15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4818 í B-deild Alþingistíðinda. (4092)

151. mál, framhaldsskólar

Frsm. meiri hl. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs aðallega til að ræða brtt. þær sem hafa verið lagðar fram við 3. umr. Almennt um málið hef ég rætt mjög ítarlega við 1. umr. og tel því óþarft að endurtaka það hér.

Ég get þó ekki annað en lýst undrun minni á ræðu hv. síðasta ræðumanns, Sighvats Björgvinssonar, sem á sæti í menntmn., og virðist hafa verið tími til kominn fyrir hann að láta í ljós álit sitt á frv. Mér virtist að hann sæi helst ljósan punkt í norska skólakerfinu. Það var leitt að hann skyldi ekki vera viðstaddur þegar því var lýst fyrir okkur á nefndarfundi að helst bæri að leita til Noregs að fyrirmynd að þessu frv. ef ætti að leita að fyrirmynd yfirleitt.

Hann sagði einnig að það vantaði kostnaðaráætlun eða áætlun um kostnaðarauka við frv. Ef hann hefði fylgst betur með málum mundi hann vita að það er æðilöng grg, birt með frv. um kostnaðaráhrif þess. Með nál. er einnig prentuð grg., sem er byggð á áætlun frá fjárlaga- og hagsýslustofnun og menntmrn. og hv. þm. Alþfl., Árni Gunnarsson, lýsti yfir við 2. umr. málsins að væri að dómi Alþfl. fullnægjandi. Það væri fróðlegt að fá að vita hvor þessara manna talar í umboði Alþfl., til þess að auðveldara væri að átta sig á málum.

Varðandi afgreiðslu þessa máls vil ég taka það fram hér, að á einum fundinum, sem þessi hv. menntmn. maður sat, þ. e. a. s. 2. febr., er það bókað í fundargerðabók n., að ég sem formaður hennar hafði ítrekað og minnt á ummæli hæstv. menntmrh. um að stefnt væri að því að frv. yrði afgreitt á þessu þingi. Þetta var einn af eftirminnilegustu fundum nefndarinnar, einmitt af því að þessi hv. þm. Alþfl. var viðstaddur.

Varðandi brtt., sem hér eru, vil ég rifja það upp, að nefndinni var fullkunnugt um að margir höfðu áhyggjur af ýmsu sérnámi, sem nú er á framhaldsskólastigi, og ýmsum sérskólum. Í nál. er tekið fram, að varðandi sérnámið er hér einkum átt við hjúkrunarnám, fósturnám og vélstjóranám. Einnig vissum við mætavel, að margir höfðu áhyggjur af framtíð Menntaskólans í Reykjavík, og umsögn rektors þess skóla var nokkuð einstök fyrir það hvað hún skar sig úr í andstöðu við þetta frv., en allir aðrir skólamenn mæla með meginstefnu þess. Meiri hl. nm. þótti ekki rétt að ætlast til þess af Alþ. að það tæki nú í einu með afgreiðslu þessa frv. afstöðu til alls þess náms sem er á framhaldsskólastigi. Sakir þess, hvernig þetta hefur byggst upp hjá okkur á undanförnum árum og áratugum, er um að ræða mýgrút af lagasetningum. Ég held að það sé ekki að gefast upp við málið að gefa alþm. tækifæri til að fara nokkurn veginn skipulega yfir allt það sérnám, sem hér stendur til boða, og taka a. m. k. ákvörðun um það sérstaklega hvaða nám skuli haldast á framhaldsskólastigi, hvort því skuli skipað eins og gert er ráð fyrir í grg. eða hvort Alþ. mundi vilja hafa einhvern annan hátt á. Ég tel því að þegar lögð er fram till. til þál., svo sem gert er ráð fyrir í 38. gr. eins og hún er nú, ef hún verður samþykkt, sé fyllilega nægur tími til að taka afstöðu til þess, hvort Menntaskólinn í Reykjavík eigi að fá einhverja sérstöðu eða ekki. Ég held að þær stofnanir eða það sérnám, sem hugsanlega ættu ekki heima hér í frv., séu það fáar að réttlætanlegt sé að samþ. frv. nú til þess að meginþorri þess náms, sem fer fram á framhaldsskólastigi, geti starfað eðlilega eftir þeim brautum eins og þar er gert ráð fyrir. Þetta held ég að sé einungis sanngirnismál ef hv. þm. vilja hugleiða það.

