09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4555 í B-deild Alþingistíðinda. (3685)

273. mál, framlag Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er um að ræða, hefur hlotið meðferð í hv. Ed. Alþingis og verið afgreitt þar samhljóða. Í frv. er óskað heimildar fyrir ríkisstj. til að hækka fjárframlag eða m. ö. o. kvóta Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um 50% eða 29 millj. sérstakra dráttarréttinda í 43.5 millj. sérstakra dráttarréttinda, en SDR er gjaldmiðill sem aðildarþjóðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykktu 1968 að myndaður yrði til að taka við stöðu dollarans sem alþjóðlegur gjaldmiðill.

Verðgildi SDR ræðst af verðgildi 16 helstu viðskiptagjaldmiðla heims, sem vegið er með hlutdeild þeirra í milliríkjaviðskiptum í heiminum. Hinn 1. febr. s. l. var hver eining SDR jafnvirði 1.28 Bandaríkjadala eða u. þ. b. 412 ísl. kr. hver eining. Heildarkvótar aðildarríkjanna og kvótar einstakra ríkja hafa verið endurskoðaðir með reglubundnum hætti frá því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tók til starfa, og hinn 11. des. s. l. var einróma samþykkt í ráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ákvörðun um að hækka heildarkvóta aðildarríkjanna um 50%, eða úr 39 milljörðum SDR í 58.6 milljarða SDR. Með frv. þessu er því einungis leitað eftir heimild til að hækka kvóta Íslands til samræmis við þá ákvörðun.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.