22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5188 í B-deild Alþingistíðinda. (4558)

274. mál, sala á bv. Fonti

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Sú fsp., sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, 4. landsk., hefur borið hér fram, er í tveimur liðum, eins og hann gerði hér grein fyrir:

„Hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um sölu á bv. Fonti? Ef svo er, hverjir eru þá kaupendur og hvaða ástæður liggja þeirri ráðstöfun til grundvallar?“

Svarið við fyrri lið fsp. er jákvætt, eins og hefur raunar komið þegar fram. Sú ákvörðun var tekin fyrir hartnær tveimur mánuðum, þ. e. a. s. um mánaðamót mars-apríl, að taka kauptilboði Ísafoldar hf. og nokkurra einstaklinga á Siglufirði í skipið.

Til svars við síðari lið spurningarinnar, þ. e.. hvaða ástæður hafi legið að baki þeirri ákvörðun að taka tilboði Ísafoldar hf., er nauðsynlegt að hafa í huga aðdraganda þessa máls og jafnvel það hvaða annarra kosta ríkisstj. átti völ. Eins og flestum er kunnugt var bv. Fontur seldur á nauðungaruppboði í febr. s. l. vegna yfirvofandi gjaldþrots Útgerðarfélags Þórshafnar hf., sem var eigandi skipsins. Ríkisábyrgðasjóður átti um það bil 100 millj. kr. kröfu á útgerðarfélagið sem tryggð var með 2. veðrétti í skipinu. Á 1. veðrétti í skipinu hvíldi skuld við Fiskveiðasjóð til 10 ára að fjárhæð um það bil 550 millj. kr., og sjóveðréttarkröfur á útgerðina voru u. þ. b. 20 millj., sem einnig gengu fyrir kröfu Ríkisábyrgðasjóðs. Ríkisábyrgðasjóður var hæstbjóðandi í skipið með 570 millj. kr. tilboð, og var sjóðnum lagt skipið út til eignar sem ófullnægðum veðhafa. nokkrum dögum síðar auglýsti Ríkisábyrgðasjóður skipið til sölu og var óskað kauptilboða í það. Var sett fast verð á skipið með það í huga að ríkissjóður slyppi skaðlaus vegna gjaldþrots Útgerðarfélags Þórshafnar hf. og var ríkissjóði því ekki ætlað að hagnast á þessum viðskiptum. Heildarverð skipsins var ákveðið að skyldi vera 685 millj. kr. sem greiddust þannig:

1. Með yfirtöku 1. veðréttar skuldar við Fiskveiðasjóð, um 550 millj. kr.

2. Með yfirtöku 2. veðréttar skuldar við Ríkisábyrgðasjóð að fjárhæð u. þ. b. 100 millj. kr. Það skal tekið fram, að um það bil helmingur þessarar skuldar við Ríkisábyrgðasjóð var innlausnarskuld, þ. e. skuld sem fallið hafði á Ríkisábyrgðasjóð vegna veittra ríkisábyrgða og áhersla var lögð á að Ríkisábyrgðasjóður þyrfti ekki að endurlána nema til skamms tíma.

3. Með útborgunarfjárhæð 35 millj: kr., þ. e. sjóveðin að fjárhæð um 20 millj. kr. og þar að auki áætlaður kostnaður Ríkisábyrgðasjóðs um 15 millj.

Sjö tilboð bárust í skipið. Þessi boð voru ákaflega misjöfn, bæði að því er varðar möguleika bjóðenda til að standa undir útborguninni og eins að því er snertir tryggingar fyrir þeim hluta útborgunar, sem greiðast skyldi eftir afhendingu skipsins, og tryggingar fyrir ríkisábyrgðasjóðsláninu og þá fyrst og fremst innlausnarhluta þess. Eftir nána athugun virtust aðeins þrjú tilboð vera aðgengileg, þ. e. a. s. tilboð frá Vísi hf. á Húsavík, tilboð frá Ísstöðinni hf. í Garði og tilboð Ísafoldar hf. og nokkurra einstaklinga á Siglufirði. Í rauninni bar mjög lítið á milli þessara þriggja tilboða um það, hversu hratt útborgunin, þ. e. 35 millj., skyldu greiðast. Þegar tilboðin voru hins vegar virt með önnur atriði í huga og þá fyrst og fremst tryggingar sem í boði voru, var hins vegar niðurstaðan að hagsmunum ríkissjóðs virtist best borgið með því að taka tilboði Ísáfoldar hf. á Siglufirði. Í því sambandi vil ég leggja áherslu á að það var einmitt tilgangurinn með því að kaupa skipið að reyna að afstýra því að Ríkisábyrgðasjóður tapaði fé með gjaldþroti Útgerðarfélags Þórshafnar hf.

Ég get upplýst að þær tryggingar, sem þeir Siglfirðingar settu fyrir útborguninni og innlausnarhluta ríkisábyrgðasjóðsskuldarinnar, voru bæði sjálfsskuldarábyrgðir banka og persónulegar tryggingar að hálfu þeirra einstaklinga sem þarna eiga aðild að, auk veðtryggingar í fasteignum Ísafoldar hf. Þær tryggingar, sem boðnar voru fram af hálfu annarra bjóðenda, voru sýnu lakari, auk þess sem ekki var fram hjá því horft að rekstrarstaða Ísstöðvarinnar hf. í Garði er miklum mun erfiðari heldur en Ísafoldar hf., en tilboð þeirra Garðsmanna var skoðað mjög gaumgæfilega. Niðurstaða mín varð sú, að með hliðsjón af þessu öllu var mun meiri áhætta bundin því að taka tilboði Garðsmanna heldur en tilboði Ísafoldar hf. á Siglufirði.

Þá tel ég rétt að fram komi að Ísafold hf. á fullkomið frystihús á Siglufirði þar sem að jafnaði starfa 50–70 manns. Hráefnisöflun fyrirtækisins byggðist lengst af á afla smábáta og togskips sem síðar var selt. Vegna erfiðleika við hráefnisöflun leigði Ísafold hf. frystihús sitt á árinu 1977 til Þormóðs ramma hf. á Siglufirði; en það fyrirtæki gerir út þrjá skuttogara. Þormóður rammi sagði þessum leigusamningi upp frá og með 1. júlí n. k. Ísafold stóð þá frammi fyrir tveim kostum. Annar var sá að freista þess að verða sér úti um gott togskip sem m. a. væri samkeppnisfært gagnvart mannaráðningum við þau skip sem fyrir voru á staðnum. Hinn kosturinn var sá að segja upp öllu starfsfólki, 50–70 manns, og hætta rekstri. Fyrri kosturinn var sem sé valinn og þar með komið í veg fyrir að þessum stóra vinnustað yrði lokað. Mér er einnig kunnugt um að samið hefur verið um það milli Þormóðs ramma hf. og Ísafoldar, að um fiskmiðlun verði að ræða, og því frekar hægt að tryggja að jafnan verði um atvinnu að ræða í báðum frystihúsunum, sem að öðrum kosti hefði ekki getað orðið.

Ég held að ég sjái ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið nema að gefnu tilefni.