18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5003 í B-deild Alþingistíðinda. (4327)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eðli málsins samkv. er það auðvitað ljóst, að ég er einn af stuðningsmönnum þeirrar brtt. sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson mælti hér fyrir, við það frv. til l. sem hér er til umr.

Það var fullkomlega eðlilegt af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að gera við það aths., hvers vegna væri verið að halda þessa linnulausu næturfundi í þeim einum tilgangi, að því er sjá má, að troða hér málum í gegn, þegar ástæður fyrir slíkum vinnubrögðum virðast alls ekki liggja í augum uppi. Það skal fullkomlega viðurkennt, að af hálfu kjörinnar yfirstjórnar þessarar hv. samkomu geta það talist eðlileg vinnubrögð, þegar þingi er að ljúka og þinglausnir blasa við, að halda næturfundi og reyna að þreyta mál í gegnum þingið ef svo má að orði komast. En nú liggur það ekki í augum uppi að þinglausnir blasi við. Að vísu er það svo, að tveir hv. alþm. hafa lýst þeirri skoðun sinni að þinglausnir eigi að fara fram hið fyrsta, t. d. á miðvikudag. Annar þessara hv. alþm. er Ólafur Jóhannesson, hv. 1. þm. Norðurl. v., sem löggjafarvaldið um sinn hefur treyst fyrir forustu þeirrar sveitar sem á að framkvæma lög í landinu. Þessi hv. þm. hefur lýst þeirri skoðun sinni, að þinglausnir fari fram um miðja næstu viku. En jafnvel þó að þessi hv. þm. lýsi þessari tilteknu skoðun sinni og jafnvel þó svo hann sé þessarar skoðunar og jafnvel þó þessi hv. þm.fyrrv. prófessor í stjórnlagafræðum við lagadeild Háskóla Íslands, þá sé ég ekki að þetta séu nein höfuðrök í málinu. Formaður þingflokks Alþfl. hefur lesið bókun sem gengur í aðra átt. Það eru tvær skoðanir á málinu og ekki ástæða til að leggja efnisdóma hér á. Jafnframt hef ég skilið svo hv. 4. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, sem hefur lýst þeirri skoðun sinni að það virðist alls ekki líta svo út sem Alþ. sé að ljúka störfum. Það virðist vera allnokkuð í það að Alþ. hætti, af þeirri ástæðu að Alþ. hefur til þess fullkomnar ástæður og heiðarlegar ástæður að vilja sjá fyrir endann, svo að dýpra sé ekki tekið í árinni, á þeim miklu efnahagsörðugleikum sem eðlilega blasa við samfélaginu. Þegar tvær jafnólíkar skoðanir hafa verið kynntar sést ekki mikil ástæða fyrir því að vera að halda fundi um miðnæturskeið og kannske fram á nóttina. Það er nógur tími á mánudag til að halda áfram umr. um þetta mál, enda hefur hæstv. forseti í samráði við hæstv. landbrh. ákveðið að svo skuli vera, umr. um þetta mál haldi áfram á mánudag. Við skulum svo byrja þessa miðnæturaðferð þegar ljóst er að þinglausnir blasa við. Það má segja um væntanlegar þinglausnir, sem ég veit ekki hvort eru ástæður fyrir þessum næturfundum nú á föstudagskvöldi á tólfta tímanum, að annar hv. þm., Lúðvík Jósepsson, hefur einnig lýst þeim persónulegu skoðunum sínum í dagblöðum, að hann telji æskilegt að þingi fari að ljúka, og hann er auðvitað í sínum fyllsta rétti sem hv. þm. til að lýsa þessum persónulegu skoðunum. En ég fæ ekki séð að þetta út af fyrir sig séu ástæður til að breyta um vinnuaðferðir þingsins. Aðrir þm. eru annarrar skoðunar um þetta. Þegar svo er verður auðvitað ákvörðun um þetta að vera lýðum ljós og áfram haldið á þeim vinnuhraða sem er eðlilegur, hvort sem sá vinnuhraði er svo þessari stofnun til sóma eða skammar.

Nóg um það, hér er verið að ræða flókið mál seint um kvöld og það verða framhaldsumr. eftir helgina, svo sem hæstv. forseti hefur kunngert. Ágreiningur milli stefnu Alþfl. og annarra stjórnmálaflokka, sem virðast nokkuð komnir í eina sæng í þessum málaflokki, er þekktur.

