08.11.1978
Efri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég ætlaði engan veginn að leggja fleiri orð í belg um þessa þáltill., en ég neyðist til þess vegna ræðu síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Vesturl., því að misskilningur hans á minni ræðu er svo algjör að ég verð að efast um að hann hafi hlustað á það sem ég sagði. Ég lýsti yfir fullum stuðningi mínum við það, að ríkisstj. beitti sér fyrir auknum stuðningi við sveitarstjórnir til að hraða lagningu bundins slitlags á vegi í þéttbýli. En ég lýsti andstöðu minni við að fella niður takmarkanir á afturvirkni heimildar til innheimtu gatnagerðargjalda, þ.e.a.s. að auka enn á B-gjöldin frá því sem áður var.

Það er alveg rétt hjá hv. alþm. Alexander Stefánssyni, að m.a. Akraneskaupstaður, Akureyrarkaupstaður o.fl. óskuðu eftir þessari heimild. En þegar til átti að taka urðu Akurnesingar svo feimnir við þessa skattheimtu, að þeir notfærðu sér hana ekki nema 50%, og var þó takmarkið 5 ár. (Gripið fram í.) Sem sagt, ég endurtek að það var algjör misskilningur hjá síðasta ræðumanni. Ég er stuðningsmaður þess, að auknar verði framkvæmdir við bundið slitlag í þéttbýli, en ekki á því sviði sem B-gjöld voru byggð á, sem sagt afturvirkni skatts á fasteignir.