22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5198 í B-deild Alþingistíðinda. (4569)

353. mál, byggingamál kennaraskóla og skóla þroskaheftra

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson spyr um byggingarmál nokkurra skóla.

Í fyrsta lagi spyr hann um hvenær áformað sé að hefja framkvæmdir við nýbyggingu Kennaraháskóla Íslands? Því er til að svara, að hönnun og áætlunargerð nýs byggingaráfanga er lokið. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur heimilað útboð á uppsteypu hússins og frágangi utanhúss miðað við þriggja ára framkvæmdatíma. Til framkvæmda í ár mun vera hægt að verja u. þ. b. 65 millj. kr., en í heild er áætlað að framkvæmdin til loka kosti um 600 millj. kr. Í þessum áfanga verður húsnæði fyrir kennslu, m. a. í raungreinum, aðstaða fyrir bókasafn og aðra þjónustu. Stærð þessa byggingaráfanga er rúmlega 2000 fermetrar.

Eins og kunnugt er á Kennaraháskólinn við mikil húsnæðisvandræði að etja og þessi ráðgerða byggingarframkvæmd mun ekki bæta þar úr í einni svipan, enda áformað að framkvæmdatíminn verði 3 ár. Er því aðkallandi að finna lausn á þessum bráða vanda, og nú eru uppi áform um að skólinn fái til afnota skólahúsnæði í grenndinni sem líklegt er að losna muni vegna flutninga í annað hús. En þar er átt við Fósturskólann sem starfræktur hefur verið í Skipholti og mun færast í núverandi húsnæði Laugalækjarskóla.

Í öðru lagi spyr hv. þm. hvað liði undirbúningi að byggingu íþróttahúss við Íþróttakennaraskóla Íslands? Því er til að svara, að 8. apríl s. l. var haldinn sameiginlegur fundur skólanefndar og skólaráðs Íþróttakennaraskólans þar sem mættir voru arkitektar og verkfræðingar. Lagðar voru fram teikningar, sem verið höfðu til athugunar um skeið, og brtt. ræddar. Fundurinn samþykkti þessar teikningar og munu þær fljótlega berast menntmrn., og að fenginni staðfestingu verða þær lagðar fyrir samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir.

Í þriðja lagi spyr hv. þm. hvenær áformað sé að hefja framkvæmdir við nýjan áfanga Öskjuhlíðarskóla. Nú er unnið að undirbúningi og teikningum að 2. áfanga Öskjuhlíðarskóla, en í þeim áfanga er gert ráð fyrir auknu kennslurými, aðstöðu fyrir líkamsþjálfun, sal og sundlaug svo og aðstöðu fyrir starfsfólk o. fl. Þess er vænst, að undirbúningsvinna verði komin á lokastig síðla sumars.

Í fjórða lagi spyr hv. þm. hvenær hefjist framkvæmdir við byggingu kennslu-og þjálfunarhúsnæðis við Lyngásheimilið. Teikningum og áætlunargerð um byggingu skóla við dagheimilið Lyngás við Safamýri í Reykjavík er lokið og málið er nú til umfjöllunar hjá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir. Gert er ráð fyrir að útboð á fyrri hluta verksins, þ. e. uppsteypu og frágangi utanhúss, geti farið fram á næstunni. Byggingarkostnaður er áætlaður um 350 millj. kr. Til ráðstöfunar er 71 millj. kr. til ársloka. Í þessari byggingu er kennsluaðstaða fyrir þroskahefta nemendur og þjálfunaraðstaða, þ. e. leikfimisalur og sundlaug.

Herra forseti. Ég vænti þess, að þessi stuttorðu svör nægi til að fyrirspurnunum teljist svarað.