09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4551 í B-deild Alþingistíðinda. (3683)

256. mál, fiskiverndarsjóður

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur fjórir þm. að flytja á þskj. 522 frv. til l. um fiskiverndarsjóð. Auk mín flytja frv. þm. Sverrir Hermannsson, Páll Pétursson og Árni Gunnarsson.

Efni þessa máls er í sjálfu sér mjög einfalt, þó að það lúti að máli sem hefur verið mikið um rætt og er mikilvægt. Í fáum orðum sagt er nú orðið ljóst að þau sjónarmið njóta almennrar viðurkenningar, að á undanförnum árum höfum við ofnýtt nokkra af þýðingarmestu fiskstofnunum við landið. Landsmenn er almennt sammála um að viðvaranir fiskifræðinga beri að taka alvarlega og að stjórnvöldum beri skylda til þess að marka ákveðna og afdráttarlausa fiskveiðistefnu þar sem veiðum er beint úr ofnýttum fiskstofnum í vannýtta stofna. Um þetta er ekki deilt, þó að ágreiningur sé að sjálfsögðu um, með hvaða hætti þetta eigi að gera, og deilur séu um það á milli landshluta og veiðiskipategunda.

Með þeim aflatakmörkunum, sem settar hafa verið og fyrirsjáanlegt er að settar verði, er ekki aðeins verið að taka upp í fyrsta sinn skipulegan fiskibúskap, heldur er jafnframt verið að takmarka nýtingu á auðlind sem er í eigu þjóðarinnar allrar og menn hafa hingað til vanist að geta nýtt án nokkurra takmarkana af stjórnvalda hálfu. Það er því alveg ljóst að þær takmarkanir, sem gerðar hafa verið og gerðar verða, munu koma mjög illa við kaun ýmissa aðila: einstaklinga, starfshópa, byggðarlaga og jafnvel heilla landshluta. Á sumum stöðum háttar svo til að atvinnulíf er ekki aðeins einhæft, fyrst og fremst fiskveiðar og fiskvinnsla, heldur sniðið við ákaflega einhæfar veiðar og einhæfa vinnslu. Hátti svo til á slíkum stöðum, að þar sé um að ræða veiðar og vinnslu á fiskstofni sem talinn er ofnýttur, er ljóst að allar takmarkanir á slíkum veiðum hljóta að breyta aðstæðum mjög. Þær hljóta að valda í fyrsta lagi umtalsverðu tekjutapi viðkomandi aðila: einstaklinga, fyrirtækja og bæjarfélaga, og í öðru lagi allverulegri atvinnuröskun. Dæmi eru t. d. um að slíkt tekjutap geti numið allt frá 20 og upp í 35% milli ára hjá einstaklingum og fyrirtækjum í fiskveiðum og fiskvinnslu. Þegar tekið er tillit til þess, að ekki aðeins þessir aðilar hafa tekjur af veiðum og vinnslu, heldur byggjast tekjur sveitarfélagsins á þeirri atvinnustarfsemi og öll önnur atvinnustarfsemi, svo sem allur þjónustuiðnaður og jafnvel byggingariðnaður líka er í beinum tengslum við fiskveiðarnar og fiskvinnsluna, þá er ljóst að tekjutap, sem virðist ekki koma við mjög marga, kemur þegar lengra er lítið niður á byggðarlaginu í heild. Þær staðreyndir ættu menn að hafa í huga þegar rætt er um þessi mál.

Það er ekki hlaupið að því að skera niður veiðar á þeim fiskstofnum sem taldir eru vannýttir. Slíkar aðgerðir koma mjög alvarlega við hagsmuni þeirra sem hlut eiga að máli. Þeir fjölmörgu, sem haft hafa uppi brýningar um að mjög harkalegum aflatakmörkunum verði beitt, ættu að gera sér ljóst að með því eru þeir að krefjast þess að aðeins lítill hluti landsmanna taki á sig tekjuskerðingu sem numið getur stórum hluta ráðstöfunartekna sem eftir standa þegar skattgreiðslur hafa verið dregnar frá.

