11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4711 í B-deild Alþingistíðinda. (3910)

192. mál, velfarnaður sjómanna á siglingu og í erlendum höfnum

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Till. sú til þál., er ég ásamt Ólafi Björnssyni hef flutt, fjallar um velfarnað sjómanna á siglingum og í erlendum höfnum. Samhljóða þáltill. flutti Benedikt Gröndal á síðasta þingi, en till. varð ekki útrædd. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna n. til að gera till. um ráðstafanir til að auka velfarnað íslenskra sjómanna á siglingu og í erlendum höfnum.

N. skal sérstaklega athuga eftirtalin atriði:

1. Hvernig tryggja megi, að í íslenskum skipum verði ekki aðeins sjónvarp, heldur og myndsegulbandstæki.

2. Hvernig unnt verði að láta festa á segulbönd íslenskt efni, þ. á m. sjónvarpsdagskrár, og lána böndin til skipa.

3. Hvort Ísland getur með því að gerast aðili að norrænum eða alþjóðlegum samtökum tryggt sjómönnum þjónustu, þ. á m. lán á kvikmyndum og segulböndum, í erlendum höfnum.

N. skal skipuð þannig, að Sjómannasamband Íslands tilnefni einn mann, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands annan og hinn þriðji sé skipaður af ráðh. án tilnefningar.“

Hugmyndin um að koma myndsegulböndum um borð í skip okkar hefur oft verið rædd hér á þingi, þótt ekki hafi neitt orðið úr framkvæmdum. Á undanförnum áratugum hefur skipastóll okkar Íslendinga breyst mjög til batnaðar frá fyrri tíð. Það er þó ekki ýkjalangt síðan aðbúnaður sjómanna var í algeru lágmarki, það þótti ekki atriði hvernig að mönnum var búið. Hjá útgerðinni var fyrst og fremst hugsað um að fiska vel og á millilandaskipum að drífa skipið áfram samkv. áætlun. Ekki geri ég því skóna, að sá hugsunarháttur hafi breyst. Hins vegar hafa kröfur um bættan aðbúnað, öryggi og hollustuhætti hljómað hærra. Nú er það manneskjan sem situr í fyrirrúmi. Sjómannasamtökin hafa mjög látið þessi mál til sín taka. Margir sigrar hafa unnist. Fyrsta kennileitið eru vökulögin, en síðan hafa ýmsar úrbætur komið til, bæði með löggjöf og í samningum, en margt er óunnið.

Eitt af því, sem nú er brýnast, er að finna leiðir til þess að gera langar fjarvistir sjómanna frá heimilum sínum bærilegri. Það er skoðun mín að Alþ. verði að taka þátt í þeirri leit, reyndar að hafa frumkvæði í þeim málum, því að sjómenn eiga það sannarlega inni hjá löggjafanum að málefnum þeirra verði sýndur meiri sómi en hingað til. Margt má upp telja er að liði mætti verða, T. d. er oft rætt um misrétti í símamálum, sem vissulega er fyrir hendi. Það er hins vegar sjaldan hugleitt hve það mundi rjúfa einangrun sjómanna ef þeir fengju að hringja til heimilis síns án sérstaks endurgjalds. Tæknin er nú þannig, að símtöl frá skipi þykja sjálfsögð, en sjómenn eru hindraðir í því að hafa samband við fjölskyldu sína vegna mikils kostnaðar. Væti það verðugt verkefni fyrir samgrh. að fyrirskipa lækkun eða afnám gjalda af símtölum sjómanna á hafi úti. Mætti vissulega athuga hvort hagkvæmt er og nauðsynlegt að koma upp sjómannastofum. Það hefur reyndar hvað eftir annað verið reynt að starfrækja sjómannastofur. Það hefur yfirleitt mistekist, því að rekstrargrundvöllur hefur ekki verið fyrir hendi. Ýmsar aðstæður hafa líka breyst. Áður fyrr voru fiskibátarnir afar nöturlegar vistatverur. Þá var ekki fýsilegt fyrir sjómenn, sem ekki voru heimilisfastir í heimahöfn bátsins, að dveljast í vistarverum bátanna, en eins og áður er getið hefur þar orðið mikil breyting til batnaðar. Þörf fyrir sjómannastofur er því mun minni en áður fyrr.

