22.05.1979
Efri deild: 116. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5277 í B-deild Alþingistíðinda. (4710)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Menntmn. ræddi þetta frv. á fundum sínum. N. barst ein ábending í þá veru, að óeðlilegt væri að eitt sveitarfélag af þeim, sem aðild mundu eiga að hljómsveitinni samkv. frv., gerðist innheimtuaðili gagnvart hinum. Enginn önnur ábending barst n. Ég hef rætt við formann þeirrar nefndar sem undirbjó þetta frv. Kristin Hallsson, og hann tjáir mér að ekki hafi borist aðfinnslur frá sveitarfélögum að öðru leyti en því hvað þetta atriði varðar og svo hitt, að óeðlilegt væri að frv. þetta öðlaðist gildi þegar í stað, þ. e. á þessu ári. Nú eru komnir fimm mánuðir fram á þetta ár og því er mjög eðlilegt að lögin öðlist gildi 1. jan. 1980.

Menntmn. leggur sem sagt til að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, að niður falli innheimtuskylda Reykjavíkurborgar gagnvart hinum sveitarfélögunum, og í öðru lagi, að lögin öðlist gildi 1. jan. 1980.