Einnig er þjóðinni kunnugt um mismunandi sjónarmið annars vegar framleiðenda þessarar vörutegundar, landbúnaðarafurða, og á hinn bóginn neytenda í þessum efnum. En þar gilda þau einföldu lögmál, að þeim mun meiri sem framleiðslukostnaður þessara afurða er, þeim mun hærra verð þurfa neytendur í raun að greiða fyrir vörurnar. Það breytir auðvitað ekki heildarútkomu dæmisins þó að við förum þá leið að greiða niður vöruna eða greiða hana niður á skjön með því að greiða fyrir hana útflutningsbætur, því að fjármunirnir, sem fyrir vöruna eru greiddir, eru alltaf, þegar að lokum kemur, sóttir í sama vasann, þ. e. a. s. í vasa skattborgarans. Af þessum ástæðum er það mætavel ljóst, að þeim mun meiri fjármunir sem greiddir eru úr almannasjóðum, sameiginlegum sjóðum landsmanna, úr sjóðum skattgreiðenda, í þennan tiltekna atvinnuveg, þeim mun meira þurfa gjaldendur í þessa sjóði, þ. e. skattgreiðendur, að greiða fyrir vörurnar. Og áfram má rökleiða á sama hátt. Þeim mun lengra sem er frá því að þessi tiltekna atvinnugrein út af fyrir sig standi undir sér, sé rekin á núlli, eins og víðskiptamenn segja, þeim mun meira dregur hún auðvitað niður lífskjör annarra í landinu. Þetta eru svo einfaldar staðreyndir og svo kunn sannindi, að um þau þarf út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð. Hér er verið að leggja til í brtt. frá hv. landbn. að ríkissjóður taki á sig að ábyrgjast lán allt að 3.5 milljörðum kr., í efnahagsstærðum þar sem fjárlög á ársvísu nema 200 milljörðum rúmum, til viðbótar við aðra þá styrki eða fyrirgreiðslur sem þessi tiltekna atvinnugrein nýtur. Það er auðvitað hverju barni ljóst, einnig þeim sem við þessa atvinnugrein starfa, að þetta er langt frá því að geta verið heilbrigt. Þetta er enn eitt spor í því að fjarlægja þessa tilteknu framleiðendur afurða frá neytendum, og því fjær sem þessir framleiðendur eru neytendum, þeim mun verra hlýtur það að vera fyrir efnahagslífið í heild sinni.

Brtt. sú, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson mælti hér fyrir, gengur út á það, að þessi vandi sé kannaður, sem auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt. En að löggjafinn fari á þessu augnabliki að mæla með því, að heimilt sé að senda þessa fjármuni þessa leið, væri auðvitað ekki einasta óðs manns æði, heldur óðrar stofnunar æði, eins og öll þessi mál eru í pottinn búin. Það er svo enn annað mál og það er auðvitað hverju orði sannara, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lýsti hér áðan, að það eru nýjar vinnuaðferðir þegar hluti stjórnarflokka tekur þátt í því með stjórnarandstöðu, að því er virðist, að gera bandalag við hana um að ausa fjármunum úr almannasjóðum, sprengja það samkomulag, sem gert hafði verið milli stjórnarflokkanna, og að því er séð verður sprengja efnahagslög sem Alþ. samþykkti hinn 7. apríl s. l. um almennar stærðir almennra efnahagsmála. Þeim, sem að þessu standa, er auðvitað mætavel ljóst hver alvara hér er á ferðum. Þetta eru auðvitað vitsmunaverur sem vita hvað stigin spor hafa í för með sér, og 3.5 milljarðar, þegar heildardæmi fjárl. eru rúmlega 200 milljarðar, eru stór upphæð. Þetta þekkja menn, og kannske er það vegna þess, hversu háar upphæðir hér eru á ferðinni, að það er varla ástæða til að hafa um þennan þátt miklu fleiri orð. Ég veit að hv. stjórnarsinnar í öðrum flokkum en Alþfl. munu athuga vel sinn gang um þessa helgi. Það koma einnig til þau vingjarnlegheit hæstv. forseta, sem ég sé að enn er úr stjórnarandstöðuflokki, að fresta umr. um þetta mál fram yfir helgi.

