14.05.1979
Efri deild: 100. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4724 í B-deild Alþingistíðinda. (3933)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 6. þm. Suðurl. og frsm. hv. fjh.- og viðskn., lét þess getið, að við hv. 5. þm. Norðurl. v. hefðum borið fram till. til rökstuddrar dagskrár á þskj. 705. Þessi rökstudda dagskrá byggist á því, að eitt af okkar stærstu vandamálum í dag sé áfengisvandamálið. Ég hygg að flestir séu sammála um það. En áfengisvandamálið liggur fyrst og fremst í því, að það er neytt of mikils áfengis. Það er frumorsök þessa mikla vandamáls. Úrbætur í þessu vandamáli þýða því við óbreytt skiputag að tekjur ríkissjóðs af áfengissölu minnka. Ef okkur er alvara að ráða við það vandamál, sem áfengi skapar í þessu landi, verðum við að gera okkur grein fyrir því, að það þýðir minni tekjur ríkissjóðs en nú er. Og meira en það. Við verðum að gera okkur grein fyrir því og sætta okkur við það fyrir hönd ríkissjóðs, að ef við ætlum að ná árangri í áfengismálunum hlýtur hin æskilega þróun að vera sú, að ríkissjóður byggi sem minnst á tekjum af áfengissölu.

Mér virðist að það sé ljóst og rökrétt sem ég hef hér sagt. Þess vegna kemur tilgangur þessa frv., sem hér er til umr., þvert á þessa hugsun, en hann er sá að auka tekjur ríkissjóðs af áfengissölu eða firra hann hugsanlegri minnkun á tekjum af áfengissölu. Það er vegna þessa sem við flm. hinnar rökstuddu dagskrár á þskj. 705 sjáum okkur ekki fært að fylgja því frv. sem hér er til umr. Við teljum hins vegar að það sé mikil þörf á því að endurskoða áfengislöggjöfina í heild með þau markmið í huga sem fram eru tekin í hinni rökstuddu dagskrá.

Hv: 6. þm. Suðurl. sagði hér áðan: Þetta er allt hægt að gera þótt frv. nái fram að ganga. — Gott og vel. En hvers vegna þarf frv. að ná fram að ganga áður en það er gert sem hin rökstudda dagskrá fer fram á? Það þarf að ná þeim tilgangi frv. að auka tekjur ríkissjóðs af áfengissölu. Þetta er ekki nægileg ástæða til þess að vera á móti því að fram fari heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni. Og ég held raunar að ráðamenn þurfi að fara að gera sér grein fyrir, ef þeir hafa þá skoðun að það þurfi að ráðast til atlögu við áfengisvandamálið, að þeir þurfi að fara að venja sig við þá tilhugsun að tekjur ríkissjóðs minnki. En höfuðatriðið er það, að áfengislöggjöfin verði endurskoðuð í þeim tilgangi sem við leggjum til. Við leggjum svo mikla áherslu á það, að við leggjum til að því verki verði svo hraðað að árangur þess geti orðið lagður fyrir Alþ. þegar í byrjun næsta þings. Og við teljum að það séu eðlileg vinnubrögð, ef Alþ. fellst á þetta sjónarmið, að það sé ekki verið að krukka í áfengislöggjöfina og allra síst með þeim hætti og sérstaklega í þeim tilgangi sem frv. það, sem hér er til umr., byggist á.