08.11.1978
Neðri deild: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég er ekki kominn hingað til þess að segja gamansögu og ekki heldur til þess að taka þátt í því ræðumennskukapphlaupi sem mér virðist hafa átt sér stað undanfarna þrjá eða fjóra daga þegar þetta mál hefur verið á dagskrá. Ég hef satt að segja talið að ákvörðun vaxta væri alvörumál sem ætti að ræðast sem slíkt, en ekki í þeim tón sem hér hefur verið tekinn upp. Ég ætla að halda mig við það og ég ætla ekki að tefja fyrir því, að þetta mál fái athugun í n., því eins og ég sagði í fyrri ræðu, sem ég hélt hér fyrir mörgum dögum, álít ég að tilgangur flm. með þessu frv. sé góðra gjalda verður. Það er verið að reyna að finna leið til þess að tryggja sparifjáreigendum réttmætar eigur sínar.

Hitt er svo annað mál, að ég er ósammála um þessa leið, eins og ég held að hafi komið fram hjá mér, en ég er reiðubúinn til að gleyma mér allar frekari umr. um það þangað til þetta mál hefur fengið eðlilega og þinglega málsmeðferð.

Það eru aðeins tvö atriði sem ég ættaði að gera hér að umtalsefni að gefnu tilefni vegna ummæla hv. 7. þm. Reykv. í ræðu sem hann hélt áðan, án þess að fara út í sérstakar deilur við hann um það.

Fyrra atriðið er það, að ég benti á síðast þegar ég talaði, að það væri óeðlilegt að hlaupareikningsvextir og ávísanareikningsvextir væru jafnháir sparifjárvöxtum, og ég fagna því, að hv. 1. flm. hefur tekið þessa ábendingu til greina og vill gera þarna skilsmun á. Því vænti ég þess, að hann og meðfim. hans geri ráðstafanir til að breyta þessu frv. í þá átt, sem hér um ræðir, ef til þess kemur að frv. hlýtur meirihlutafylgi á Alþingi, sem ég raunar dreg í efa.

Hitt atriðið, sem ég ætlaði að gera að umtalsefni, er það, að hv. þm. sagði ríkisstj. mundu væntanlega og að mér skildist undantekningalítið, jafnvel undantekningalaust, hafa ráðið vaxtakjörum í landinu. Í því sambandi vil ég í fyrsta lagi rifja það upp, að lög um verðtryggingu fjárskuldbindinga, sem ég gerði að umtalsefni einnig síðast þegar ég ræddi hér um þetta mál, eru frá 1966. Í 5 ár frá gildistöku þeirra laga réðu þeir stjórnmálaflokkar, sem nú virðast sameinast um vaxtahækkun hér á hv. Alþ., því, hvaða skuldbindingar voru verðtryggðar, og ég fullyrði að það var mjög lítil verðtrygging á fjárskuldbindingum á þessu tímabili, svo einhverjir bakþankar hafa þó verið þarna. Einhverjar fyrirstöður hafa komið í ljós þegar fara átti að beita þeim lögum sem hér var talað mjög fjálglega fyrir og ekkert ósvipað því sem nú var gert fyrir þessu frv.

Í öðru lagi vil ég undirstrika það, sem allir hv. þm. auðvitað vita, að vaxtaákvörðun er hjá Seðlabankanum skv. 13. gr. laga um þann banka. Hún var það ekki áður, hún var flutt þangað, og ég vil staðhæfa það, að í ýmsum tilvikum hafi Seðlabankinn ákveðið vaxtakjör án þess að ríkisstj. hafi samþ. þau. Það er alfarið í verkahring Seðlabankans að ákveða vaxtakjörin. Ríkisstj. getur ekki staðið í vegi fyrir því, ef bankinn vill fara sínu fram. Hinu neita ég ekki, að oft hafi farið fram samráð um vaxtakjör, og má vera að ríkisstj. hafi einhver áhrif reynt að hafa á ákvörðun Seðlabankans.

Ég ætlaði aðeins að koma þessum örfáu setningum til skila áður en þetta frv. fer til n., sem ég vona nú satt að segja að fari að verða, svo að það sé hægt að fara að starfa hér einnig að öðrum málum sem líka eru þýðingarmikil. Ég ætla ekki að taka þátt í því skopi sem hér er uppi haft, eins og t.a.m. því ósmekklega dæmi sem áður var tekið, um það að þm. færu að ráðstafa kjósendum sínum og skila þeim til baka gegn kjósendum annarra flokka. Ég held að þetta sé algjörlega út í hött og ég tek ekki þátt í svona gríni. Segja mætti mér þó, að Alþfl. mætti vænta þess að fá ekki fulla raunvexti af kjörfylgi sínu í næstu kosningum.