22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5237 í B-deild Alþingistíðinda. (4610)

174. mál, lækkun og niðurfelling opinberra gjalda á íþróttavörum

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Hv. allshn. Sþ. hefur fjallað um þá till., sem hér er á dagskrá, og mælir einróma með samþykkt till. með svofelldri breytingu:

Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera breytingar á tollskrá, þar sem tollar á íþróttavörum eru samræmdir og lækkaðir, svo og að taka til endurskoðunar vörugjald á íþróttavörum.

Ofangreindar breytingar verða lagðar fyrir næsta reglulegt Alþingi, þannig að það geti hlotið afgreiðslu jafnhliða næstu fjárlögum.“

Þessi tillgr., eins og hún hljóðar núna eftir meðferð n., er í fullu samræmi við till. eins og hún upphaflega var orðuð, en lítillega lagfært orðalag þannig að meira svigrúm gefist fyrir þá aðila, sem fá þessa till. til meðferðar, að taka tillit til hennar.

Vilmundur Gylfason var fjarverandi afgreiðslu málsins, en aðrir nm. skrifa allir undir þetta nál., og ég vil leyfa mér fyrir hönd okkar flm. þessarar till. að þakka n. fyrir mikinn áhuga og skilning á þessu máli.