14.11.1978
Sameinað þing: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

54. mál, fjárlög 1979

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það er nú af býsna mörgu að taka, ef á að minnast á flest af því sem rætt hefur verið um í ræðum hv. þm. En ég skal, þar sem ég er síðasti ræðumaður á mælendaskrá, stytta mál mitt og víkja að frekar fáu af því sem komið hefur fram í þessum umr.

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að því, sem komið hefur fram um fjárlagagerðina og hvernig að henni hefur verið staðið.

Ég er þeirrar skoðunar, að fjárlagafrv. sé öðrum þræði eins konar vinnuplagg fyrir Alþ., sem eigi að gera þannig úr garði, að það komi að sem bestum notum þegar til þeirrar vinnu kemur og afgreiðslu sem Alþ. hefur með höndum varðandi fjárlagaundirbúninginn og fjárlögin. Þess vegna var það, að þegar ég kom í fjmrn. lágu þar fyrir drög að fjárlagafrv., en samtímis, fyrstu vikuna svo að segja, sem ég gegndi embætti fjmrh., voru gerðar margvíslegar ráðstafanir, sem höfðu verulega mikil áhrif á ýmsa liði fjárl., eins og ég rakti í framsöguræðu minni í dag. Að leggja þessi drög að fjárlagafrv. fyrir Alþ. án þess að gera breytingar, sem námu þúsundum á færslum í fjárlagafrv., hefði í raun og veru þýtt að fjárlagafrv. hefði verið sent beina leið aftur upp í fjárlaga- og hagsýslustofnun til þess að gera nauðsynlegar breytingar á frv., sem leiddi af þeim ýmsu ákvörðunum sem teknar voru þegar í upphafi stjórnarsamstarfsins.

Í öðru lagi er rétt að geta þess, að ríkisstjórn er fjölskipað stjórnvald. Fjmrh. er einn af ráðh. í ríkisstj. og hann hefur það hlutverk að undirbúa fjárlagafrv. og leggja það fyrir Alþ., að sjálfsögðu á þann veg að sem mestar líkur séu á því að það verði samþ. með sem minnstum breytingum við meðferð Alþingis. Það hefur verið rætt mikið um meðferð fjárlagafrv., og það hefur verið gagnrýnt m.a., að ýmsir aðilar utan Alþ. hafi ekki fengið að sjá fjárlagafrv., eins og það hefur verið orðað í fjölmiðlum og umræðum manna á meðal. Ég álít það helga skyldu fjmrh. að undirbúa fjárlagafrv. á þann hátt, að það sé að sjálfsögðu fyrst og fremst, að ríkisstj. undanskilinni, lagt fram á Alþ., en ekki annars staðar og það sé réttur alþm. samkv. stjórnarskránni að verða fyrstir til að sjá fjárlagafrv. Hvergi annars staðar á að leggja það fyrst fram. Að það sé lagt fram í ríkisstj. og sýnt þar er sjálfsagt mál.

Það var t.d. farið fram á það við mig, eftir að fjárlagafrv. var lagt fram á Alþ., að ég kæmi upp í sjónvarp og ræddi um fjárlagafrv. þar. Ég neitaði því, vegna þess að ég álít að það eigi ekki að flytja 1. umr. um fjárlagafrv. úr Alþingi og upp í sjónvarp. Það er mál út af fyrir sig að greina fjölmiðlun frá helstu stefnumörkun fjárlagafrv. og ýmsum stærstu dráttunum. En að ræða fjárlagafrv. annars staðar en á hv. Alþ. tel ég alls ekki við hæfi. Þannig verður að fara eftir vissum reglum í þessum efnum og skýrum og ákveðnum ákvæðum, sem stjórnarskrá og þingsköp kveða á um.

Það verður að játa, að erfitt verkefni er að semja fjárlagafrv. í landi sem býr við 50% verðbólgu. Það er erfitt verkefni, ekki aðeins fyrir fjmrh., heldur fyrir þá sem starfa að þessu, og það er í raun og veru grátlegt að sjá hvernig verðbólgan brennir upp ýmsa liði fjárlaga þannig að þeir koma ekki að þeim notum, sem til er ætlast, eins og t.d. framlög til framkvæmda og margt og margt fleira.

