22.05.1979
Efri deild: 114. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5254 í B-deild Alþingistíðinda. (4643)

275. mál, skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Allt frá því að ég kom fyrst í sali hins virðulega Alþingis hefur það verið eitt af mínum mestu áhugamálum að koma fram breytingum á núverandi ákvæðum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Ég hef hvað eftir annað flutt till. þess efnis, að reglugerðarákvæðum væri breytt til bóta í sambandi við þetta mál, því að þótt einkennilegt kunni að virðast, þá er því svo háttað í sambandi við skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, að hægt er að gera ákaflega gagnlegar og mikilsverðar breytingar á þeim málum án sérstakrar lagasetningar, aðeins með því að breyta núgildandi reglugerð. Af framansögðu hefði því mátt ætla að maður gæti verið ánægður með að sjá hér í hinu háa Alþingi frv. sem gerir ráð fyrir breytingu á skipan þessara mála. En því miður verð ég að segja það, að frv., sem hér liggur fyrir, er svo fjarri því að koma til móts við þær hugmyndir sem ég hafði gert mér um breytingu á þeim málum sem þetta frv. fjallar um, að ég get ekki lýst vonbrigðum mínum, hve mikil þau eru í sambandi við ákvæði þess frv. sem hér er til umfjöllunar.

Ef nokkuð er, þá mætti segja um ákvæði þessa frv., sem hér er til umr., að þau væru að sumu leyti afturhvarf til meira óhagræðis í sambandi við meðferð þessara mála. Og svo er annað, sem ég finn þessu frv. mjög til foráttu, og það er það sem ekki stendur í frv. sjálfu, en mætti lesa á milli línanna.

Ég vil leyfa mér að benda á upphaf 1. gr. frv.: „Innflutningur á vörum til landsins skal ekki háður leyfum, nema annað“ o. s. frv. Í núgildandi lögum stendur hins vegar: „Innflutningur á vörum til landsins skal vera frjáls“ o. s. frv. Ég vona að hv. þm. þessarar virðulegu deildar geti fallist á það með mér, að á þessu tvennu eru mjög mikil blæbrigði.

Í grg., sem fylgir þessu frv., eru kostir frv. helst taldir felast í því, að núverandi gjaldeyrisdeild bankanna, sem svo er kölluð og hefur höfuðaðsetur sitt í Austurbæjarútibúi Landsbankans inni á Laugavegi, verði lögð niður, og það er talið til hagræðis fyrir menn að þurfa ekki lengur að sætta sig við það, að ýmsar umsóknir um yfirfærslur, innflutning og annað þurfi að leggjast fyrir fundi sem þar hafa verið haldnir reglulega og hafa fjallað um ýmis atriði þessara mála. Það er rétt, það á að leggja þessa deild niður. Og við fyrstu sýn sýnist það vera kostur að gjaldeyrisbönkunum er gefið nokkurt svigrúm til þess að afgreiða gjaldeyrisumsóknir bæði fyrir vörur og þjónustu upp á þær spýtur að skoðun slíkra afgreiðslna fari fram eftir á. Það er að vísu rétt, að þetta eru breytingar sem eru af hinu góða. En það er bara sá galli á gjöf Njarðar, að samkv. ákvæðum í öðrum greinum þessa frv. er þetta vald falið viðskrn. Það getur hvenær sem er tekið upp þá skipan og sett reglugerð sem færir það vald, sem nú er þó í höndum þriggja aðila, eingöngu í viðskrn. Ég held að ekki þurfi að eyða mörgum orðum að því, hversu mikil óþægindi geta skapast af því að fela einu rn. annað eins vald og felst í þessu frv., því að það er ekkert í ákvæðum þess frv., sem hér liggur fyrir til umr., sem hindrar að viðskrn., viðskrh., sá maður sem fer með viðskipta- og bankamál og peningamál hverju sinni, geti sett upp stóra deild með ótakmörkuðu starfsliði til þess að sinna slíkum málum. Ef þetta frv. verður að lögum er framkvæmd þessara mála gersamlega háð duttlungum þess manns sem hverju sinni skipar þetta embætti. Ég vil láta það koma fram hér strax við 1. umr., að ég get ekki undir neinum kringumstæðum samþykkt þá tilhögun þessara mála sem felst í frv.

Þá vil ég leyfa mér að benda á ákvæði 6. gr. frv. Þar er einni deild í Seðlabanka Íslands, sem stjórnað er af aðilum sem ekki eru gerðar neinar sérstakar kröfur til um sérþekkingu eða annað, gefið ótakmarkað rannsóknarvald, gefið hömlulaust vald til þess að krefjast allra upplýsinga, kveðja á sinn fund hvern og einn til munnlegrar skýrslugerðar, enn fremur til þess að kanna reikninga, bókhald og svo að framkvæma á starfsstað nauðsynlegar athuganir. Þarna í ákvæðum þessarar greinar er verið að fela forstöðumanni slíkrar deildar miklu meira vald heldur en mönnum er falið, embættismönnum þjóðarinnar, sem eiga að gæta vissra hluta dómsvaldsins. Slíkir menn verða að hafa aflað sér sérþekkingar á sínu sviði, þeir verða að hafa lögfræðipróf og hafa aflað sér sérþekkingar. En í ákvæðum þessarar greinar er bara venjulegum skrifstofumanni, sem kann að vera falin forstaða einnar deildar innan Seðlabanka Íslands, falið þetta vald. Almenningur á gersamlega að vera háður duttlungum þessa manns, þessa aðila, í svo víðtækum málum eins og hér er verið að ræða um.

Herra forseti. Ég veit að það eru gífurlegar annir í þingi núna og það er lagt að forseta og starfsmönnum og þm. að reyna að hraða afgreiðslu mála. En þó að stjórnarandstaðan sem slík hafi gefið yfirlýsingar um það og við höfum sýnt það í störfum okkar á hinu háa Alþingi í allan vetur, að við höfum ekki tafið mál sem stjórnarliðið hefur verið sammála um að skyldu ná framgangi, þá held ég að í allri auðmýkt verði ég að fara fram á það, herra forseti, að þetta mál megi fá eðlilega og nauðsynlega skoðun, því að það er áreiðanlegt, að í ákvæðum þessa frv., í ákvæðum greina sem hér er um að ræða, eru slík nýmæli og svo víðtækar heimildir að ég tel það ekki samboðið virðingu þingsins að afgreiða slíkt með einhverjum óstjórnlegum hraða og kannske á það fljótfærnislegan hátt að allir kynnu að sjá eftir því.

Því mun ég — þar sem ég á sæti í þeirri n. sem væntanlega fær þetta frv. til athugunar — áskilja mér allan rétt til þess að kalla á fund n. þá aðila sem ég tel þekkingar sinna vegna og starfsreynslu hæfa til þess að gefa ítarlegar umsagnir um þetta frv. Ég mun æskja þess að slíkum óskum verði þá sinnt.