19.05.1979
Efri deild: 110. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5050 í B-deild Alþingistíðinda. (4382)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Hún skal vera stutt, athugasemdin. Ég vil annars vegar vekja athygli á því, að þó það megi til sanns vegar færa að ákvörðun um vexti sé pólitísk, þá er uppbygging hinna ýmsu vísitölukerfa í þjóðfélaginu einnig pólitísk. Er nóg í því sambandi að minna á umr. sem fram hafa farið um hugsanlegar breytingar á hinni almennu framfærsluvísitölu. Og þó að byggingarvísitala sé byggð upp á annan hátt, þá er hún ekki að því leyti frábrugðin hinni, að það er vitanlega pólitísk ákvörðun hvernig þessar vísitölur eru byggðar upp að grunni til.

Svo er hitt aftur á móti, og þar held ég að við skiljum ekki textann á sama hátt, hv. 3. landsk. og ég, að mér virðist hv. 3 landsk. þm. telja að reikna yrði með þeim vöxtum, sem giltu þegar dómur væri kveðinn upp, reikna með þeim vöxtum allt tímabilið sem málið er í meðferð. En ég skil ekki þannig þennan texta sem fyrir framan mig er, heldur þannig, að við skulum segja að hálft tímabilið, sem málið er í meðferð, séu háir vextir í landinu, þá yrðu á kröfuna reiknaðir háir vextir á því tímabili, síðan yrðu lágir vextir á næsta tímabili og þá gilti það. Ég skil textann þannig, og mér fannst rétt að láta það koma hér fram, hvernig sem fer um þessa till. sem ég geri ekki að sérstöku kappsmáli.