Ég taldi þýðingarmikið að leggja fram fjárlagafrv., sem felur í sér ákveðna stefnumörkun, og það gerir þetta fjárlagafrv. Í 1. gr. þess kemur fram alveg ákveðin stefnumörkun. Í fyrsta lagi, að þar er gert ráð fyrir tekjuafgangi upp á rúmlega 8 milljarða. Það er gert ráð fyrir að greiða niður samningsbundnar skuldir ríkissjóðs, fyrst og fremst erlendar skuldir, rúmlega 4 milljarða umfram það sem tekið er að láni, og það er gert ráð fyrir að það sé greiðsluafgangur á fjárlagafrv. um tæplega 4 milljarða. Þetta er í raun og veru sú stefna sem fjárlagafrv. boðar. Hvort þessi stefna fær samþykki hér á Alþ. er annað mál. Ég vonast til þess og mun a.m.k. gera mitt til þess að fylgja því fast eftir. Ég tel að við þær verðbólguaðstæður, sem við búum við, sé það óverjandi af hv. Alþ. að afgreiða fjárlagafrv. öðruvísi en með ríflegum tekjuafgangi og einnig greiðsluafgangi. Það er ekki deilumál, að slíkt er nauðsynlegt við þessar aðstæður. Það er hægt að halda áfram að taka lán og nota þau lán til mismunandi nauðsynlegra framkvæmda, en það er ekki hyggileg stefna og alls ekki miðað við þær aðstæður sem við nú búum við.

Það er mjög mikill munur á því Alþ., sem nú situr, og þeim þingum, sem ég hef setið á áður, sem eru orðin nokkuð mörg, að því leyti til, að nú er það hreinlega tíska, að í staðinn fyrir að stjórnarflokkar geri út um ágreiningsefni sín innan veggja ríkisstj. og þingflokka, innan stjórnarliðsins, þá eru ágreiningsefni eða mismunandi stefnur og viðhorf stjórnarflokka kynnt hér á Alþ. og rædd þar, m.ö.o.: menn ræða ágreiningsefnin fyrir opnum tjöldum. Það er í raun og veru nýjung. Það er kannske framtíðin. Ég skal þó ekki leggja neinn dóm á það, hvernig sú aðferð reynist. Það á eftir að sýna sig. En á einhverju stigi málanna verða stjórnarflokkar að gera það upp við sig, hvort þeir vilja ganga til málamiðlunar um ýmis málefni, ýmis stefnuskráratriði, eða hvort þeir vilja segja skilið við það stjórnarsamstarf sem þeir taka þátt í.

Við í Framsfl. höfum talið rétt og ég hef talið rétt að kalla fyrirvarana í fjárlagafrv. fyrirvara ríkisstjórnar flokkanna. Þó að við höfum ekki haft hátt um það, þá höfum við sem flokkur ýmsa fyrirvara um mörg atriði fjárlagafrv. Ég hef engan siðferðilegan rétt til þess að smíða fjárlagafrv., þó að ég sé fjmrh., algerlega í þágu eigin flokks, þegar hann er í samsteypustjórn með öðrum flokkum. Það hygg ég að allir hljóti að vera sammála um. Við teljum það vera okkar hlutverk að halda stjórninni saman, stuðla að því að halda ríkisstj. saman og reyna að jafna þann ágreining, sem vissulega er til á milli stjórnarflokkanna í ýmsum efnum. Það gefur auga leið og er engin ný frétt.

Við framsóknarmenn höfum áhuga á ýmsum verklegum framkvæmdum, eins og t.d. í hafnarmálum, í vegamálum, í orkuframkvæmdum o.fl. málum. Við höfum áhuga á því, að olíustyrkur verði hár. En það getur verið spurning um, hvernig á að leysa ýmis þessi mál, t.d. orkumálin. Það er auðvitað grátlegt að búa við þá staðreynd, að fólk útí um landið, sem býr á þeim svæðum sem Rafmagnsveitur ríkisins þjóna, skuli þurfa að borga hér um bil tvöfalt hærra gjald fyrir rafmagn en við hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa. Þetta er ekki sæmilegt, vegna þess að fólk, sem býr á þessum svæðum, er ekkert síður þýðingarmikill hlekkur í okkar þjóðarsamsetningu en við sem búum á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa. Það er skoðun mín, að leysa eigi þessi mál a.m.k. að talsvert verulegu leyti með verðjöfnunargjaldi.

