10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4639 í B-deild Alþingistíðinda. (3789)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 663 brtt. við 5. gr. frv. um að hraunhitaveita Vestmannaeyja fái aukna lánsheimild, að í stað 300 millj. kr. komi 600 millj. kr.

22% húsa í Vestmannaeyjum hafa nú þegar verið tengd við hitaveituna. Í ár er áætlað að verja ca. 900 millj. kr. í framkvæmdir og er þá stefnt að því að rúmlega helmingur húsa sé kominn með hitaveitu í árslok. Verði brtt. mín samþ. yrðu um 1200 millj. kr. til ráðstöfunar í ár. Um s. l. áramót var reiknað með að heildarkostnaður við það sem eftir er af framkvæmdum vegna hitaveitunnar væri um 1600 millj. kr. En reikna má með að sú tala sé of lág og endanleg kostnaðartala verði nálægt 2 milljörðum, þar sem verkið hefur mjög dregist.

Ekki þarf að hafa fleiri orð um nauðsyn þessa máls. Öllum er ljóst að vegna hinnar gífurlegu hækkunar olíuverðs hefur aldrei verið meiri þörf á því en nú að hraða því að innlendir orkugjafar komi í stað olíu. Því vænti ég stuðnings við till. mína.