08.11.1978
Efri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

71. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins að lýsa yfir stuðningi við meginefni þess máls sem hér er flutt. Ég er að vísu lítill aðdáandi Framkvæmdastofnunar ríkisins, tel hana nú fremur vera til óþurftar en hins gagnstæða, en engu að síður er „meningen god nok“, ef maður má sletta hér dönsku, og ég veit að fyrir flm. vakir að reyna að stuðla að framgangi þessa gífurlega mikilvæga máls sem fiskræktin án alls efa er.

Mér leyfist kannske, af því að ég er nú búinn nokkuð á annan áratug að hafa nokkuð mikil tengsl við tilraunir með fiskrækt, að rekja það í örfáum orðum til viðbótar upplýsinga við það sem hv. ræðumaður, 4. þm. Norðurl. e., upplýsti okkur um. Var ræða hans öll vissulega hin fróðlegasta, og ég hygg í öllum meginefnum a.m.k. allt rétt með farið, þó að ég sé ekki alveg sannfærður um að 4 kg af loðnu mundu nægja til að ná kg af laxi. En þau yrðu e.t.v. ekki nema 6, og það munar ekki öllu miðað við það verðlag sem á henni er. Hitt er alveg rétt, að úrgangurinn úr frystihúsum er líka mjög nytsamlegur við eldi á fiski, og það hefur fiskræktarstöð, sem ég á aðild að, einmitt reynt.

En þegar ræðumaður talaði áðan um hið merka starf sem þeir vinna nú, Sigurður St. Helgason og Eyjólfur Friðgeirsson, þá var það að vísu ekki alveg rétt hjá honum, að þeir hefðu byrjað við jafnslæmar aðstæður og maður gat ráðið af máli ræðumanns, því að aðrir menn byrjuðu á undan við miklu verri aðstæður, og það finnst mér að ekki megi gleymast, þó að ég viti að sá, sem ég tel að hafi kannske mest og best unnið að þessum málum, væri mér ekkert þakklátur fyrir það, ef hann heyrði til mín, að nefna nafn hans hér. Hann má þó ekki gleymast, og það er dr. Snorri heitinn Hallgrímsson sem hóf þessi störf með að vísu samstarfi við Kristin nokkurn Guðbrandsson og einn af hv. dm. sem nú er að vísu fjarverandi. Þeir hófu það starf þrír, Snorri, Kristinn og Oddur Ólafsson læknir. (Gripið fram í.) Ég ætla að halda áfram: fyrir nokkuð á annan áratug. Þeir byggðu þá með eigin hendi lítið hús uppi á Keldum sem þeir störfuðu í. Ég kom þar oft að kvöldlagi og um helgar. Eftir langan og strangan starfsdag á Landsspítalanum var þar unnið fram á rauðanótt og hvern einasta sunnudag, held ég, meira og minna að slíkri tilraunastarfsemi og hugsjónastarfi sem ekki má gleymast úr því að hér er verið að nefna nöfn.

Að því er varðar tilraunir t.d. með framleiðslu á laxbirtingi held ég að ég komist ekki hjá að mótmæla því, að þeir félagar Sigurður og Eyjólfur hafi búið það nafn til, því ég veit ekki betur en ég hafi gert það. Það má liggja á milli hluta en úr því að ég er hér staddur vil ég að það liggi fyrir. Tilraun með framleiðslu á laxbirtingi var gerð austur í Tungu í Landbroti aðallega, og ég er vafalaust sá eini hér inni sem hef borðað þennan fisk og fylgst með uppeldi hans, borðað hann kominn úr sjó, veiddi hann þar fyrir austan. (Gripið fram í.) Ekki held ég laxbirtingur, það eru sárafáir laxbirtingar sem hafa fengist en hann er auðvitað mjög líkur sjóbirtingnum, en þó nokkuð öðruvísi. Ég tel hann betri matarfisk en hvort heldur er lax eða sjóbirting. Og það er rétt, sem ræðumaður sagði hér áðan, að þetta er auðvitað einstakt fyrirbæri, að geta ræktað þarna kynlausan fisk þannig að ekkert fer í hrogn og svil, heldur allt í verðmæta vöru þegar það er hafið.