Loksins, og eftir þessa almennu hugleiðingu, má bæta við hugleiðingu um stöðu hv. stjórnarandstöðu í þessu máli.

Stjórnarandstaða hefur, eins og alþjóð er kunnugt, verið í pólitísku fríl í vetur, hefur ekki tekið þátt í almennri stjórnmálaumræðu í landinu. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa verið uppteknir við það, að svo miklu leyti sem þeir hafa tekið þátt í þjóðmálum, að kljást við innri mál. Engu að síður og þó að ekki fari mikið fyrir þeim í almennri stjórnmálaumr. í landinu geta áhugamenn greint hjá þeim nokkuð mismunandi sjónarmið, svo að ekki sé meira sagt. Hæstv. landbrh. viðurkennir í orði a. m. k. vanda þeirrar atvinnugreinar sem hér er til umr. Úr hv. stjórnarandstöðu, sem að flokki til heitir Sjálfstæðisflokkur, kemur gagnrýni úr tveimur áttum. Annars vegar er það t. d. frá hv. þm. Pálma Jónssyni, sem því miður er ekki viðstaddur hér í kvöld, þar sem hann sækir hart að hæstv. landbrh., sagði t. d. í útvarpsumr. í gærkvöld, að hæstv. landbrh. hefði brugðist bændum og að sjálfur væri hann og hans flokkur hin besta vörn bændanna, sem þýðir væntanlega á mannamáli: hærri útflutningsbætur, meiri framleiðslustyrki, meiri niðurgreiðslur, meiri austur fjármuna úr almannasjóðum. Þetta er öðrum megin á línunni, hin fullkomna verndarstefna og ríkisafskiptastefna framleiðendanna. En hinum megin er það a. m. k. gefið í skyn, að hér sé verið að reka eitthvað sem kalla mætti frjálshyggjustefnu í þágu neytenda, m. ö. o.: hér eigi að beita aðferðum frjálshyggju vegna þess að það sé hagur neytenda. Það ætti að vera svo, að mínu mati, í þessari tilteknu atvinnugrein.

Landbúnaðarmál eru vissulega stórt vandamál. Ríkisstj., sem nú situr, er vissulega líka stórt vandamál, eins og þjóðinni allri mun kunnugt um, og það eru skiptar skoðanir innan þeirrar ríkisstj., sem og er til vandræða. Þetta er öllum ljóst. En hitt hygg ég að öllum sé ekki jafnljóst, hversu óendanlega skiptar skoðanir eru innan stjórnarandstöðunnar, t. a. m. í þessum málaflokki. Í þessum tiltekna málaflokki, landbúnaðarmálum, eru skoðanir allt frá skoðunum frumstæðustu framsóknarmanna, svona 30–40 ár aftur í tímann, hinna fullkomnu verndunarmanna, og yfir til einhvers konar frjálshyggjumanna í þágu neytenda, eins og frjálshyggja iðulega getur verið sé henni skynsamlega beitt. Stjórnmálaflokkur, sem enn er stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar og hafði rúmlega 30% af atkvæðamagni í síðustu kosningum, getur auðvitað ekki, nema með því að taka ekki þátt í pólitík eins og hann hefur gert í vetur, til lengdar verið beggja skoðana, verið á þéttbýlissvæðum, eins og í Reykjavík og á Akureyri, frjálshyggjuflokkur í þágu neytenda, þar sem hinum almennu ríkisafskiptum af þessari framleiðslustefnu skuli hætt, en t. d. í Húnavatnssýslum og á tilteknum svæðum á Suðurlandi prédikað allt aðra stefnu, sem sé hina fullkomnu stefnu ríkisafskipta, þar sem miskunnarlaust skulu færðir til fjármunir úr vösum skattgreiðenda og inn í þessa tilteknu atvinnugrein.

Sjálfstfl. er svo þverklofinn í þessum efnum að ríkisstj. er eins og samstæð fylking við hliðina á þeim ósköpum og er þá mikið sagt. Auðvitað eru t. d. tveir hv. þm., eins og annars vegar hv. þm. Atbert Guðmundsson, sem hér situr og hlýðir á umr. eins og hans er vani, og hins vegar hv. þm. Pálmi Jónsson, alveg þveröfugrar skoðunar í þessum efnum. Auðvitað er hv. þm. Albert Guðmundsson frjálshyggjumaður í þágu neytenda í þessum efnum.