Till., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni og Einari Ágústssyni, er að mínu viti í rauninni einvörðungu um Menntaskólann í Reykjavík, þó að reynt sé að klæða það í svolítið almennari búning. Auðvitað er auðséð við lestur þessarar brtt., að hún er annars nánast óframkvæmanleg. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Í þéttbýli skulu starfa sérstakir menntaskólar með hefðbundnu sniði, er miði að undirbúningi undir háskólanám.“ Hvað er þéttbýli? Þetta þýðir í rauninni að það ber skylda til að reisa menntaskóla í Hveragerði, á Selfossi, í Vestmannaeyjum, í Sandgerði, í Þorlákshöfn, — nánast hvar sem hægt er að koma við skilgreiningu á orðinu þéttbýli skal reisa menntaskóla. Ég held að ef hv. flm. íhuga málið betur hljóti þeir að viðurkenna að þetta er óþingleg till. og er óframkvæmanleg og ekki hægt að festa hana í lög.

Annað efni till. er í rauninni afskaplega samhljóma því sem felst í framhaldsskólafrv., þ. e. a. s. innganga skuli heimil öllum þeim nemendum er rétt hafa til framhaldsnáms. Þetta er í framhaldsskólafrv., að skólinn skuli miða að undirbúningi undir háskólanám. Að því er stefnt með framhaldsskólafrv. Hitt ræður náttúrlega úrslitum hér, að gert er ráð fyrir að allir menntaskólar séu ríkisskólar.

Þetta þýðir í rauninni það, ef brtt. verður samþykkt og svo frv. einnig, að hér mun rísa tvöfalt framhaldsskólakerfi: annars vegar samræmdur framhaldsskóli, hins vegar einangraðir menntaskólar eftir gamla skipulaginu sem ekkert samstarf hafa við aðra skóla í landinu, en báðum kerfum er ætlað að skila nemendum upp til háskólanáms. Sjá allir viti bornir menn, að við höfum ekki efni á að koma upp tvöföldu kerfi af þessu tagi. Annaðhvort verður hinn samræmdi framhaldsskóli að víkja, eins og hann leggur sig eða gamla kerfið. Þessi brtt. jafngildir þá frávísunartillögu um frv. til laga um samræmdan framhaldsskóla, þrátt fyrir að Alþfl.-menn hafi verið búnir að lýsa sig fylgjandi málinu. Rétt væri að þessi brtt. yrði tekin til baka svo mönnum gæfist tími til þess að íhuga málið með stillingu og lagni. Það væri nánast skárra að flytja till. í þá átt, að Menntaskólanum í Reykjavík skuli heimilað að starfa áfram með gamla laginu, ef mönnum er mjög annt um að svo sé. Ég hef ekkert á móti því að króa af það allra íhaldssamasta í landinu á einum stað, því einhver staðar verða íhaldssamir að vera. En þeir eiga ekki að getað stöðvað alla framþróun í landinu að mínum dómi. Ég ítreka þá skoðun mína, að ef þessi brtt. verður samþ. jafngildir það frávísunartill. á frv. til l. um framhaldsskóla því að við getum ekki byggt upp tvö kerfi samtímis.

