10.05.1979
Efri deild: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4598 í B-deild Alþingistíðinda. (3737)

92. mál, almannatryggingar

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að geta þess, að þetta frv. kom til umræðu á fundum hjá tryggingaráði og eftirkönnun, sem tryggingayfirlæknir gerði á þessu máli fyrir beiðni tryggingaráðs, taldi tryggingaráð að þetta væri mál sem ætti fullkomlega rétt á sér. Það var að vísu rætt um það að þarna kæmi ugglaust fleira á eftir, svo sem gigtarsjúklingar, og tryggingaráð gerði sér fullkomlega ljóst að það yrði kannske erfitt að neita um fyrirgreiðslu við slíka sjúklinga eftir að þetta væri opnað eins og hér er gert. En því er ekki að neita, að ýmsir læknar, sem nýlega hafa lært hér gigtarlækningar, hafa mjög mælt með því að gigtarsjúklingar færu utan sér til heilsubótar á ýmsum sjúkrahúsum erlendis sem þeir telja að geti veitt betri þjónustu og meiri lækningu en fæst hér heima. En það er sótt á þetta af fleiri aðilum, og eins og hv. þm., sem talaði áðan, benti á má búast við að sótt verði á þetta eftir að það er opnað eins og hér er lagt til. En þó taldi tryggingayfirlæknir, — ég held að ég fari ekki rangt með það, — að þetta væri þó hvað sérstæðast, þannig að það hlaut meðmæli eða jákvæði tryggingaráðs að þetta yrði reynt.

Til upplýsingar fyrir d. var tryggingayfirlækni falið að kanna möguleika á því að komast í sambönd við sjúkrahús, er væru rekin suður í löndum af frændum vorum á Norðurlöndum. Það hefur bæði verið athugað í Júgóslavíu og ég hygg á Spáni. En hér er e. t. v. ástæða til að geta þess, að það hafa komið fram hugmyndir, að vísu ekki enn þá frá tryggingaráði, að þessi mál ætti að athuga miklu betur, hvort ekki ætti að athuga, á sömu leið og bæði Norðmenn og Svíar og ég hygg Danir hafa kannað, hve mikill læknisdómur er í sólskininu suður í löndum. E. t. v. er það framtíðarmál fyrir Alþingi Íslendinga og fleiri aðila að opna meira þann möguleika að sjúklingar héðan að heiman, gigtarsjúklingar og ýmsir aðrir sjúklingar, geti komist suður í sólskinið á sjúkrahús sem væru rekin af Íslendingum. Slík sjúkrahús eru nú að koma upp á vegum Norðurlandabúa, eins og ég gat um áðan, og hví skyldum við ekki geta stefnt að slíku, þó að þetta eins og ég sagði áðan, séu kannske framtíðarskýjaborgir í bili? En sem sagt, ég vildi að það kæmi hér fram að það var fjallað um þetta mál í tryggingaráði, og ég held að ég misfari ekki með það, að yfirleitt var lítið svo á að það væri æskilegt að koma til móts við þessa sjúklinga.