Við höfum áhuga á málefnum landbúnaðarins í Framsfl., en við gerum kröfu til þess, að fólkið, sem stundar landbúnaðarstörf, búi við hliðstæð launakjör og aðrir þjóðfélagsþegnar. Við gerum kröfu til þess. Um þessi mál er sérstakur fyrirvari í fjárlagafrv., sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrirhugað er að endurskoða styrkja- og útflutningsbótakerfi landbúnaðarins með það að marki, að greiðslur komi bændum að betri notum en nú er. Ekki hefur unnist tími til að hafa eðlilegt samráð við bændastéttina í þessu efni.“

Hér er tekið upp ákvæði úr samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar flokkanna varðandi landbúnaðinn.

Það er rétt, sem komið hefur fram í þessum umr., að nokkrar vikur er auðvitað stuttur tími til þess að gera fjárlagafrv. úr garði. Venjulega hefst gerð fjárlagafrv. í aprílmánuði á því, að fjmrn. sendir beiðni um það til hinna ýmsu rn., að þau undirbúi mál sín fyrir næsta fjárlagafrv. Síðan er unnið að þessu allt vorið, allt sumarið og fram á haust, þegar kemur að því, að ríkisstj. tekur endanlega ákvörðun um fjárlagafrv, í þeim búningi sem það birtist svo í á Alþingi.

Það er ýmislegt fleira, sem ég hef tilhneigingu til þess að minnast á, eins og t.d. það, að við í Framsfl. erum engir boðberar hárra skatta eða skattpíningar og við erum engir sérstakir boðberar beinna skatta umfram aðra flokka. En það er okkar hlutverk, eins og málum er háttað, að sjá til þess að tekjuöflun til ríkisins sé nægilega mikil og örugg, að búa fjárlagafrv. þannig úr garði, að hægt sé að segja að staðið sé ábyrgt að því. Við tökum þátt í því að leggja á hærri skatta en verið hefur. Það er ekkert launungarmál, að við seilumst lengra í átt til beinna skatta vegna þess að beinu skattarnir ganga ekki inn í vísitöluna, vegna þess að beinu skattarnir skrúfa ekki alveg sjálfkrafa og afdráttarlaust upp verðlagið og kaupgjaldið í landinu. Öll viðleitni okkar í þessum efnum gengur út á það að reyna að hefta eða stöðva verðbólguna. Það er talað um að falsa vísitöluna. Þetta er í raun og veru ekkert annað en það, að menn verða að búa við við þær aðstæður sem eru staðreynd. Ég fer hins vegar ekkert leynt með það eða minn flokkur, að við teljum nauðsynlegt að gera breytingar á vísitölugrundvellinum, þ. á m. að skattar og niðurgreiðslur verði tekin út úr vísitölugrundvellinum.

Það hefur aðeins verið minnst á skyldusparnaðinn. Skyldusparnaðurinn er leið sem margar þjóðir hafa notað. Hann er að vísu ekki alls staðar í formi skyldusparnaðar. Hann er sums staðar í formi frjáls sparnaðar, eins og t.d. í Vestur-Þýskalandi þar sem þeir fjármagna íbúðalánakerfi sitt með því að leyfa mönnum að leggja inn fé og binda það með sérstökum kjörum um nokkurn tíma. Á þann hátt fjármagna þeir íbúðalánakerfi sitt í Vestur-Þýskalandi. Hins vegar er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að skyldusparnaður er annað en skattur. Skyldusparnaðurinn, eins og hann hefur verið framkvæmdur hér, er lántaka. Þar er ríkissjóður að taka lán. Menn eru skyldaðir til þess að spara, en ríkissjóður á að standa mönnum skil á þessum sparnaði aftur og hann á að gera það með verðbótum. Skyldusparnaður er því lántaka og annað en skattur.

