17.05.1979
Efri deild: 106. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4889 í B-deild Alþingistíðinda. (4214)

226. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Sjútvn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 81 frá 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Nefndin hefur fjallað um málið á tveim fundum og fengið til viðræðna fiskifræðinga þá sem tilgreindir eru í nál., og að athuguðu máli leggur nefndin til að frv. verði samþ. Ég ásamt Alexander Stefánssyni skrifa undir nál. með fyrirvara. Geir Gunnarsson var fjarverandi afgreiðslu málsins. Ég undirritaði eða samþ. þetta álit með fyrirvara vegna þess, að ég tel að svona breytingar eigi að fara fram við heildarendurskoðun á þessum lögum og ég tel að einnig hefði mátt setja inn í frv. takmarkanir á því, hve mikið er veitt af öðrum fiski en kola á þessu svæði.

Ég vil ekki tefja þetta mál að svo komnu, því að stutt er í þinglok og fiskifræðingarnir, sem til okkar komu, sögðu að þeir mundu gera sitt ýtrasta til að fylgjast með því, að ekki yrði drepið mikið af smáfiski þarna, og gæta að þessum veiðum á annan hátt.

Það er skoðun mín að þeir, sem fluttu þetta frv., hafi ekki verið fyrst og fremst að hugsa um veiðar á skarkola. Í frv. þeirra kemur fram að þeir ætla sér að láta menn veiða skarkola í flotvörpu. Þykir mér næsta undarlegt að þeir skuli ætla að gera út á slíkar veiðar upp á það að veiða aðeins skarkola. En sem betur fer tók Nd. þannig á þessu máli, að hún felldi niður það atriði er fjallar um að þessi skarkoli yrði veiddur í flotvörpu. En við sjáum á þessu hvað flm. hafa ætlast fyrir.

Ég held að það sé ekki fleira um þetta að segja að sinni. En eins og ég sagði áðan munu fiskifræðingar eða Hafrannsóknastofnunin gæta mjög vel að því, að þessar veiðar verði stundaðar á þann máta sem eðlilegur má teljast.