Það er að sjálfsögðu mjög auðvelt að krefjast aðhalds og niðurskurðar ef aðrir eiga í hlut, en hætt er við að menn verði tvísaga í ábyrgðarsemdinni þegar þeir í öðru orðinu krefjast þess að sjómenn og fiskverkafólk úti á landsbyggðinni skerði tekjur sínar um allt að 35% og horfist í augu við atvinnuleysi samfara tekjurýrnuninni, en í hinu orðinu hafna því sem algerlega fráleitum hlut að una við óbreyttan kaupmátt sjálfir.

Með frv. því, sem hér er flutt, er gerð tilraun til að benda á ákveðna leið sem gæti í senn orðið til þess að auðvelda framkvæmd skynsamlegrar fiskveiðistefnu og jafnframt að dreifa byrðum af henni sem jafnast á landsmenn alla. Ég held að öllum sé ljóst að fiskurinn í sjónum er náttúruauðlind sem þjóðin á öll. Það eru hagsmunir þjóðarinnar sem heildar sem eru í veði þegar ákvarðað er hvernig sú auðlind skuli nýtt. Séu settar takmarkanir á nýtingu hennar með valdboði stjórnvalda er ljóst að stjórnvöld, sem eru til þess kjörin af almenningi, eru að taka ákvarðanir sem ekki aðeins hafa áhrif á hagsmuni þeirra fámennu stétta manna sem beinan hlut eiga að máli, heldur eru teknar til að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar. Ef slík hagsmunagæsla verður til þess að týra mjög kjör ákveðinna þjóðfélagsþegna er ljóst að þjóðarheildin ber þar ábyrgð á og ber skylda til þess í tilviki eins og hér um ræðir að láta ekki við það sitja að lítill hluti þjóðfélagsþegnanna taki á sig allar byrðar af stefnu sem talið er nauðsynlegt að stjórnvöld framkvæmi í nafni almannaheilla.

Með þeim aðgerðum, sem frv. gerir ráð fyrir, er þannig að því stefnt að landsmenn allir leggi fram sinn litla skerf til fiskverndunarmálanna í því skyni að verja, varðveita og byggja upp mikilvægustu auðlind landsmanna og verji til þess fé sem vera mun talsvert minna en allflestir nota á ári til að spila fyrir í happdrættum, svo að lítið dæmi sé tekið. Sé um að ræða að ákvörðunin um aflatakmarkanir komi aðeins niður á kjörum þeirra sem beinna hagsmuna hafa að gæta, þ. e. a. s. sjómanna og fiskverkafólks, geta þær ákvarðanir orðið til þess, eins og ég sagði áðan, að rýra tekjur slíkra einstaklinga um allt að rösklega einn þriðja. Séu hins vegar þær ákvarðanir, sem teknar eru í nafni þjóðarheildarinnar og af forustumönnum sem þjóðarheildin hefur kjörið sér, jafnframt bornar af þjóðarheildinni með sameiginlegum fjármunatilfærslum er aðeins um að ræða svo léttvæga byrði á hvern og einn að nemur litlu meira fé en talið er að fólk spili almennt fyrir í tveimur stærstu happdrættum landsmanna.

Með frv. er sem sé lagt til að stofnaður verði sjóður, er nefnist fiskiverndarsjóður, og hann verði starfræktur um tiltekinn tíma eða þar til talið er að ströngustu aðhaldsaðgerðum í fiskveiðimálum verði lokið.

Ráð er fyrir því gert í frv., að hlutverk fiskiverndarsjóðs verði þríþætt:

