22.05.1979
Efri deild: 114. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5256 í B-deild Alþingistíðinda. (4645)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka eignarnámi hluta jarðarinnar Deildartungu í Reykholtsdalshreppi ásamt jarðhitaréttindum. Mál þetta er komið frá Nd. og þar var aðeins gerð ein breyting á frv. frá upphaflegri gerð, varðandi 3. gr. þess. Sú breyting tekur af tvímæli um það, að ef til eignarnáms kemur á Deildartunguhver, þá verði það ríkissjóður sem hafi eignarráð yfir hvernum, en Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar yrðu afhent afnot af honum samkv. tilteknum skilmálum, en einnig verði höfð hliðsjón af hagsmunum íbúa Reykholtsdalshrepps. Þessu var bætt inn í frvgr. að minni till. og raunar einnig meiri hl. iðnn. Nd.

Hugmynd um hitaveitu á Vesturlandi er nú 10 ára gömul um það bil. Fyrsta athugun á sameiginlegri hitaveitu frá Deildartungu var gerð fyrir olíukreppuna haustið 1973, en þá var slík hitaveita talin óhagkvæm. Ný athugun var gerð á málinu að frumkvæði Gunnars Thoroddsens, þáv. iðnrh. Hófst sú athugun haustið 1976. Í framhaldi af því lá fyrir áætlun um hitaveitu Borgarfjarðar haustið 1977 og á grundvelli þeirrar áætlunar og með samkomulagi milli Akraness, Borgarness og Andakílshrepps var stofnuð sérstök samstarfsnefnd milli Akraness og hitaveitu Borgarfjarðar. Þessi samstarfsnefnd kom á framfæri ósk við iðnrn. um eignarnám á Deildartunguhver í mars 1978 og taldi fullreynt að samkomulag mundi ekki takast um afnot af hvernum.

Iðnrn. leitaði á s. l. sumri umsagnar eiganda hversins um þessa eignarnámsbeiðni, og í þeirri umsögn, sem þeir gáfu, var talið að rökstuðning vantaði fyrir þessari eignarnámsbeiðni.

Eftir að núv. ríkisstj. var mynduð hófust fljótlega frekari afskipti af þessu máli og á minn fund kom samstarfsnefnd vegna hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og óskaði eftir fyrirgreiðslu rn. um málið. Það var snemma í septembermánuði. Ég lét taka saman grg. um málið og tók síðan á grundvelli hennar ákvörðun um að unnið skyldi að því frá grunni af sérfróðum mönnum og skipaði starfshóp, sem svo er kallaður. Í honum áttu sæti Gísli Einarsson deildarstjóri og hrl., sem starfar í iðnrn., Kristján Sæmundsson jarðfræðingur hjá Orkustofnun og Pétur Stefánsson verkfræðingur, allt reyndir menn hver á sínu sviði. Þessi starfshópur vann mikið verk og leitaði aðstoðar margra aðila, dró að upplýsingar og heimildir og vann frumvinnu. Hann skilaði eftir mikið og ötult starf álitsgerð til mín 27. mars s. l., og rétt áður en það varð var stofnuð formlega Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, 23. mars s. l. Álit starfshópsins var um það í meginatriðum, að vænlegt væri að stofna þetta fyrirtæki, sem þá var raunar komið á laggirnar, og beisla fyrir hitaveituna vatn frá Deildartunguhver og frá tveimur öðrum jarðhitasvæðum, þ. e. Bæjarsveit og Kleppjárnsreykjum, og mundu þessi þrjú svæði gefa samtals um 300 sekúndulítra af nær 100°C heitu vatni. Veitan með tiltekinni tilhögun var talin ótvírætt þjóðhagslega hagkvæm. Kostnaður var áætlaður 5.4–6 milljarðar kr. og vatnsþörfin 170 sekúndulítrar miðað við núverandi íbúafjölda á þessu svæði, en hitaveitan tekur til svæðis þar sem búa 6500 manns. En þörfin um aldamót fyrir sama svæði, miðað við tilteknar forsendur um íbúafjölgun, er talin vera 340 sekúndulítrar og unnt á að vera að afla með borunum viðbótarvatns úr nefndum hverasvæðum eða öðrum á þessu svæði. Ljóst var hins vegar talið að aðgangur að Deildartunguhver væri forsenda fyrir sameiginlegri hitaveitu.

Þegar hér var komið sögu lá það fyrir, að samkomulag hafði ekki tekist um afnotarétt af hvernum, en umboðsmenn eiganda hans óskuðu milligöngu rn. um samninga og hið sama gerði stjórn hitaveitunnar. Ég fól þá samstarfshópnum að annast milligöngu um þessa samninga. Þeir, sem hann skipuðu, áttu sem slíkir hlut að því að reyna að miðla málum og leiða aðila saman; og formlegar samningaviðræður fóru fram á tímabilinu frá 4. apríl til 9. maí s. l. Voru haldnir margir fundir, samtals 19 bókaðir fundir auk margra óformlegra upplýsingafunda, með aðilum um málið. Ég vil taka það fram, að það var engin viðleitni hjá aðilum, umboðsmönnum eiganda t. d., að tefja málið, heldur tóku þeir greiðan þátt í störfum og lögðu á sig verulega fyrirhöfn á meðan á það reyndi hvort samkomulag mundi takast. Það tókst hins vegar ekki, því miður, og bar mikið á milli er leiðir skildu. Báðir aðilar töldu að um lokaboð væri að ræða.

