16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4863 í B-deild Alþingistíðinda. (4187)

311. mál, tímabundið aðlögunargjald

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur leyft mér að segja eina setningu, og ég ætla ekki að bregðast trúnaði hans því að nú er komið fram yfir þann tíma sem flokksfundir eiga að hefjast.

Ég held að við séum, hv. 1. þm. Reykv. og ég, alveg óvenjulega sammála í þessu máli. Þess vegna leiðist mér þegar hann gerir sér far um að misskilja það sem ég sagði áðan. Ég talaði ekki um að leggja á nýja skatta þegar þetta gjald rynni út. Ég sagði þvert á móti, og ég vona að hv. þm. taki það til greina, að það yrði reynt þá að freista þess að létta af iðnaðinum þeim gjöldum sem hann greiðir nú. Ef hv. þm. sér enga aðra leið en að auka skattheimtu verður hann náttúrlega að gera grein fyrir því á sínum vettvangi, en ekki í þessu máli. Í mínum huga horfir þetta ekki þannig við, heldur ætti iðnaðurinn að geta sloppið við þau gjöld sem nú gera samkeppnisaðstöðu hans lakari en hann getur þolað.