09.11.1978
Sameinað þing: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég efast ekki um þann megintilgang flm. þessarar þáltill., að bændur fái laun sín eða tekjur greiddar eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Sá er einmitt einnig tilgangurinn með því ákvæði í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. sem hv. frsm. las áðan og er á þá leið, að rekstrar- og afurðalánum verði breytt þannig, að bændur geti fengið laun sín greidd og óhjákvæmilegan rekstrarkostnað svipað og aðrir aðilar fá nú.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að málið sé nokkru flóknara en fram kemur í till. og fram kom í ræðu frsm. Ég komst að þeirri niðurstöðu, eftir að ég hafði rætt þetta mál allítarlega bæði við fulltrúa banka, sölustofnana, bænda o.fl., að rétt væri að setja á fót nefnd sem tæki þetta mál fyrir í heild sinni. Það hef ég gert, eins og einnig kom fram í ræðu hv. frsm. Ég hef óskað eftir því, að n. skili áliti að hluta fyrir 20. nóv., og þegar ég segi að hluta, þá á ég við till. sem hún kann að gera um breytingar á afurðalánum, sem eru þá fljótlega ákveðin og eru að sjálfsögðu stór þáttur í að ná þessu markmiði.

Það er rétt skilið hjá hv. flm., að n. er einnig ætlað að gera till. um hvernig eigi að ná þessu markmiði, að bændur fái laun sín greidd, og ég fyrir mitt leyti tel orðalagið vera skýrt og skorinort. Að þessu ber að stefna. Við ætlum að ná þessu. Hins vegar á ég erfitt með að svara spurningu hans, eins og hann gat sér til, a.m.k. í smáatriðum, með dagsetningum og þess háttar, um ferðasögu þess fjármagns sem fer í gegnum kerfið, eins og hann orðaði það, bæði frá bönkum í afurðalánum og rekstrarlánum og frá ríkissjóði í niðurgreiðslum og útflutningsbótum. En ég skal þá reyna að fara um þetta örfáum orðum.

Í fyrsta lagi vil ég fara nokkrum orðum um afurðalán og rekstrarlán til landbúnaðarins.

Afurðalán til landbúnaðarins eru veitt af Seðlabankanum og af viðskiptabönkunum. Afurðalán til landbúnaðar eru veitt út á sauðfjárafurðir, mjólkurafurðir og ýmsar aðrar afurðir og eru mismunandi að upphæð eftir því, hvort um hreinan útflutning er að ræða eða blandaða framleiðslu eða framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Lánin voru lækkuð frá Seðlabankanum nýlega, en þau eru nú að upphæð, ef um útflutning er að ræða, 56.5% skilaverðs, ef um blandaða framleiðslu fyrir innanlandsmarkað og útflutning er að ræða eru það 53%. Til viðbótar þessu veita viðskiptabankarnir 18.5% ofan á, þannig að afurðalánin til framleiðslu til útflutnings verða samtals 75%, til blandaðrar framleiðslu 73.25%, en til sölu innanlands 71.5%. Þessi afurðalán eru, eins og ég sagði áðan, greidd í nóv.–des. Hins vegar er slátrun að sjálfsögðu lokið fyrr og reyndar greiðslur hafnar til bænda fyrr en þessi afurðalán eru afgreidd, og hefur því Seðlabankinn undanfarin ár veitt flýtilán út á afurðalánin sem eru greidd út í okt. og nóv.

Fyrsta spurningin, sem ég hygg að n. muni fjalla um, er einmitt: Er hægt að auka við þessi afurðalán til þess að bændur geti fengið stærri hluta af tekjum sínum greiddan í upphafi, þ.e.a.s. strax og þeir afhenda sínar afurðir? Á þessu eru ýmis vandkvæði. Í fyrsta lagi er þarna aðeins um að ræða 75% skilaverðs í hæsta tilfelli, þegar um útflutning er að ræða, 71.5% þegar um innanlandssölu er að ræða. Í öðru lagi veldur það vandræðum, að afurðalán hafa ekki fengist endurskoðuð við endurmat á verðmæti birgða þegar landbúnaðarafurðir hækka í verði. Þá hefur það ekki fengist endurskoðað. Sömuleiðis telja söluaðilar að þeir hafi ekki fengið metinn eins og skyldi kostnað — vaxtakostnað og geymslukostnað — af slíkum birgðum.

