07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

21. mál, aðbúnaður og hollustuhættir á vinnustöðum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég óskaði eftir því, þegar þessi fsp. var á dagskrá, að hæstv. ráðh. gerði Alþ. grein fyrir því, hvaða liðir af þeim, sem er verið að skera niður á núgildandi fjárl., það eru, sem hugmyndin hefði verið að afla fjár til með lánum, og hvaða áhrif niðurskurðurinn þess vegna hefði á greiðslustöðu ríkissjóðs. Það eru þarna nokkrir liðir sem þannig voru hugsaðir. Ég man ekki gjörla hvaða liðir það eru, en ég man sérstaklega eftir þjóðarbókhlöðunni, þar sem er um að ræða 70 millj. kr. lækkun af 600. Ef ég man rétt er gert ráð fyrir að afla fjár til hennar með lánum, þannig að niðurskurður á því verki hefur ekki áhrif á greiðslustöðu ríkissjóðs sem slíks. Hann tekur þeim mun minna af lánum, 70 millj. kr. minna, og greiðir þá ekki þau lán heldur. Þessi niðurstaða, 600 millj. kr. niðurskurður, segir okkur því ekki hvaða markmiðum er unnt að ná til þess að ráða bót á greiðsluerfiðleikum ríkissjóðs. Ég óskaði eftir því, að ráðh. gerði grein fyrir þessu í síðasta fsp.-tíma, og kom það á óvart að hann skyldi ekki gera það nú. Það kann að vera gleymska, og ég er ekkert að fárast yfir því, en ég sem sagt ítreka það, að ég tel miklu gleggra að hv. alþm. fái yfirlit yfir þetta um leið og gerð er grein fyrir þessum niðurskurði.