17.05.1979
Sameinað þing: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4887 í B-deild Alþingistíðinda. (4210)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég stend hér upp og tef þessar umr. utan dagskrár örfáar mínútur, eru ummæli hv. síðasta ræðumanns, 3. landsk. þm., Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann upplýsti þingheim um það, sem allri þjóðinni er að vísu vel ljóst, að stjórnarsamstarfinu er lokið. Það er engin ríkisstj. til á Íslandi, ekki nema að nafninu til. Hv. þm. upplýsti það helst, að Alþfl. hefði alls engar tillögur fram að færa til lausnar launa- og kjaramálum þeim, sem nú er deilt um, eða til lausnar þeirra vinnudeilna sem eru í aðsigi og verkfalli. Ég vona að þetta sé rétt skilið og rétt með farið.

Þá vil ég biðja hv. sama þm. um að upplýsa þjóðina og fyrst og fremst þingheim nú á þessari stundu og í framhaldi af þeim ummælum hans, hvaða till. hinir stjórnarflokkarnir hafa, úr því að það er bara Alþfl. sem er tillögulaus, og það er það sem fsp. hv. 4. þm. Reykv. hljóðar um. Hvaða till. hefur ríkisstj. fram að færa, hvaða till. hafa hinir stjórnarflokkarnir, sem hann gat ekki um, Alþb. og Framsfl., í þessum málum?