Í fyrsta lagi á hann að greiða fyrir veiðum á vannýttum fiskstofnum og auðvelda með þeim hætti að snúa fiskveiðum í auknum mæli frá ofnýttum stofnum yfir í vannýtta stofna, án þess að umtalsvert fjárhagstjón hljótist af. Þetta getur sjóðurinn t. d. gert með að greiða verðbætur á verðlágan fisk, sem telst til vannýttra fiskstofna, á sama tíma og mælt er fyrir um veiðistöðvanir eða veiðitakmarkanir á ofnýttum stofnum.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir að sjóðurinn veiti aðstoð við að framkvæma breytingar og endurbætur á vinnsluaðferðum og tækjabúnaði fiskvinnslufyrirtækja í landi, sem miðað hafa alla vinnslu sína t. d. við vinnslu á þorski eða öðrum fisktegundum, sem taldar eru ofnýttar, og þurfa að tileinka sér nýjar vinnsluaðferðir og nýtt hráefni. Sem dæmi um þetta má nefna, og vitna ég þar í kjördæmi mitt því að þar er ég málum kunnugastur, að hraðfrystihúsin á Vestfjörðum hafa undanfarin ár byggt upp starfrækslu sína fyrst og fremst á vinnslu þorsks. Slíkt er ekkert óvanalegt. Ekki er langt síðan t. d. frystihús á Reykjavíkursvæðinu byggðu vinnslurásir sínar fyrst og fremst upp á vinnslu á karfa — eða á þeim árum þegar karfaafli var hvað mestur á Nýfundnalandsmiðum. Sambærilegar aðstæður hafa valdið því að frystihúsin á Vestfjörðum og raunar víða annars staðar á landinu, t. d. á Norðurlandi, hafa byggt vinnslurásir sínar og tæknibúnað fyrst og fremst á vinnslu á þorski. Nú er gert ráð fyrir að veiðiskip á þessu svæði beini sókn sinni í aðra fiskstofna, fyrst og fremst í karfa og grálúðu. En þá er sá hængurinn á, að frystihúsin, sem eiga að vinna þann fisk, eru ekki til þess búin. Á öllum Vestfjörðum voru til skamms tíma ekki til nema tvær karfaflökunarvélar, svo að dæmi sé nefnt, þó að nokkuð hafi verið úr því bætt að undanförnu, og á öllum fjörðunum eru aðeins til tvær flökunarvélar til að flaka flatfisk. Því hafa menn einmitt um það leyti sem þessar umr. fara fram neyðst til þess á Ísafirði að taka upp vaktavinnu í öðru frystihúsinu við vinnslu á grálúðu. Þar stendur fólk nú á fjórum vöktum og frystihúsið er í notkun allan sólarhringinn, vegna þess að vantar tækjabúnað til að flaka grálúðuna sem á land kemur, þó svo að frystitæki og annar tækjabúnaður hússins hafi undan að vinna fiskinn eftir að búið er að flaka hann.

Það er alveg ljóst, að þegar breytt er með slíkum hætti um vinnsluaðferðir, vegna þess að aðstæður breytast að fyrirlagi stjórnvalda, hljóta fyrirtæki sem hafa lagt í mjög miklar og kostnaðarsamar endurbætur og verða nú að taka upp nýjar vinnsluaðferðir, sem endurbæturnar voru ekki miðaðar við, að verða fyrir talsverðu beinu fjárhagstjóni þá þegar og í öðru lagi að neyðast til að leggja út í mjög verulegar fjárfestingar vegna breyttrar aðstöðu. Það er sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld, sem knýja hinar breyttu aðstæður fram með valdboði, aðstoði fyrirtækin við að breyta vinnslurásum sínum og vinnsluaðferðum. Annað dæmi um þetta, sem á eftir að skapa okkur talsverð vandamál, eru málefni fiskimjölsverksmiðja á landinu, þar sem á mjög stórum landssvæðum er ekki aðstaða til feitbeinabræðslu og verður að leggja í mjög kostnaðarsamar endurbætur á fiskimjölsverksmiðjum til þess að slíka vinnslu megi taka upp. En það verður að gera sökum breyttra aðstæðna þegar fiskiskipaflotanum er beint að veiðum á öðrum fiskitegundum en þeim sem hann hefur verið byggður upp til þess að veiða og vinnslan í landi byggð upp til þess að verka. — Þetta er sem sé annað meginviðfangsefnið sem gert er ráð fyrir að fiskiverndarsjóður fái með þessu frv.

Í þriðja lagi er svo g;ert ráð fyrir í frv., að sjóðurinn geti aðstoðað þá aðila sem sannanlega verða fyrir verulegum búsifjum af völdum veiðitakmarkana og annarra fyrirmæla stjórnvalda um fiskveiðistefnu og ekki er hægt að koma til móts við með öðrum hætti.

