18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4987 í B-deild Alþingistíðinda. (4320)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er annað stjfrv. sem lagt er fyrir þetta þing um breytingar á framleiðsluráðslögunum. Við umr. í landbn. beggja deilda um fyrra frv. spurðu fulltrúar Sjálfstfl. og var undir það tekið af Alþb.- mönnum í n., hvað ríkisstj. ætlaði að koma til móts við bændur í birgðavandanum, og lögðu áherslu á að hinum fyrirsjáanlega halla yrði ekki eingöngu velt á bændurna. Við lögðum enn fremur áherslu á að ríkisstj. hefði aðeins átt að leggja fram eitt frv. á þinginu í vetur um breytingar á framleiðsluráðslögunum þar sem tekið væri tillit til þeirra þriggja atriða sem fyrir lægi að taka þyrfti á: Í fyrsta lagi að veita Framleiðsluráði heimildir til að jafna fyrirsjáanlegum halla að hluta til á bændurna. Í öðru lagi að fram kæmi ákveðið, hvernig hallanum ætti að skipta á bændurna og ríkissjóð. Og í þriðja lagi nauðsynlegar breytingar á lögunum að öðru leyti, þ. á m. að semja beint við bændur. Öll þessi atriði eru í samhengi og þetta hefði að sjálfsögðu verið allt í einu lagi ef stjórn væri á hlutunum.

Þegar fyrir lá að ekkert kæmi frá ríkisstj. varðandi birgðavandann og stjórnarliðið ætlaði að afgreiða málið með því að veita Framleiðsluráði ýmsar heimildir, en skjóta sér hjá að taka á vandanum að öðru leyti, lögðum við fulltrúar Sjálfstfl. í landbn. fram svofellda till. um ákvæði til bráðabirgða, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1979 er heimilt að leggja fram nauðsynlegt fé úr ríkissjóði til þess að greiða fyrir sölu á óverðtryggðri framleiðslu búvara á þessu verðlagsári og birgðum búsafurða sem til eru í landinu þegar lög þessi öðlast gildi.“

Við það að þessi till. okkar kom fram vaknaði loks hæstv. landbrh. til umhugsunar um þetta mál, enda þá nýkominn sólbrúnn og endurnærður eftir að hafa verið á skíðum í Ölpunum. Lagði hann þá fram till. í ríkisstj: um að heimila Framleiðsluráði að taka 3.5 milljarða kr. lán á ábyrgð ríkissjóðs. En kratar sögðu nei. Og þegar ráðh. kynnti Alþ. þessa till. sína stóð hæstv. sjútvrh. upp og afneitaði till., og hv. þm. Vilmundur Gylfason bætti um betur. Þrátt fyrir það að ekki lægi fyrir þingmeirihluti í stjórnarliðinu með till. ráðh. greiddi stjórnarliðið allt atkv. gegn till. okkar, sem gaf þó ríkisstj. heimild í þessu máli sem hún þurfti að fá ef taka ætti á málinu. Við atkvgr. lýsti ráðh. yfir að till. okkar stjórnarandstæðinga væri marklaus. Af þeim orðum mátti skilja að það væri munur á hans till. og okkar, hans væri ekki aldeilis marklaus — með allan stuðning Alþfl. á bak við sig eða hitt þó heldur.

Að sumu leyti er hægt að vorkenna hæstv. landbrh. að hafa yfirráðherra yfir sér í landbúnaðarmálum. Það er ekki hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, sem gengið hefur undir því nafni hér á þinginu í vetur. Yfirráðherra í landbúnaðarmálum er Alþfl., svo að hæstv. yfirráðherrum hefur fjölgað.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er aðeins smábrot af því sem boðað var fyrr í vetur að lagt yrði fram. Það má því segja að allt þetta mál sé mjög í brotum hjá blessuðu stjórnarliðinu eins og flest mál.

Hvað varðar það atriði frv. að taka upp beina samninga milli ríkis og bænda, þá er ég meðmæltur því. Fyrirvari minn er hins vegar um ákvæði til bráðabirgða. Sú till., sem liggur fyrir á þskj. 659 frá landbrh., er ekki stórmannleg, frestar vandanum og gengur skemmra en sú till. sem stjórnarliðið felldi frá okkur fyrr í vetur varðandi þetta mál, svo sem áður kom fram. Landbn. hefur nú bætt við till. ráðh. og gert hana ákveðnari.