Þá blasti við spurningin um hvort leita ætti heimildar um eignarnám og þá hvaða leiðir skyldi fara, en um það hafði starfshópurinn fjallað í álitsgerð sinni. Eins og hv. þdm. er kunnugt, segir í 67. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfiforseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verði fyrir“.

Í orkulögum nr. 58 frá 29. apríl 1967 segir í 14. gr.: „Þegar almenningshagsmunir krefjast þess, er ríkisstj. heimilt að taka jarðhita eignarnámi í vinnsluskyni eða til að afstýra því, að borun á jarðhitasvæði spilli verðmæti hagnýtingar, sem hafin er á jarðhita í námunda við svæðið“. Þá segir í 16. gr. sömu laga: „Nú er jarðhiti tekinn eignarnámi, og eru þá landeigendur og leiguliðar á því svæði, þar sem hann á að koma til afnota, skyldir að þola öll mannvirki, er af notkun leiðir, á löndum sínum og lóðum, svo og láta af hendi land og mannvirki. Þeim er einnig skylt að þola hvers konar afnot af landi, takmarkanir á umráðarétti og óþægindi, sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar verksins, viðhalds þess og starfrækslu. Fullt endurgjald skal koma fyrir. Náist ekki samkomulag, skal það ákveðið með mati“.

Nú kynni einhver að spyrja hvers vegna hér er ekki notuð eignarnámsheimild orkulaga í stað þess að leggja fram sérstakt frv. um eignarnám. Því er til að svara, að dómstólar hafa úrskurð um það, hvort almenningsþörf krefðist eignartöku, ef farið væri eftir orkulögum. Ef aftur á móti eignarnám er samþykkt af löggjafanum, þá munu dómstólar ekki telja sig bæra að fella slíkt ákvæði úr gildi, ef skýra má það þannig að það samrýmist stjórnarskránni. Þessi skoðun kemur fram hjá lærðum mönnum í stjórnlögum og stjórnarfarsrétti, eins og prófessor Ólafi Lárussyni og prófessor Gauki Jörundssyni. Ég tel að með því, sem ég hef hér getið um og skýrt kemur fram í aths. með lagafrv. og í grg. starfshóps iðnrn., hafi fullkomlega verið sýnt fram á almenningsþörfina á þeirri heimild sem hér er leitað. Þá tel ég og að með milligöngu starfshópsins um hinar ítarlegu sáttatilraunir sé fullnægt ákvæði orkulaga í 16. gr. þeirra um samkomulagstilraunir. Um framkvæmd hugsanlegs eignarnáms færi að lögum nr. 11 frá 1973, og er það matsnefnd eignarnámsbóta, sem skipuð er af dómsmrh., sem um málið fjallar. Til meðferðar hvers mats kveður formaður tvo eða fjóra hæfa og óvilhalla menn, en sjálf er nefndin skipuð tveimur mönnum.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er óskað heimildar til eignarnáms. Fram komu við meðferð málsins í Nd. hugmyndir og till. um leigunám, en þær hlutu þar ekki meirihlutafylgi. Að mínu mati og margra fleiri var talið að ef út á þá braut væri haldið, þá stefndi það málinu í mikla óvissu. Leigunám svokallað hefur nær eingöngu verið framkvæmt til mjög stutts tíma hingað til. Ég vil hins vegar leggja á það áherslu, að ég tel að enn sé svigrúm til samkomulagsumleitana þótt sú heimild verði veitt sem í frv. þessu felst.

Ég vil eyða örfáum orðum að hlut sveitarfélagsins þar sem Deildartunguhver er, þ. e. Reykholtsdalshrepps. Nú er hver þessi, Deildartunguhver, í einkaeign og eigendum eru undanskildir 10 sekúndulítrar af vatni úr hvernum. Ábúendur Deildartungubýla hafa heimild til að nýta 2–2.5 sekúndulítra af vatni úr hvernum og hverinn hefur verið tekinn undan jörðunum með sérstakri skiptagjörð á sínum tíma, þannig að sveitarfélagið út af fyrir sig hefur engan beinan aðgang að þessari auðlind og þarf að leita um það samkomulags við núverandi eiganda eða aðra umráðaaðila í framtíðinni, ef breyting verður á. Ég tel því að hagsmunum sveitarfélagsins og næsta nágrennis við hverinn sé síst verr komið og raunar í betra horfi, ef hið opinbera hefur umráðarétt á þessari auðlind, og við umr. í Nd. og með brtt. við 3. gr. frv. var það undirstrikað af minni hálfu, að ég tel að sveitarfélagið eigi að njóta aðgangs að því sem umfram er þá almenningsþörf sem frv. gerir ráð fyrir og er raunar reist á. Að henni fullnægðri verði það næsta nábýli og sveitarfélagið sem njóti þessarar auðlindar. Það liggur fyrir vilji Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar til samvinnu um þetta mál við sveitarfélagið, og rn. mun styðja þá viðleitni og stuðla að samkomulagi í þessu máli. Starfsleyfi af hálfu iðnrn. verður ekki veitt fyrr en allir megindrættir máls þessa liggja skýrt fyrir.

Ég undirstrika þýðingu þess, að sú heimild, sem hér er leitað eftir með flutningi þessa frv., verði veitt, og legg áherslu á þá augljósu þýðingu sem það hefur fyrir þéttbýlisstaði á Vesturlandi og nágrenni þeirra að það fyrirtæki, sem hér er stefnt að, komist á fyrr en seinna.