Þetta eru meginatriði í þeirri stefnu sem mörkuð er í frv.:

Það er í fyrsta lagi, að því verði slegið föstu, að það áfall, sem af veiðitakmörkunum kann að hljótast fyrir einstök byggðarlög, einstök fyrirtæki, einstaka landshluta og einstakar stéttir í þjóðfélaginu og getur verið mjög tilfinnanlegt, verði borið sameiginlega af þjóðarheildinni. Hér er um að ræða ákvarðanir sem teknar eru af handhöfum almannavalds með valdboði, með stjórnvaldsathöfnum í nafni sameiginlegra hagsmuna þjóðarinnar, og því hlýtur að vera sameiginlegt mál þjóðarinnar að bera afleiðingarnar. Annað meginatriðið er að stofna sjóð er hafi það hlutverk sem greinir í 2. gr. frv. og ég hef lýst.

Í 3. gr. er ákvæði um hvernig eigi að afla sjóði þessum tekna. Það má gera á margan hátt. Það mætti hugsa sér t. d. að tekna væri aflað á fjárlögum hverju sinni með framlagi sem Alþ. ákvæði. Það mætti einnig hugsa sér að a. m. k. mjög verulegur hluti af tekjum sjóðsins kæmi með lánsfjáröflun, jafnvel með öflun lánsfjár erlendis. Á það hefur verið bent, að arðurinn af fiskveiðistefnu eða réttara sagt af takmörkunum fiskveiða sé svo mikill þegar til lengri tíma er litið að það mundi meira en borga sig að taka lán til að auðvelda framkvæmd veiðisamdráttar með það fyrir augum að greiða slíkt lán til baka síúar. Þriðji möguleikinn, sem til greina kemur á tekjuöflun, er svo sá sem á er bent í 3. gr. frv., þ. e. a. s. að fá fiskiverndarsjóðnum sérstakan tekjustofn, sem í þessu tilviki er gert ráð fyrir að sé, auk framlaga úr ríkissjóði og tekna af eigin fé, gjald sem í fyrsta lagi er almennur viðbótarlaunaskattur er lagður er á launagreiðendur, en nemur í öðru lagi jafnháum skatti á greidd vinnulaun.

Ágallar slíks kerfis eru að sjálfsögðu margir. Þó að gjaldið sé ekki hátt, 0.3% launaskattur og jafnhár skattur af greiddum vinnulaunum, er það engu að síður markaður tekjustofn sem stjórnvöld líta ekki sérstaklega hýru auga. En við flm. frv. leggjum þessa till. fram frekar sem ábendingu um eina af leiðum til fjármögnunar sjóðsins sem til greina koma, fremur en við séum að taka þá leið fram yfir ýmsar aðrar sem til greina geta komið. Ég lýsi því yfir fyrir hönd okkar allra, að við erum opnir fyrir því að 3. gr. verði mjög verulega breytt í meðförum nefnda þingsins.

Að lokum þetta: Mér hefur verið bent á að vera kunni að það muni gera okkur erfitt um vik í sambandi við sölustarfsemi okkar erlendis, einkum og sér í lagi í sambandi við þau hlunnindi sem við njótum við sölu fisks á Bandaríkjamarkaði, að taka upp beinar eða óbeinar styrkveitingar eða styrkjagreiðslur í sambandi við fiskveiðar okkar. Fróðir menn hafa sagt mér að það sé ekki ástæða til að óttast slíkt einfaldlega vegna þess að hér sé ekki um að ræða styrkjapólitík, hér sé ekki um að ræða viðvarandi styrkjastefnu til sjávarútvegsins, heldur gjald sem á er lagt og síðan greitt til varðveislu náttúrauðlinda, og það sé almennt viðurkennt að slík gjaldtaka og greiðslur í slíkum tilvikum séu ekki og beri ekki að skoða sem venjulega framleiðslustyrki sem gætu stefnt í hættu viðskiptasamböndum okkar t. d. á Bandaríkjamarkaði og þeim hlunnindum sem við njótum þar í fisksölumálum.

Herra forseti. Ég tel svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál, en legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.