Fjárlagafrv. boðar, eins og ég sagði, ákveðna stefnu og það verður hlutverk ríkisstj. að hafa forustu um afgreiðslu fjárl. í anda þeirrar stefnu, sem fjárlagafrv. boðar. Fjárlagafrv. er frv. ríkisstj., sem er lagt fram með ákveðnum fyrirvörum. Þessir fyrirvarar hafa allir það sammerkt, að ef stofnað verður til útgjalda í samræmi við fyrirvarana, þá er gert ráð fyrir því, að aflað verði tilsvarandi tekna. Þeir eiga það allir sammerkt, að ríflegur tekjuafgangur verði á fjárl, og ríflegur greiðsluafgangur. Þetta gengur eins og rauður þráður í gegnum fjárlagafrv. og fyrirvarana líka. Það er nauðsynlegt að hafa það í huga. Næstu verkefni ríkisstj. verða svo að vinna að gerð lánsfjáráætlunar, og heildarmyndin í þessum málum, þ. á m. í opinberum framkvæmdamálum, kemur ekki fram fyrr en lánsfjáráætlun hefur verið lögð fram hér á Alþingi.

Eins og kom fram í framsöguræðu minni, þá tel ég langsamlega þýðingarmest að beita fjárl. gegn verðbólgunni. Allir hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, eru sammála um að svona getum við ekki búið áfram í landinu. Við höfum enga tryggingu fyrir því, að verðbólgan verði 40–50% áfram, ef ekki er höfð aðgát. Hún getur alveg eins orðið 50–60%. Hún getur farið upp í 100%, áður en við vitum af, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til þess að snúa við. Og ég hygg að við séum mjög nálægt því að ráða í raun og veru alls ekki við þá verðbólguþróun, sem hér hefur verið að þróast á undanförnum árum. Það er e.t.v. það hættulegasta í þeirri stöðu sem við stöndum í.

Við í Framsfl. höfum tekið að okkur visst forustuhlutverk í ríkisstj. og leggjum áherslu á að halda henni saman. Við trúum því, að sú breiða samvinna, sem hefur tekist um aðgerðir í efnahagsmálum, sé líklegasta leiðin, eins og nú háttar í þjóðfélaginu, til þess að koma fram aðgerðum, sem eru líklegar til að sporna gegn þeirri óheillaþróun, sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum einnig tekið að okkur forustuhlutverk í sambandi við fjárlagagerðina. Ég hef sagt það áður opinberlega, að ég var ekki umsækjandi um þetta embætti, og láir mér það sjálfsagt enginn, en við í Framsfl. höfum tekið þetta verkefni að okkur og viljum axla þá ábyrgð sem því fylgir. Hvort tveggja hlutverkið er erfitt, eins og þm. hafa nú orðið varir við í þessum umr. Það er auðvitað sérstaklega erfitt miðað við þær aðstæður sem við er að fást í fjármálum og efnahagsmálum yfirleitt.

Um einstök atriði, sem komið hafa fram í þessum umr., skal ég vera fáorður. Það er nú svo og verður að segja það alveg eins og það er, að auðvitað eru mörg atriði í fjárlagafrv. óbreytt frá þeim drögum sem lágu fyrir í fjmrn. þegar ég kom þangað. Það leiðir m.a. af því, að mikill hluti og e.t.v. of mikill hluti fjárl. er sjálfvirkur, þannig að fjárlagafrv. er gert í samræmi við lög. 70% af útgjöldum á fjárl. eru lögbundin, þannig að í sumum tilfellum hafa hv. stjórnarandstæðingar verið að leggja út af Matthíasarguðspjalli í ýmsum efnum. Það eru margir þættir, sem eru óbreyttir, og skal ég ekki fara nánar út í þá sálma.

Það hefur verið endurtekið hvernig var ástatt í efnahagsmálunum og fjármálunum á s.l. hausti og er raunar enn þá. Þær ráðstafanir, sem gerðar voru þegar í upphafi þessa stjórnartímabils, voru gerðar af skyndingu, þær voru gerðar mjög skjótt. Í raun og veru var slæmt að stjórnmálaflokkarnir í landinu skyldu — ég vil segja: eyða öllu sumrinu í að reyna að koma saman stjórn. Þegar loksins tókst að mynda ríkisstj. voru menn komnir í tímaþröng, algerlega í tímaþröng eins og málum var háttað. Þess vegna varð að gera skjótar ráðstafanir, og það geta stundum verið takmörk fyrir því, hvað hægt er að vanda þær mikið á mjög stuttum tíma.