Till. okkar fjallar einkum um það, að þriggja manna n. geri könnun á því hvernig tryggja megi að sjómenn njóti kvikmynda, sjónvarps og annarrar afþreyingar sem við í landi höfum. Á Alþ. hefur oft verið rætt um að koma upp sendistöðvum er tryggt geti að sjómenn, er fiska við strendur landsins, njóti sjónvarps. Þrátt fyrir ýmsar vangaveltur hafa engar úrbætur verið gerðar, enda afar kostnaðarsamt að gera svo að vel sé í þeim efnum. Er ólíklegt að nokkuð verði gert í þeim málum á næstu árum, enda er áreiðanlega stutt í að Norðurlöndin og fleiri lönd komi upp sjónvarpshnöttum. Þegar það er orðið að veruleika verður mögulegt fyrir sjómenn, hvar sem þeir sigla á Norður-Atlantshafi, að sjá útsendingar margra sjónvarpsstöðva. Þrátt fyrir ógnarhraða og snilli tækninnar eru þessir möguleikar svo dýrir að enn þá verður að styðjast við það sem þekkt er.

Nokkur íslensk skip hafa 16 mm kvikmyndavélar um borð. En hér á landi er mjög takmarkað úrval þess myndefnis sem hægt er að lána til skipanna, sérstaklega ef ferðir þeirra eru langar.

Nú hefur sú breyting orðið á í seinni tíð, að myndsegulbandstæki hafa rutt sér mjög til rúms og hafa orðið ódýrari með hverju ári sem liðið hefur, þannig að viðráðanlegt er orðið fyrir stofnanir og jafnvel einstaklinga að eignast þessi tæki. Hafa nágrannaþjóðir okkar þegar allmikla reynslu af því. Nokkur millilandaskip og togarar hafa nú þegar myndsegulbandstæki og má tengja þau við venjuleg sjónvarpstæki til að fá myndina.

Ég hef haft spurnir af því, að í Noregi, þar sem kaupskipafloti er stór, hafi mikið verið gert til að bæta alla aðbúð sjómanna. Þegar kvikmynda- og myndsegulbandsþjónustu var komið á þar var deild í samgrn. falið að sjá um þjónustuna. Útgerðarmenn voru skyldaðir til að greiða í þann sjóð er kostaði þjónustuna. Deild þessi sá um að dagblöðin væru sjómönnum ætíð til reiðu, kvikmyndir o. fl. Þá var samið við sjónvarpið og útvarpið að taka upp dagskrá norska sjónvarpsins og fleiri dagskrár. Síðan var millilandaskipum og fiskiskipum gert kleift að fá spólurnar til sýningar um borð. Seinna gerðist það, að einkafyrirtæki var falið þetta verkefni, þ. e. að taka sjónvarpsefni upp á kasettur. Ekki var að sökum að spyrja: Kostnaður óx með risaskrefum og er mér kunnugt um að norskir útgerðarmenn hafa mótmælt hressilega.

Sú nefnd, er við leggjum til að kanni þessi mál, athugar væntanlega hvernig þessum málum verði best fyrir komið hér á landi. En mig langar þó til að benda á að hugsanlegar eru a, m. k. þrjár leiðir. Í fyrsta lagi verði Ríkisútvarpinu falið að taka sjónvarpsefni upp á kasettur og dreifa þeim. Í öðru lagi verði sjómannasamtökunum sjálfum eða Menningar- og fræðslusambandi alþýðu falið verkefnið, enda verði samtökunum tryggt fjármagn til að inna það af hendi. Í þriðja lagi er mögulegt að hver útgerð um sig sjái um sin skip. Sú leið yrði vissulega kostnaðarsöm og úrval annars efnis en okkar sjónvarp hefur að bjóða af skornum skammti. Nokkrir útgerðarmenn hafa nú þegar komið upp slíkri aðstöðu.

