14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4747 í B-deild Alþingistíðinda. (3982)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál efnislega nema að því er tekur til heitisins á gjaldmiðlinum sem hér er lagt til að verði: ný króna. Ég leyfi mér að flytja brtt. við 1. mgr. 1. gr. Till. er skrifleg. Meðflm. mínir eru hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, Finnur Torfi Stefánsson og Matthías Á. Mathiesen. Við leggjum til að heiti gjaldmiðilsins skuli vera mörk og eyrir.

Till. hliðstæð þessari og sams konar var flutt í hv. Ed., en þar voru ekki allir mættir á fundi og þátttaka í atkvgr. fremur lítil og atkvæðamunur einnig lítill, en till. féll þar. Okkur þykir því rétt að láta reyna á það í hv. Nd., hvort fylgi er fyrir þessari nafnbreytingu. Ýmis rök má færa fyrir þessari brtt. Mörkin er þjóðlegt heiti og var um tíma nafn á okkar gjaldmiðli. Núverandi heiti, krónan, bendir hins vegar til þess tíma þegar við vorum í konungssambandi við Dani, og okkur sýnist það ekki vera samboðið virðingu okkar að viðhalda þessu heiti.

Að sjálfsögðu þarf að umorða aðrar greinar frv. ef þessi till. verður samþ. Við höfum ekki flutt brtt., sem þarf að flytja við aðrar greinar, en úr því má bæta á milli umr. ef þessi till. verður samþ.

Till. er sem sagt skrifleg og ég fer fram á það við hæstv. forseta, að afbrigða verði leitað þannig að till. megi koma fyrir.