22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5200 í B-deild Alþingistíðinda. (4571)

353. mál, byggingamál kennaraskóla og skóla þroskaheftra

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, þau upplýsa þessi mál mikið. Það er ánægjulegt að heyra að nú er allt tilbúið undir útboð hjá Kennaraháskóla Íslands. Þetta hefur allt tekið nokkuð langan tíma, en það voru ýmis ljón á vegi og þurfti að breyta skipulagi, mér er kunnugt um það.

Ég er hins vegar ekki alveg ásáttur um að vinna fyrir aðeins 65 millj. kr. í ár. Mér telst til að 28%+25+50 séu rúmar 100 millj. En ég veit auðvitað að það hefur farið mikið fé í hönnunar- og undirbúningskostnað. Kannske skakkar ekki svo miklu þegar þess er gætt, en þó hélt ég að menn hefðu getað tekið öllu stærri áfanga á þessu ári. En höfuðatriðið er að þetta fer í gang.

Það er líka ánægjulegt að heyra það, að menn eru að eygja bráðabirgðalausn á húsnæðismálum, að Kennaraskólinn fær inni í Skipholtinu. Að Fósturskólinn fer í Laugalækjarskóla, það er einnig ánægjulegt að heyra það. Það var byrjað að bollaleggja um það áður en ég fór úr rn., og nú hefur þetta sem sagt tekist, en Fósturskólinn var kominn í þröng þar sem hann er.

Þá þykir mér sérstaklega vænt um að heyra það, að menn eru alveg horfnir frá því að ýta burt starfsemi Æfingaskólans eða færa hana í annað húsnæði, því það álít ég að væri mikið óráð. En það felst í þessum svörum að frá því er horfið.

Það er einnig gott að heyra að það þokar áfram málum Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni og menn eru orðnir ásáttir um hversu standa skuli að byggingum þar. Mér þykir mjög vænt um að heyra þetta. Þarna verður í nokkuð mikið ráðist og þetta verður allt að hafa sinn gang og miðast við getu. En það er höfuðatriði, að ekki sé hvikað frá settri stefnu, álít ég.

Varðandi svo Öskjuhlíðarskólann, þá er það sorgleg saga hvað sá undirbúningur hefur tekið langan tíma. Ég var alls ekki ánægður með hvað seint gekk meðan ég starfaði í rn., og enn verður þarna á verulegur dráttur. Nú er ég ekki að sakast við einn eða neinn um þetta, en þetta er sorglegt, því þarna er ákaflega brýn þörf á aðgerðum.

Hins vegar virðist horfa betur með byggingarnar við Lyngásheimilið. Þar getur útboð farið fram á næstunni, sagði hæstv. ráðh., og það er mjög gott.

Ég vil í þessu sambandi rifja það upp, að hér ætti að koma til góða, þegar farið verður að ákveða fjárveitingu til þessara mála við næstu fjárlagagerð, það frv. sem hér var samþ. um málefni þroskaheftra, með innbyggðu ákvæði um Framkvæmdasjóð þroskaheftra og öryrkja.

Ég vil svo aðeins segja að að öðrum þræði er þessi fsp. borin fram vegna þess, að maður lifir sífellt í ótta um að þunglamaleg framkvæmd á opinberum byggingarframkvæmdum dragi úr hömlu að hafist verði handa um þau mál sem Alþ. hefur veitt fé til. Ég hef auðvitað ekki á móti góðum undirbúningi, hann er sjálfsagður. Mér er ljóst að í sumum tilvikum vinnur t. d. samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir gott verk, og ég hef nýlega vikið að því í sambandi við útvarpshúsið, að þar álit ég að hún hafi unnið mjög gott verk. En stundum þykir mér samt dráttur á framkvæmdum, vegna þess skipulags sem á þessu er, verða óhæfilega langur. Ég álít að þegar Alþ. hefur veitt fjármagn til ákveðinna verka eigi þau verk að ná fram að ganga án óeðlilegrar tafar. Í þessum tilvikum t. d. sem hér um ræðir, þegar teknar eru upp fjárveitingar á ný eftir nokkurt hlé til kennaramenntunarinnar og til málefna þroskaheftra, þá felst í því stefnumörkun Alþ., stefnumörkun í þá átt að nú skuli hefjast handa við framkvæmdir á þessum ákveðnu sviðum.

Ég vil svo bara bæta því við það sem ég hef sagt hér um byggingu vegna málefna þroskaheftra, að það er ekki aðeins brýn nauðsyn þarna vegna barnanna og aðstöðu þeirra og þarfa, heldur og vegna þjóðfélagsins sjálfs því það, sem þarna er lagt fram, er fjármagn sem skilar sér bókstaflega þegar fram í sækir í langflestum tilvikum.

Svo legg ég áherslu á það, að ég er því feginn, að það er unnið af fullum krafti, vil ég segja, þó ferðin takmarkist auðvitað af getunni, að því að framkvæma þá stefnu sem mörkuð hefur verið í málefnum kennaramenntunarinnar varðandi þær tvær stofnanir sem hér hefur verið um spurt. Það eru og eiga að vera forgangsverkefni, öll þau atriði sem ég hef hér nefnt, svo menntun kennara sem aðstoð við þroskahefta. Kennaramenntun er grundvöllur að góðri starfsemi í skólum landsins, og menntun íþróttakennara og leiðbeinenda er sérstakt nauðsynjamál í nútímaþjóðfélagi.