Auðvitað er hv. þm. Pálmi Jónsson ríkisafskiptamaður í þágu framleiðenda í þessum efnum. Að ætla sér að koma fram fyrir fólkið í landinu og láta sem svo að hér sé um eina stefnu að ræða, það er ekki hægt, enda er það að verða æ fleirum ljóst. Hér er, eins og ég segi, annars vegar um að ræða frumstæðustu framsóknarmenn, — og það er varta hægt að finna þá í nútímanum, það þarf að fara um 30 ár aftur í tímann til að sjá þá og er þá langt til jafnað, — og hins vegar eru frjálshyggjumenn nútímans sem gætu haft í þessum tiltekna málaflokki við þessar tilteknu aðstæður rétt fyrir sér og hafa það, vegna þess að þeirri lausn á vitaskuld að beita í þessum efnum. Þeir kunna að vera margir, en það væri ánægjulegt ef sá, sem grípur fram í fyrir mér, hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, teldi þá upp í þingflokki Sjálfstfl. Ég sé þá ekki marga. Frjálshyggjumenn af þessu tagi eru t. d. kannske hv. þm. Geir Hallgrímsson, hann mundi vera það, Ég hugsa að hv. þm. Friðrik Sophusson sé það og nokkrir í viðbót. En t. a. m. hv. þm. Pálmi Jónsson er auðvitað af allt öðru sauðahúsi. Hv. þm. Eggert Haukdal er einn slíkur. Hv. varaþm., sem ég man eftir í svipinn, Steinþór Gestsson, er af sama sauðahúsi, og það er ekkert nýtt, það er skráð hér á þskj. í vetur eftir kostulegar ræður sem hann hefur flutt.

Kjarni málsins er sá, að eins og við vitum háttar þingstörfum svo að þm. er skipt í nefndir, og m. a. af sögulegum ástæðum vegna kjördæmaskipunar, sem eðli málsins samkv. er röng og er langa vegu frá því að einn maður hafi eitt atkv., þá háttar málum svo, að þessi tiltekna atvinnugrein, sem er allra góðra gjalda verð í sjálfu sér, sem á allt gott skilið — og það sem meira er: á djúpar sögulegar rætur og hefur verið starfrækt lengur en aðrar atvinnugreinar á landinu og er skiljanlegt að menn beri tilfinningalega virðingu fyrir, — engu að síður háttar svo vegna sögulegra ástæðna og kjördæmaskipunar, að talsmenn þessara framleiðenda hafa langt um of mikið vægi í þessari hv. stofnun. Síðan háttar nefndaskipan svo, að þegar þing kemur saman og þm. safnast saman í nefndir, þá koma þessir fulltrúar framleiðenda sér fyrir í landbn. þingsins. Öll mál, sem varða landbúnað, eru send til þessarar n. Þar fara þeir að með tvennum hætti. Ef um framfaramál er að ræða, reikningsleg framfaramál í þágu efnahagsheildarinnar, setjast þeir auðvitað á málin. Ég nefni sem dæmi mál sem meira að segja hv. þm. Pálmi Jónsson, en einnig hv. þm. Albert Guðmundsson fluttu hér í vetur og var illu heilli sent til landbn., en ekki til fjh.- og viðskn. Auðvitað koma slík mál aldrei út úr þessari n. Ég hef lýst þeirri skoðun minni áður og tel það vera mikið aðalatriði þessa máls, að ef störfum háttaði svo að menn væru hér jafnsjálfskipaðir talsmenn annarra framleiðenda, t. d. útgerðarmanna eða iðnrekenda, eins og menn eru sjálfskipaðir talsmenn þessara tilteknu framleiðenda, þá þætti mönnum sennilega eitthvað meira en lítið við þá þróun mála að athuga.

Það var sagt hér á síðasta áratug, að svona málflutningur væri fjandskapur við bændur og landbúnað. Ég hygg að í þessum efnum hafi þjóðfélagið stórkostlega verið að breytast og skipta um skoðun. Þessi málflutningur og svona málflutningur er ekki fjandskapur við landbúnaðinn og þaðan af síður við bændur. Svona málflutningur er í þágu bænda og í þágu landbúnaðar þegar fram í sækir. Landbúnaður á að vera ein af undirstöðuatvinnuvegum þessa lands, en sem atvinnuvegur á hann að standa undir sér og þar með valda alþjóðarheill, hagvexti, framförum og betra mannlífi. En eins og hann er rekinn og eins og hann hefur verið rekinn veldur hann auðvitað engu slíku. Hann er dragbítur á hagvöxt og framfarir, og frv. það, sem hér er til umr., og brtt. við það frá hv. landbn., sem gerir ráð fyrir að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast lán allt að 3.5 milljörðum kr., mun auðvitað auka á misvægi í hinum almennu efnahagsmálum landsmanna.

