17.05.1979
Efri deild: 106. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4891 í B-deild Alþingistíðinda. (4219)

249. mál, afborgunarkaup

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um afborgunarkaup sem hefur hlotið meðferð í hv. Nd. Alþingis. Megintilgangur frv. er að tryggja réttarstöðu neytenda við afborgunarkaup og kveða á um það, með hvaða hætti þau kaup skuli skilgreind í íslenskum lögum.

Eins og kunnugt er hafa afborgunarkaup verið tíðkuð þannig hér á landi að í rauninni hafa seljendur verið þar með tvöfalda tryggingu oft og tíðum, annars vegar víxla og hins vegar eignarréttarfyrirvara í hinum selda hlut. Í 5. gr. þessa frv. til l. er kveðið svo á, að óheimilt sé að nota víxla í afborgunarviðskiptum, og er þá ætlast til þess að menn nýti sér eignarréttarfyrirvara til tryggingar rétti sínum, þ. e. a. s. seljendur. Kjósi þeir hins vegar að falla frá eignarréttarfyrirvaranum geta þeir auðvitað hugsanlega notað víxla, en ekki hvort tveggja eins og verið hefur.

Ég mælti í nokkuð ítarlegu máli fyrir þessu frv. í hv. Ed. Alþingis. Hér vil ég leggja áherslu á að í þessum efnum hafa íslenskir neytendur verið réttlitlir í gegnum tíðina. Erlendis, t. d. á Norðurlöndum, hafa fyrir mörgum áratugum verið sett lög til að vernda rétt neytenda við afborgunarkaup, og það er ekki vansalaust að hafa ekki tryggt neytendum sama rétt hér á landi.

Til viðbótar við hin almennu ummæli um þetta frv. og það, sem fram kemur í því sjálfu og skýrir sig sjálft, vil ég geta þess, að hv. fjh.- og viðskn. Nd. sendi mál þetta til umsagnar tveggja aðila, Verslunarráðs Íslands annars vegar og hins vegar Neytendasamtakanna. Í umsögn Neytendasamtakanna er komist svo að orði: „Í íslenskum rétti hafa ekki verið lögfestar reglur um afborgunarkaup með fyrirvara um eignarrétt enda þótt full þörf sé á fastmótuðum reglum í þessum efnum og þá ekki síst í þeim tilgangi að gætt sé hagsmuna kaupenda eða neytenda í slíkum kaupum. Við kaup af þessu tagi koma upp ýmis þau álitaefni er ákvæði laga nr. 39 1922, um lausafjárkaup, veita ekki svar við. Meginreglan er sú samkv. 2. málsgr. 28. gr. nefndra laga um lausafjárkaup, að sé kaupverð ekki greitt í ákveðna tíð, en hið selda er komið í vörslur kaupanda, getur seljandi ekki rift kaupið og þar með endurheimt hið selda nema hann hafi áskilið sér slíkan rétt. Samningur um kaup með eignarréttarfyrirvara er því undantekning frá þessari meginreglu kaupalaganna, og löggjöf sú, sem sett hefur verið víða í erlendum rétti um slík kaup, mótast því yfirleitt af þeim vilja löggjafans að vernda hagsmuni kaupenda eða neytenda í slíkum kaupum. Beinist hún því að því að vernda kaupandann gegn ósanngjörnum eða harkalegum aðgerðum seljandans, einkum við endurheimtu hins selda, enda þótt jafnframt sé leitast við að tryggja seljanda fullnægjandi úrræði vegna vanefnda kaupanda.

Það sjónarmið, að vernda beri hagsmuni kaupandans, kemur víða fram í frv. þessu og má þar til nefna eftirtalin atriði:

„1) Í 3. gr. frv. eru sett ákveðin skilyrði fyrir því að seljandi geti vegna vanefnda kaupanda endurheimt hið selda, krafist greiðslu þess, sem ógjaldfallið er, eða borið fyrir sig önnur réttaráhrif vanefnda.

2) Settar eru fastar reglur um skuldaskil kaupanda og seljanda, sbr. 4.–6. gr. frv., og þannig komið í veg fyrir að seljandi geti endurheimt söluhlut, sem kaupandi hefur e. t. v. greitt að miklu leyti, án þess að hann greiði kaupanda mismun á verðmæti hlutarins og kröfu sinni á hendur kaupanda eða setji tryggingu fyrir greiðslunni, ef vafi leikur á um rétt seljanda til endurheimtu eða hvort seljandi á að greiða kaupanda eitthvað vegna endurheimtunnar eða hversu mikið greiða skuli, sbr. 14. gr. frv.,“ segir í umsögn Neytendasamtakanna.

Þá segir hér einnig: „Sett eru ákveðin skilyrði um form og efni samnings um afborgunarkaup svo að söluhlutur verði endurheimtur með beinni fógetaaðgerð. Þau ákvæði frv., sem sett eru til verndar hagsmunum kaupanda, eru ófrávíkjanleg og því óheimilt að semja fyrir fram um lakari kjör kaupanda til handa en kveðið er á um í frv.“

Í lok umsagnar Neytendasamtakanna segir:

„Með hliðsjón af framansögðu mæla Neytendasamtökin með samþykkt frv. þessa um afborgunarkaup og leggja jafnframt áherslu á að mál þetta verði afgreitt á þingi því er nú situr.“

Í umsögn Verslunarráðs Íslands var á það bent, að hugsanlegt væri að seljendur mundu ekki við samþykkt þessa frv. nýta sér eignarréttarfyrirvarann, heldur einvörðungu leita tryggingar á rétti sínum í víxlaréttinum. Ég efast um að þetta sé rétt. En vegna þeirra athugasemda, sem fram komu í hv. Nd. Alþ. um þetta mál, mun ég fara þess á leit við formann fjh.-og viðskn. Ed., að hann eða nefndin ræði þessi mál við aðalhöfund frv., Gylfa Knudsen lögfræðing, og kynni sér jafnframt umsagnir og álit Neytendasamtakanna og Versíunarráðsins um þetta mál.

Í fjh.- og viðskn. Nd. varð algjör samstaða um frv. Allir nm. í þeirri nefnd skrifuðu undir nál. og lögðu til að frv. yrði samþ. Þar var því ekki um að ræða efniságreining, heldur álitamál sem ég tel að sjálfsögðu skylt að víkja að hér, þannig að fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar geti einnig um málið fjallað út frá því.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr.