17.05.1979
Efri deild: 106. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4890 í B-deild Alþingistíðinda. (4216)

226. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. án fyrirvara. Ég skrifaði undir það vegna þess að ég álít að það sé kominn tími til þess að við förum að ákveða stund, stað og gerð skipa og veiðarfæra, hvar veitt er og á hvaða tíma. Nú er gjörbreytt aðstaða þar sem við ráðum sjálfir fiskveiðum í okkar landhelgi.

Ég tek það skýrt fram, að ein meginástæðan fyrir því, að ég samþ. þessa aðgerð, er sú sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Það er óttinn við að rækjubátarnir gangi meira í seiðin okkar en góðu hófi gegnir, og því meira sem þeir eru bundnir við sína rækjuveiði, þeim mun meiri hætta er á ferðum. Þess vegna tel ég, að ef opnað er fyrir þeim sérstakt svæði þar sem að þeir mega fiska á ákveðnum tíma, þá sé líklegt að þeir geti frekar hlíft rækjunni og þar af leiðandi seiðadrápinu sem viðgengst og hefur viðgengist um langa hríð.

Ég held að það sé ekki mikil hætta á að þetta þurfi að skapa fordæmi. Í mörg ár hafa slík svæði verið opin fyrir suður og suðvesturströndinni og þá vegna sérstakra aðstæðna. Ég tel að þarna séu alveg sérstakar aðstæður, einmitt þetta sem ég var að vekja athygli á, að við getum e. t. v. hamlað eitthvað á móti auknu seiðadrápi með þessari samþykkt.