Ég skal ekki segja hver niðurstaðan af þessu verður. Hins vegar vil ég geta þess, að í sjávarútvegi gilda sömu reglur um afurðalán sem ég hef nú nefnt, nema hvað í sjávarútvegi mun tíðkast að ýmis fyrirtæki sjávarútvegsins fái greitt viðbótarafurðalán þegar afurðum sjávarútvegs er skipað út, iðulega í kringum 10%, þannig að þar geta afurðalán farið upp í 85%.

Þarna er því töluvert bil sem þarf að brúa. Von mín er sú, að afurðalánin fáist hækkuð, m.a. með tilliti til þess sem ég hef nefnt, að t.d. sjávarútvegur fær almennt hærri afurðalán, en þau eru að vísu frá viðskiptabönkum, en ekki Seðlabanka, þó að það eigi kannske ekki að skipta öllu máli, og sömuleiðis að afurðalán fáist endurskoðuð við nýtt mat á verðmæti birgða landbúnaðarins.

Hins verður þó að geta, að það fjármagn, sem þarna er bundið í afurðalánum, er ákaflega mikið og stórum meira en í sjávarútvegi, þar sem birgðir liggja langtum lengur. Veltan er hraðari á flestum afurðum sjávarútvegsins, eins og hv. þm. mun að sjálfsögðu vera kunnugt.

Inn í þetta koma svo jafnframt rekstrarlán landbúnaðarins, sem er að því leyti öðruvísi háttað en rekstrarlánum í öðrum atvinnugreinum, sjávarútvegi og iðnaði, að rekstrarlánin eru að verulegu leyti í höndum Seðlabankans. Seðlabankinn hefur veitt þau beint og greiðir þau út frá mars-ágúst og nokkuð jafnt mánaðarlega. Inn í það koma jafnframt ýmis önnur lán, eins og viðbótarrekstrarlán, uppgjörslán, fóðurbirgðalán o.s.frv., sem ég ætla ekki að fara að rekja hér. En ég vil aðeins geta þess, að rekstrarlán, sem Seðlabankinn hefur veitt á undanförnum árum, hafa farið lækkandi sem hundraðshluti af framleiðsluverðmæti í landbúnaði, án þess, að því er mér sýnist, að sýnt verði fram á að viðskiptabankar hafi aukið aðild sína að þessu leyti. Hins vegar er þetta töluvert flókið mál, ef rekja á til hlítar. Viðskiptabankar veita að sjálfsögðu bæði einstökum bændum og sölusamtökum þeirra veruleg lán, sem kannske mætti telja þarna til viðbótar.

Þetta eru atriði sem n. mun fjalla um í viðleitni sinni til að benda á leiðir til að ná þessu markmiði.

Um niðurgreiðslur og útflutningsbætur, sem renna frá ríkissjóði, vil ég segja þetta: Þær eru greiddar til Framleiðsluráðs landbúnaðarins samkv. framvísuðum reikningum yfir það magn sem um er að ræða í sölu og útflutningi hverju sinni. Þær fara um fjmrn. sem metur þær og ákveður síðan um útborgun. Framleiðsluráðið greiðir þetta fé síðan til hinna ýmsu sölustofnana sem hafa framvísað viðkomandi skilríkjum. Þetta er að sjálfsögðu hægt að fá upplýst stórum nánar, hve tölurnar eru háar frá einum mánuði til annars, og skal ég með ánægju sjá um það. Reyndar vil ég mótmæla því, sem mér finnst koma fram í þessari þáltill. og í ræðu hv. flm., að þarna sé eitthvað á huldu. Ef hann telur svo vera, þá bið ég hann að koma slíkum beiðnum um upplýsingar til mín, og ég vil leyfa mér að lofa honum því og fullyrða að þær geta allar legið á lausu. Það eru þarna engin leyndarmál sem ég þekki, og ég hygg að þau muni ekki reynast svo.

Spurningin er þá nánast sú eða verkefnið að skilgreina sem best hvað menn vilja fá að vita, og ég skal sjá um að það verði upplýst.

Nú er ljóst af því, sem ég hef sagt, að afurðalán og rekstrarlán, því að það verður að líta á þetta nokkuð saman, nægja ekki til þess, að bændur fái viðunandi hluta af sínum tekjum strax og slátrað er, og því er það staðreynd, að sölustofnanir bænda hafa yfirleitt hlaupið þarna undir bagga og meira hefur raunar verið greitt út. Um þetta þetta get ég einnig fengið nánari upplýsingar, sem eflaust verður einnig óskað eftir, að þær hafa greitt út töluvert hærri hundraðshluta en fengist hefur í þessum lánum.