Hér var áðan um það fjallað, og það er ljóst, að það er ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um þetta mál. Um það er þjóðinni allri kunnugt. Hér var einnig um það fjallað, að það eru ný vinnubrögð að reyna að djöfla máli í gegn með þessum hætti þegar fyrir fram er ljóst, að einn stjórnarflokkurinn samþykkir ekki og vill ekki þessa málsmeðferð og þetta er ekki í þágu hinna almennu efnahagsstærða og þeirra almennu efnahagsmarkmiðá sem talið var að við hefðum náð samkomulagi um. En hinu er svo enn og aftur vert að vekja athygli á, að stundum er það ótrúlegt hversu vel stjórnarandstöðunni, Sjálfstfl., sem enn mun vera þátttakandi í stjórnmálum þó að lítið fari fyrir því á opinberum vettvangi, hefur tekist að sigla fram hjá því skeri að vera í þessu stóra máli, sem snertir einn af höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar, ekki einn flokkur, heldur a. m. k. tveir, og þessir tveir flokkar eru annars vegar t. d. flokkur hv. þm. Alberts Guðmundssonar, sem ég held að í þessu máli sé frjálshyggjumaður í þágu neytenda og er ég þó raunar ekki viss, en gæti grunað það, en hins vegar flokkur t. d. Pálma Jónssonar, sem er framsóknarmaður af árgerðinni 1930 eða þar um bil. (Gripið fram í: 1931.) Já,1931, það er þingrofsárið, ef ég man rétt. Þessi sjónarmið er þessari d. sennilega kunnugt um, því að hér eru allmargir áhugamenn um stjórnmál og sjálfstæðismenn að auki. En ég er ekki viss um að alþjóð sé kunnugt um þetta svo sem vera skyldi. Nú eru menn að hafa í flimtingum að það kunni að koma til kosninga, og það kann vel að vera að það verði að kjósa í sumar, og ég hygg að landbúnaðarmál verði eitt af þeim málum, sem okkur öllum er skylt að láta allan þorra landsmanna vita vel um, að það er — eigum við að segja: blæbrigðamunur skoðanaágreinings um þessi mál í Sjálfstfl. og ég hygg að það geti ekki farið leynt öllu lengur. (MÁM: Þm. Alþfl. standa að þessu máli.) Þeir eru vanir að gera það, þm. Alþfl.! Ég heyri á öllu að Bleik er brugðið, og ég get skilið það að Bleik sé brugðið. Þetta eru að vísu umr. hér á hv. Alþ. sem eru eins og við í þessum klúbbi séum að tala hver við annan, og ef Bleik er brugðið nú, þá hygg ég að Bleik verði nokkru meira brugðið þegar við förum að ræða um þetta á stærri fundum en hér eru.

Allt um það, það er ljóst að hér er verið að leggja til 3.5 milljarða til viðbótar. Og úr því að svo er, þá á það eftir að koma í ljós við atkvgr. hvernig hv. stjórnarandstaða skiptist í þessu máli. Það verður fróðlegt fyrir alla áhorfendur þessa máls og áheyrendur, það verður fróðlegt fyrir skattgreiðendur að komast að því, hvernig hv. stjórnarandstaða skiptist í þessu máli. Það er kannske eðli málsins samkvæmt, a. m. k. þegar Sjálfstfl. er í stjórnarandstöðu, að andstaðan sé nokkru ábyrgðarlausari en ella. En ef þetta er að gerast, að hluti stjórnarliðsins er að taka höndum saman við stjórnarandstöðu, sem guð og menn vita að er gerklofin í þessu efni, og ætlar með henni eða þorra hennar að þvinga þetta mál hér í gegn, þá er að gerast nýtt í þessum efnum. Og það er löngu tímabært að alþjóð fái rækilega að vita hvernig þessum málum er háttað.