstarfsyfirlýsingu núv. ríkisstj. Og þó að þeir hafi sett bókun um að þeir hafi verið andvígir þátttöku Íslands í NATO liggur það fyrir að þeir skríða upp í hverja ríkisstj. á eftir annarri þar sem þeir sætta sig prýðilega við að Ísland sé í varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Hitt er alveg rétt, að Keflavíkurgönguferðir leggjast alltaf niður á meðan vinstri stjórn situr, en svo þegar þeir eru komnir úr ríkisstj. fara þeir allir í Keflavíkurskóna sína og þramma með fána og kröfuspjöld á lofti og hvíla sig auðvitað oft því að þetta eru engir göngugarpar þegar allt kemur til alls. Slíkt er leikur sem þetta lið hefur leikið í mörg undanfarin ár og ekki nokkur heilvita Íslendingur tekur alvarlega, sem ekki er von. — Ég ætla að láta staðar numið.