16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4871 í B-deild Alþingistíðinda. (4193)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni að fsp. hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar. Þetta frv. er stjfrv. Hins vegar eru einstakir ráðh. ekki bundnir við að fylgja því. En það er lagt fram sem stjfrv., var svo gert í Ed. og einnig hér í Nd.

Ég ætla ekki við þetta tækifæri að taka þátt í almennum umr. um drykkjuskap þjóðarinnar. Ég held að flestir séu sammála um að drykkjuskapurinn sé sennilega mesta þjóðarböl Íslendinga þegar á allt er litið. Menn viðurkenna þetta kannske ekki, en ég held að það sé eigi að síður staðreynd.

Oddur Ólafsson læknir og hv. þm. tók til máls um þetta mál í Ed. og lýsti fylgi sínu við frv. Því er ljóst að þetta frv. er ekki pólitískt mál. Verður hver og einn að gera það upp við sig, hvort hann fylgir því eða ekki. En hv. þm. flutti athyglisverða ræðu um þessi mál og hélt fram að eins víðtæk bruggun og hefur viðgengist í vaxandi mæli síðan breyting var gerð í þessum efnum fyrir 1970 yki drykkjuskap í landinu og þess vegna væru líkur á því, ef horfið væri til hins sama og var fyrir 1970, að draga mundi úr drykkjuskap. Ég get hins vegar endurtekið það sem ég sagði hér áður, að ég hef enga trú á að þetta frv. muni uppræta brugg í landinu. Því fer fjarri. En ég hef trú á að það kunni að draga úr bruggi. Þess vegna held ég að frv. sé fullkomlega réttlætanlegt út frá því sjónarmiði — alveg hiklaust. Það er ekki alveg vansalaust fyrir Alþ. og stjórnvöld að þurfa að horfa á að í landinu eigi sér stað verulegt brugg, sem er auðvitað lagabrot. Hins vegar held ég að ljóst sé að ekki er skynsamlegt, eins og þessi mál eru, að ráðast inn á heimili í stórum stíl með lögreglu og reyna að framkvæma þau lög sem eru í gildi. Þetta held ég að sé heiðarlegt að játa, og ég hygg að flestir hv. alþm. séu sammála um það. Þess vegna verður að reyna að leita einhverra annarra ráða til að draga úr vaxandi bruggstarfsemi í landinu, sem ég er sannfærður um að eykur á drykkjuskap.

Það hafa margir talað við mig um þetta mál. Ýmsir eru sömu skoðunar og þeir hv. þm. sem hér hafa talað, en aðrar sögur hef ég líka heyrt um þetta vandamál. Bruggun er orðin allvíða verulegt vandamál. Það lýsir sér aðallega í því, að menn halda áfram að drekka, eins og það er kallað, bruggað vín sem er tiltækt eftir að menn hafa tekið rispur, eins og margir góðir Íslendingar gera, t. d. um helgar. Og mér er kunnugt um að þetta er verulegt heimilisböl á mörgum heimilum. Þess vegna held ég að sjálfsagt sé að reyna aðrar aðferðir en þær aðferðir að siga lögreglu inn á heimili til að reyna að draga úr þessari starfsemi. — Og það er, eins og ég sagði áður, einn aðaltilgangur þessa frv. að reyna að draga úr brugginu. Ég hef rökstutt að slíkt hafi stóraukist frá því að sala víngerðarefna var gefin frjáls. Það er staðreynd. Bruggunin í landinu var að mestu leyti horfin, vil ég segja, á seinni hluta áratugsins 1960–1970. Það bar meira á þessu hér áður fyrr. Bruggun hefur stóraukist síðan reglunum var breytt, og þá er ég að tala um áfengt öl.

En ég vil svara fsp. hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar. Þetta er stjfrv., en einstakir ráðh. hafa sjálfsagt frjálsar hendur um hvort þeir fylgja því eða ekki. Ég hef satt að segja ekki kynnt mér hvaða afstöðu þeir hafa til málsins. En mér finnst eftir afgreiðslu og meðferð málsins í Ed. að það eigi meira fylgi í þinginu en búast mátti við áður og þeir, sem eru á móti því, séu háværari en hinir sem vilja leggja málinu lið. (GSt: Er ætlunin að haldá áfram að selja þessi efni í áfengissölum?) Aðalefni frv. er fólgið í því, að áfengiseinkasalan hefur einkaleyfi, ef frv. verður að lögum, á innflutningi bruggefna. Samkv. frv. getur fjmrn. hins vegar heimilað öðrum að selja bruggefni. (Gripið fram í.) Ég vil ekkert um það segja. Ég ætla að sjá hvort frv. gengur hér fram. Það verður að sjálfsögðu athugað í fjmrn. í samráði við fleiri aðila hvernig verður staðið að framkvæmd laganna, ef frv. verður að lögum.