Spurningin er sú, hvort hentugra sé að þetta fjármagn sé greitt beint til bænda. Sumar sölustofnanir hafa leyst þetta á þann máta, að þær opna reikninga á nafni einstakra bænda strax við móttöku fjárins. Það gerir t.d. Kaupfélag Borgfirðinga og ég hygg einnig Kaupfélag Eyfirðinga, þar er það á hæstu innlánsvöxtum og bændur hafa fullan rétt til að ganga að því fjármagni hvenær sem þeim sýnist. Þetta sýnist mér satt að segja vera skynsamleg leið og ber að hvetja sölusamtök til að fara þessa leið. Ég hygg að hún sé að ýmsu leyti einfaldari í framkvæmd heldur en greiðsla beint til bænda, þótt ég ég sé út af fyrir sig ekki að útiloka það. En þó vil ég vekja athygli á því, að með þessu móti hafa skapast möguleikar til þess að miðla á milli bænda. Það hefur verið hægt að veita vissum bændum innan þessara sömu stofnana fyrirgreiðslu sem ekki væri unnt að veita ef fjármagn þetta rynni þar ekki í gegn. Ég skal ekki segja um það, hvort einstökum bændum gengi jafnvel að fá slíka fyrirgreiðslu í viðkomandi banka. En mér hefur skilist að bankar, sem um þessi mál hafa fjallað, hafi talið þarna ýmis vandkvæði á. Ég vil ekki síst vekja athygli á þessu atriði, sem ég hygg að hljóti að teljast nokkuð stórt í meðferð þessa máls.

Um greiðslu útflutningsbóta beint til bænda er, eins og reyndar kom fram hjá hv. frsm., um nokkuð annað að ræða. Ég get tekið undir það með honum, að mér finnst það vel koma til athugunar. Spurningin í því sambandi sem öðrum er raunar fyrst og fremst þessi: Hvernig fá bændur sem best greiddar sínar tekjur, sín laun? En ég vil vekja athygli á því, að samtök þau, sem fara höndum um þessa fjármuni bænda, eru flest, hygg ég, samtök sem bændur hafa sjálfir mjög mikil ítök í. Þetta eru fyrirtæki sem gjarnan eru reist á félagslegum grunni, og ég veit að mikill fjöldi þm. hér inni er hlynntur slíku rekstrarformi. Reyndar er það að mínu mati til fyrirmyndar hjá bændastéttinni, hvað hún hefur gengið ötullega fram í því að koma málum sínum þannig fyrir. Raunar hygg ég að megi segja, að eftir að fjármagn fer frá bönkum og ríkissjóði sé það í höndum bænda sjálfra í gegnum þessi samtök sem þeir hafa komið á fót. Hvort þeim er greiði gerður með því að sundra þessum samtökum skal ég ekki fjalla um. Ég efast stórlega um það, og ég trúi því ekki að bændur út af fyrir sig óski eftir því. Ég held að það verði þá að leggja áherslu á það, að þessi samtök bænda vinni á þann máta, að að sem mestu gagni komi, og raunar efast ég ekki um að bændur leggja sjálfir á það áherslu.

Hins vegar vil ég segja það, að margar sölustofnanir bænda eða fulltrúar þeirra hafa sagt í mín eyru, að þeir út af fyrir sig væru mjög fúsir að losna við þessa millifærslu. En þá er þeim að sjálfsögðu ekki kleift að veita ýmiss konar fyrirgreiðslu og mjög verulega fyrirgreiðslu sem þær veita, m.a. vegna þess að þetta er einmitt fjármagn frá bændum, sem betur eru stæðir og meira mega sín, sem er hægt að miðla til hinna, sem þurfa einhverja aðstoð tímabundið, þannig að þarna er byggt á mjög hreinum samvinnugrundvelli. Samvinnan vinnur þarna fyrir einstaka bændur og fyrir fjöldann og ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég er slíku rekstrarformi mjög hlynntur og tel, ekki síst þegar um svo litlar framleiðslueiningar er að ræða sem í landbúnaði, slíkt rekstrarform ákaflega nauðsynlegt. Ég held að menn eigi að fara ákaflega varlega í að setja slíku stólinn fyrir dyrnar.