16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4851 í B-deild Alþingistíðinda. (4172)

243. mál, jarðræktarlög

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. út af þeim umr. sem hér hafa orðið.

Ég vil vekja athygli hv. d. á að hæstv. ráðh. talar alltaf um markaða tekjustofna ríkissjóðs í sambandi við það ákvæði til bráðabirgða sem hér um ræðir. Hér er að sjálfsögðu ekki um markaðan tekjustofn að ræða, heldur verið að ákveða með lögum hvernig skuli verja almennum tekjum ríkissjóðs fram í tímann. Það er dálítið annað mál þegar verið er að ræða um hvernig lagasetning er á því sviði eða hvort um er að ræða markaða tekjustofna. Markaðir tekjustofnar eru þannig, að á er lagður sérstakur skattur — t. d. launaskattur — sem gengur til ákveðinnar stofnunar. En hér er sem sagt um að ræða atriði sem hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar virðast ekki vera sammála um.

Ég vil undirstrika það, sem kom fram í máli hæstv. ráðh., að sumar till. hv. stjórnarsinna, eru í litlu samræmi við nýsett lög sem koma fram á Alþ. um þessar mundir, og einnig hvernig þeir standa að atkvgr. um einstaka þætti þess máls sem hér um ræðir. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að ákvæði í lagafrv. um aðstoð við þroskahefta er í algerri andstöðu við stefnuna sem á að felast í lögunum sem nýsamþykkt eru um stjórn efnahagsmála og ríkisfjármála. Þess vegna er dálítið hlálegt þegar þeir hv. þm., sem sérstaklega þakka sér þá lagasetningu, koma hér upp og mótmæla svipuðum ákvæðum í öðrum lögum.