Um brtt. frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og Eiði Guðnasyni vil ég segja nokkur orð og þau orð hef ég raunar látið falla við þá báða. Það fór auðvitað ekki hjá því, að hið stóra framhaldskólaráð var rætt í n. Ég held að enginn þm. sé ákafur talsmaður þess, að þetta framhaldskólaráð skuli sett á stofn. Hitt er annað mál, að það er niðurstaða af nokkurs konar samkomulagi sem gert hefur verið við aðila vinnumarkaðarins. Þeir hafa getað fallist á þessa leið, og hún er í rauninni áfangi í þá átt að losa nemendur undan viðjum þeirra krafna, sem atvinnulífið gerir, færa nám þeirra meira undir kennslufræðilega stjórn. Þetta er áfangi í þá átt. Ég held að það hafi ekki verið auðvelt að ná þeim áfanga og því tæplega sanngjarnt að alþm. færu að rifta því samkomulagi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þá nemendur sem þarna eiga hlut að máli. Ég vil einnig benda á að í námssviðsnefndum og námssviðsbrautum er bæði aðilum vinnumarkaðarins, skólamönnum og kennurum ætlað að hafa áhrif á inntak námsins. Þetta fyrirkomulag er raunar niðurstaða af umsögnum sem borist hafa frá þessum aðilum. Brtt. þeirra hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og Eiðs Guðnasonar gerir ráð fyrir miklu meiri miðstýringu menntmrn. en frv. gerir ráð fyrir.

Um hinar brtt. er afskaplega lítið að segja. Ég fæ ekki séð að þær séu til bóta. Ég held að ef við gerum þessa breytingu á framhaldsnáminu á annað borð hljóti það að gerast innan fimm ára, og ætti öllum að vera vorkunnarlaust að fylgjast svo með málum á svo löngum tíma að þeir geti tekið afstöðu til þess. Auk þess gerir frv. ráð fyrir að menntmrh. gefi Alþ. skýrslu á hverju ári. Alþ. fær því tækifæri til að álykta um stefnu ýmissa reglugerða, skólagerða og skólastofnana eftir því sem hinn samræmdi framhaldsskóli verður byggður upp.

Ég ætla ekki að gera miklar athugasemdir við ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, en get þó ekki orða bundist um afstöðu hans almennt.

Tvisvar áður hefur þetta frv. verið lagt fram á Alþ. Í bæði skiptin hefur Sjálfstfl. átt hlut að því að frv. var lagt fram, og í bæði skiptin hefur verið gert ráð fyrir að allt framhaldsskólastigið væri kostað af sveitarfélögum og ríkinu. Hér er þó dregið úr hvað sveitatfélögin snertir, en þá telur þessi hv. þm. kostnaðaraukann fyrir sveitarfélögin svo mikinn og samkrullið svo mikið að ekki sé hægt að samþ. þetta. Ég vil ekki draga í efa að hv. þm. Ólafur G. Einarsson hafi fylgst með því, þegar þetta frv. var lagt fram áður í tvö skipti, og viti hvað í því felst. En ég sakna þess, að hann skuli ekki gera skýrari grein fyrir afstöðu sinni. Að öðrum kosti verður maður að lýsa þessa afstöðu Sjálfstfl. í heild alveg óskiljanlega. Ég neita því líka að nál. meiri hl. sé villandi. Ef menn kunna eitthvað fyrir sér á annað borð í textagreiningu sjá menn að það er hvergi gefið í skyn, að sveitarfélögin hafi óskað eftir þessari tilhögun, eins og ég held að hann hafi tekið til orða eða eitthvað í þá átt. Hins vegar er greinilegt af ályktun fulltrúaráðsfundarins, að þeir hafa ætlað að láta löggjafanum eftir endanlega niðurstöðu, eins og segir í 3. lið þessarar ályktunar, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði sú niðurstaða löggjafans við samþykkt þessa frv., að aukin verði kostnaðarleg þátttaka sveitarfélaga í rekstri framhaldsskóla, verður að gera þá kröfu, að annað tveggja verði gert, að létta af þeim útgjaldaliðum eða veita þeim nýja tekjustofna til að mæta þeim kostnaði.“

Þetta er einmitt það sem meiri hl. n. hefur lagt til að gert verði, og ég neita því að þarna sé gengið gegn eindregnum óskum fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga.