10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4611 í B-deild Alþingistíðinda. (3756)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., til l. um aðstoð við þroskahefta er stjfrv. og kemur frá Ed. í nokkuð breyttum búningi frá því að það var lagt fram. Það, sem gerst hefur, er, eins og hæstv. félmrh. gerði grein fyrir, að annað frv. til l., um Framkvæmdasjóð öryrkja, sem flutt var í hv. Nd. fyrr á þessum vetri, hefur að talsverðu leyti verið sameinað þessu frv., fellt inn í það, og þannig kemur frv. nú aftur til þessarar þd. Hér er um að ræða mjög merkilegt félagsmál, velferðarmál sem ég geri ráð fyrir að þm. séu yfirleitt sammála um að þurfi að gera úrbætur á. En eins og ég gat um áður er frv. nú breytt að því leyti til, að gert er ráð fyrir að sérstakt framlag úr ríkissjóði renni til nýs sjóðs, Framkvæmdasjóðs öryrkja, og segir í frv., eins og það kemur frá Ed. að tekjur sjóðsins skuli vera: Ríkissjóður skal árlega leggja sjóðnum til a. m. k. 1 milljarð kr. Skal sú fjárhæð hækka í hlutfalli við verðlagsvísitölu miðað við árið 1979 að grunni.

Ástæða er til í þessu sambandi að minna á að nýlega hefur Alþ. samþ. lög um stjórn efnahagsmála o. fl. sem öðlast þegar gildi og er kveðið á um það í 8. gr. þeirra laga, að fyrir lok þessa árs skuli ákvæði í lögum, sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða og einstakra verkefna með föstum reglubundnum hætti, tekin til endurskoðunar og kannað að hve miklu leyti fjárframlög til þessara þarfa verði framvegis ákveðin með fjárlögum ár hvert og í áætlun með fjárlagafrv. næstu þrjú árin eftir lok hvers fjárhagsárs.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir í lögum um stjórn efnahagsmála o. fl., að á þessu ári skuli ákvarðanir í ríkisfjármálum við það miðaðar að heildartekjur og útgjöld á fjárlögum haldist innan þeirra marka sem svara til 30% af vergri þjóðarframleiðslu. Síðan segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Svipað markmið skal gilda fyrir árið 1980.“ — M. ö. o. hafa menn markað þá stefnu að binda sig við um 30% af vergri þjóðarframleiðslu með tekjuöflun til ríkissjóðs.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir í lögum um stjórn efnahagsmála, að kostnaðarmat á tillögum frv., sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, skuli liggja fyrir frá fjárlaga- og hagsýslustofnun.

Það, sem mér finnst galli á meðferð þessa máls er ekki að frv. skuli verða samþ. um aðstoð við þroskahefta, heldur hitt, að ekki skuli jafnhliða rætt um hvernig á að standa að fjáröflun sem nemur 1 milljarði kr. ofan á það sem fyrir er. Það eru í raun og veru afleitir starfshættir á Alþ. að ekki skuli vera miklu vandaðri umræða og tillögugerð um báða þætti málsins, bæði útgjaldaþáttinn og einnig tekjuöflunina, og það sé tekið til umr. jöfnum höndum hvernig á að mæta útgjöldum, sem menn eru sammála um að stofna til, og að hve miklu leyti. Ég held að slíkt væri eðlilegt.

Ég tók ekki eftir því hvaða hæstv. félmrh. lagði til um n. í þessu sambandi. En eins og frv. er í núverandi búningi er gert ráð fyrir miklum viðbótarútgjöldum ríkissjóðs. Þess vegna er e. t. v. eðlilegt að vísa málinu til fjh.- og viðskn. Ég tók þó ekki eftir því hvaða till. hæstv. félmrh. gerði um það.

Án þess að ræða málið nánar vil ég vekja athygli hv. þm. á þessu: Ég hef ekki sérstöðu í þessu máli. Ég er fylgismaður málsins og flokkur minn. En ég vil aðeins vekja athygli á að þegar verið er að taka ákvarðanir um lögbundin útgjöld úr ríkissjóði er eðlilegt að ræða með hverjum hætti á að standa að fjáröflun. Nú er það svo, eins og ég gat um áður, að gert er ráð fyrir að fyrir lok þessa árs skuli ákvæði í lögum, sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða og einstakra verkefna með föstum reglubundnum hætti, tekin til endurskoðunar. Hér er að sjálfsögðu verið að víkja frá þeirri stefnu sem kemur fram í þeim lögum. Það hefur verið talað mikið fyrir því á hv. Alþ. í vetur og raunar áður, að æskilegt væri að draga úr mörkuðum tekjustofnum í lögum til að fjárlög ríkisins verði notuð í vaxandi mæli sem hagstjórnartæki, m. a. í baráttunni við þá illvígu verðbólgu sem við eigum við að stríða. Málsmeðferð með þessum hætti gengur að sjálfsögðu á svig við þá stefnu.

Ég er ekki með tillögugerð í þessu máli, en sem fjmrh. taldi ég nauðsynlegt að láta þessi sjónarmið koma fram og vekja á þeim athygli. Ég er ekki heldur með till. um að vísa þessu máli til fjh.- og viðskn. nema hæstv. félmrh. fallist á það. En ég tel slíkt eðlilegt með tilliti til þess að verið er að binda ríkissjóði bagga, hvorki meira né minna en 1 milljarð, og til viðbótar er verið að verðtryggja það framlag til næstu ára. Því er í raun og veru nauðsynlegt að sú hlið málsins fái athugun í fjh.- og viðskn. Ég tel það eðlilegt, eins og frv. birtist nú fyrir þessari hv. þd., en ég er ekki með till. um það nema hæstv. félmrh. fallist á það sjónarmið.