Við afgreiðslu n. á þessu máli óskuðum við fulltrúar minni hl. eftirfarandi bókunar:

„Við fluttum till. í vetur um lausn á þessum vanda landbúnaðarins, en stjórnarflokkarnir felldu þá till. Áður en tekin er afstaða til þeirrar brtt., sem hér liggur fyrir, teljum við nauðsynlegt að þingflokkur sjálfstæðismanna fái grg. frá ríkisstj. um till. hennar og þeirra flokka, sem að henni standa, um lausn þessa vanda og fjáröflun vegna hennar.“

Þessari bókun var fylgt eftir með því að formaður þingflokks Sjálfstfl. skrifaði landbrh. og óskaði svars. Það svar barst í fyrradag. Í því segir ráðh. m. a.:

„27. mars s. l. lagði ég fram í ríkisstj. meðfylgjandi till. um lausn þess vanda sem við bændum blasir nú vegna söluörðugleika á umframframleiðslu landbúnaðarafurða.“ — Ráðh. á hér við 3.5 milljarða kr. lántöku. Síðan segir: „Till. þessi var samþ. af tveimur stjórnarflokkunum, en hafnað af þeim þriðja.“ Og enn fremur segir: „Um endanlega afstöðu ríkisstj. get ég að sjálfsögðu ekkert fullyrt á þessu stigi.“

Svo mörg eru þau orð hæstv. ráðh.

Með forsögu þessa máls í huga og allan málatilbúnað stjórnarflokkanna væri ekki óeðlilegt að stjórnarandstaðan léti ríkisstjórnarliðið um þetta mál. Þótt meiri hl. hafi í vetur viljað samstarf við stjórnarandstöðuna í landbúnaðarmálum, þá hefur það samstarf jafnan þegar á hefur reynt verið fólgið í því að fá minni hl. til að skrifa upp á víxil, ef svo mætti að orði komast, eða m. ö. o. að vera meðmæltur ráðstöfunum sem ríkisstj. vildi koma fram, en lítt komið til móts við okkur. Framkoma stjórnarliða gagnvart till. okkar í vetur varðandi birgðavandann ýtir ekki heldur undir samstarfið.

Þrátt fyrir það sem ég hef nú rakið treysti ég mér ekki til annars en styðja brtt. landbn. á þskj. 745, en það gerist í ljósi þess að hér er um svo mikið vandamál að ræða að ekki verður lengur leikið sér með að víkjast undan að taka á þessu máli. Hið erfiða tíðarfar, sem nú gengur yfir, kallar á aðgerðir í þessu máli. Ofan á þann halla, sem lendir á bændum óhjákvæmilega vegna birgðavandans þótt ríkið komi til móts að hluta, blasa nú við miklir örðugleikar og tekjutap. Hey eru mjög að ganga til þurrðar, fóðurbætisskortur yfirvofandi vegna farmannaverkfalls, og þótt mjólk sé ekki hellt niður þessa dagana, eins og virtist liggja fyrir, þá er verið að vinna úr henni lítt seljanlega vöru og við það vinna verkfallsmenn á fullu kaupi, en markaður neyslumjólkur tapast að mestu. Áburðarhækkun blasir við núna yfir 50% og ekki að vita hvenær hægt verður að bera á, eins og nú horfir og hvenær verður hægt að setja kartöflur niður. Ekki skal hafísnum gleymt.

Kjaraskerðing bændastéttarinnar þessa dagana er því með ýmsum hætti og ekki bjart fram undan. Það kann því að vera styttra í það en margur hugði og strax á því herrans ári 1979 verði offramleiðsla að mestu úr sögunni sökum harðæris, bæði af náttúrunnar völdum og vegna aðgerða misviturra stjórnvalda. Eins og nú lítur út á þessu harða vori gætu sannast þau orð sem standa í grg. þáttill. hæstv. landbrh. um stefnumörkun í landbúnaði og að þau verði nú þegar að veruleika þótt ekki séu þau beinlínis skemmtileg, en þessi setning er svona: „að áhrifaríkasta leiðin til þess að draga úr afurðum eftir grip sé að takmarka magn og gæði fóðurs.“ Ég endurtek: „að áhrifaríkasta leiðin til þess að draga úr afurðum eftir grip sé að takmarka magn og gæði fóðurs.“ Er það þetta sem koma skal í íslenskum landbúnaði? Er sagan um Hrafna-Flóka að endurtaka sig með stefnu núverandi stjórnvalda?