Rétt er að geta þess, að samfara nýjum leiðum í dreifingu kvikmynda- og sjónvarpsefnis hefur komið upp hvimleitt vandamál er allir þeir, er kunnugir eru málefnum sjónvarps og útvarps, þekkja af meira eða minna biturri reynslu, en þar á ég við höfundarrétt. Kunnugt er að höfundarréttarmál í sambandi við kvikmyndir og sjónvarp eru svo flókin að illmögulegt hefur reynst að greiða úr þeim. Tugir manna vinna við að framleiða þetta efni. Þegar fullgert efni er selt til notenda getur verið allt að því ómögulegt að skipta á milli allra þeirra, sem koma við framleiðsluna, því fé sem til höfundarréttar heyrir. Þetta hefur sums staðar verið leyst á þann hátt við sjónvarpsfyrirtæki, að höfundargreiðsla hefur fallið í einu lagi í einhvern sameiginlegan sjóð þess starfsfólks sem hlut á að máli. Þótt vissulega væri einfalt að leysa þessi mál hér á fyrrgreindan hátt hefur ekki tekist að koma því til leiðar. Mér hefur verið tjáð að ekki hafi verið unnt að koma því til leiðar að svo mikið sem einn filmubútur úr sjónvarpi okkar væri fáanlegur, þótt óskað sé eftir honum, eftir að sjónvarpað hefur verið. Af þessu leiðir að finna verður lausn á þessu líka ef ætti að taka sjónvarpsdagskrár á segulbönd til að lána um borð í kaupskip okkar og fiskiskip. Því verður þó ekki trúað að óreyndu að starfsfólk stofnunarinnar mundi standa í vegi fyrir lausn á þessu máli. Hef ég fyrir satt að svo sé ekki, heldur mundi skorta framtak hjá forráðamönnum stofnunarinnar.

Vafalaust væri hægt að ráða á því bót ef hart væri sótt að, sérstaklega ef um allan flotann væri að ræða. Fróðlegt væri að kanna hvernig Norðmenn leysa þessi mál. Ekki sakar að geta þess, að samkv. þeim upplýsingum, er ég hef aflað að mér, muni aðilar horfa alveg fram hjá höfundarréttarmálum og þeirri röksemd beitt, að sjómenn hafi hvort eð er greitt afnotagjöld af sjónvarpstækjum á heimilum sínum og um leið fyrir höfundarrétt af efni sem þeir hafa ekki tækifæri til að sjá.

Í viðræðum mínum við sjómenn hefur komið fram að til séu norræn samtök um velferð sjómanna sem m. a. halda uppi dreifingu á ýmsu efni til skipa og hafa miðstöðvar í öllum helstu höfnum heims. Þess vegna er lagt til að kannað verði hvort við getum bætt aðstöðu eigin sjómanna með aðild að einhverjum slíkum samtökum. Þá benda þeir á að mjög sé það mismunandi, þegar þeir koma í erlendar hafnir, hvort þeir hafi yfirleitt aðgang að nokkrum sjómannaheimilum eða ekki. Kann að vera, að aukið formlegt samstarf við aðra aðila geti bætt aðstöðu þeirra að því leyti.

Mál þetta er ekki stórt eða fyrirferðarmikið. Það skiptir þó miklu máli fyrir þá sem hlut eiga að máli, þ. e. sjómennina. Verði till. þessi samþ. kallar það á röskleg vinnubrögð viðkomandi n., því að ekki má dragast að sjómenn fái þá þjónustu sem till. gerir ráð fyrir. Útgerðarfélög verða að sjálfsögðu að leggja fram fé svo að málið verði að veruleika. Þeim fjármunum er vel varið sem bæta aðbúnað þeirrar stéttar sem er undirstaða þeirrar velferðar er við nú búum við.