Ég ætla ekki að fara langt út í þessa sálma. Ég vil aðeins geta þess, að þetta verk er alveg ótrúlega erfitt. Það er auðvitað ekki mjög mikið sem á mér hefur mætt í því, en þó ýmislegt fjárhagslega í 10–12 ár. En það er einhvern veginn í okkar þjóðfélagi þannig, að það vantar alltaf punktinn yfir i-ið. Þegar þetta starf var vel á veg komið, — það eru tvær stórar eldisstöðvar sem þetta fyrirtæki á, önnur austur í Ölfusi, hin austur í Landbroti, sem mundi auðvitað kosta gífurlegt fé að koma upp núna, en þegar þurfti að leita til opinberra aðila með lánafyrirgreiðslu og slíkt, þegar var hægt að sýna fram á að það væri hægt að koma þessu á sæmilegan rekspöl með 10 millj. kr. láni, þá fengust auðvitað ekki nema 5 millj. og þá eftir dúk og disk, og fór mest í að borga afborganir af öðrum lánum. Eins er með þá núna, Sigurð St. Helgason og Eyjólf Friðgeirsson, að þá vantar — ég segi: smápening til að gera þetta sem hv. þm. Stefán Jónsson var að segja. Ég mundi halda að með nokkrum tugum milljóna gætu þeir gert þessa merkilegu tilraun. Jafnvel þó að það kostaði eins og einn mótorbátur, 30 tonna bátur, sem nú kostar yfir 100 millj., hví í ósköpunum getur þetta þjóðfélag ekki aðstoðað þessa ungu menn, sem m.a. selja íbúðir sínar til þess að reyna þetta?

Eins og ég sagði áðan, hef ég fylgst með því, hvað þetta er gífurlega erfitt, hvað þetta kostar óhemjulega mikið starf, einmitt frumtilraunirnar. En það er líka rétt, sem kom fram áðan, að að því er varðaði eldið í fersku vatni er nægileg reynsla komin, og þess vegna eru það seltutilraunirnar og sjóeldið sem nú eru aðalatriðið. Og það höfðu þeir auðvitað líka hugsað um löngu á undan þessum ungu mönnum, bæði Snorri Hallgrímsson, Kristinn og Oddur Ólafsson, að ala fiska í sjó frá Reykjanesi, og þangað voru farnar margar ferðir einmitt til að skoða aðstæður og gera sér grein fyrir því, að hægt væri í svo gljúpu hrauni að grafa niður tjarnir. En það kostar auðvitað enn þá meira fé, ef ætti að gera það í talsvert stórum stíl.

Mergurinn málsins er sá, að ég held að Alþ. ætti að hrista af sér slyðruorðið og með einhverjum hætti að tryggja það, að átak yrði gert sem svaraði til andvirðis, eins og ég sagði áðan, eins 30 tonna mótorbáts til þess að nýta þá aðstöðu, sem þegar er fyrir hendi, og til þess að hjálpa einmitt þeim mönnum, sem hér voru nefndir, til þess að gera þessar merku tilraunir. Það er enginn vafi á því, ekki minnsti, að þó að frumherjarnir hafi e.t.v. ekkert nema erfiðið út úr því, þá á þetta eftir að verða stór og mikill atvinnuvegur á Íslandi, kannske meiri atvinnuvegur, stærri og merkari en allur sjávarútvegurinn, vegna þess að auðvitað fer eins með auðæfi hafsins og vatnanna og önnur auðæfi lands, að það verður ræktun, en ekki rányrkja eða ofveiði, kannske veiði í takmörkuðu hólfi, sem mannkynið lifir á í framtíðinni. Auðvitað verður ræktun í höfum og vötnum alveg nákvæmlega eins og á þurrlendi, það vitum við allir. Það er spurning um, hvenær það verður, og auðvitað ættum við Íslendingar að vera þar í broddi fylkingar. Við ættum nú á þessu þingi að taka þetta líta skref, sem svarar kannske til andvirðis eins mótorbáts, til þess að tilraunir þessar verði örugglega gerðar, og þær munu bera mikinn árangur.