Það er rétt, sem hefur komið fram, að niðurstöðutölur fjárlagafrv. hafa hækkað mikið af ýmsum ástæðum. Það liggur í augum uppi, að fjárlagafrv. hlýtur að fylgja verðlagi og kaupgjaldi. Fjárlagafrv. hlýtur að gera það í megindráttum. Það, sem hins vegar sker úr um það, hvort fjárlagafrv. vinnur gegn verðbólgu eða ekki, er fyrst og fremst hvort tekjuafgangur er á fjárlagafrv., hvort það er greiðsluafgangur á fjárlagafrv., hvort fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að greiða skuldir eða taka lán, hvort fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að draga saman t.d. framkvæmdir og margt og margt fleira. Þannig er háttað með þetta fjárlagafrv., að það gengur út á það að vinna gegn verðbólgunni.

Það eru nokkrir nýir liðir í þessu fjárlagafrv., eins og t.d. að gert er ráð fyrir að greiða á fjárlögum á þriðja milljarð kr. vegna fjármagnskostnaðar við Kröflu. Það er alveg nýr liður í fjárlagafrv. sem hækkar fjárl. frá því sem áður hefur verið um meira en 2 milljarða. Þessi mál hafa fram að þessu verið leyst með lántökum.

Varðandi það, hvort fjárlagafrv. sé vandlega unnið með tilliti til þeirra forsendna sem liggja til grundvallar, þá mætti margt um það segja. Ég vildi aðeins minnast á það sem snertir kaupgjald. Þetta er þannig, að ef verða almennar launahækkanir í landinu, svipaðar hjá opinberum starfsmönnum og hjá öðrum, þá hefur það ekki áhrif á jöfnuð fjárl. vegna þess að þegar kaupgjald hækkar aukast tekjurnar, tekjuskattar, og aukast umsvifin í þjóðfélaginu, aukast tekjur af óbeinum sköttum, t.d. söluskatti o.s.frv. Þegar því um er að ræða almennar kauphækkanir í landinu, þá hafa þær ekki áhrif á jöfnuð fjárlagafrv. Ef laun opinberra starfsmanna hækka hins vega meira en annarra í landinu, þá hefur það að sjálfsögðu áhrif til hins verra á jöfnuð fjárlagafrv.

Ég vildi aðeins minnast örfáum orðum á Byggðasjóð, af því að það hefur verið rætt dálitið um hann hér. Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að skera niður sem svarar 10% af framlögum til hinna ýmsu fjárfestingarlánasjóða. Þetta er auðvitað gert í ákveðnum tilgangi. Þetta er gert í samræmi við þá stefnu að draga úr framkvæmdaframlögum á fjárlagafrv. Þá þykir eðlilegt að stuðla einnig að því að dregið verði úr framkvæmdum úti í atvinnulífinu. Þetta er í fullu samræmi við stefnuna í fjárfestingarmálinu. Það er gert ráð fyrir 12% magnminnkun framlaga til verklegra framkvæmda í A-hluta fjárlagafrv., og það er gert ráð fyrir því að skera niður um 10% af öllum fjárfestingarsjóðum nema Byggðasjóði. Það er ekki gert ráð fyrir því að skera 10% niður af framlögum til Byggðasjóðs. Samkv. lögum á Byggðasjóður að hafa til ráðstöfunar á hverju ári upphæð sem svarar til 2% af fjárl. Og það er gert ráð fyrir að Byggðasjóður geti tekið lán. Hann gerði það á árum áður. Hann gerði það þó ekki í fyrra, það var alveg rétt hjá hv. þm. Steinþóri Gestssyni, en það er gert ráð fyrir því, að hann geti tekið lán. Ef hann gerir það, þá lækkar framlag ríkissjóðs tilsvarandi. Ég er ekki höfundur að þessari reglu, og ég skal játa það, að þegar ég var í Framkvæmdastofnuninni var mér mjög annt um Byggðasjóð og er það enn og vildi þá að það væri skilyrðislaus regla í lögum að hann ætti að fá 2% frá ríkinu. En það varð að samkomulagi, þegar síðasta endurskoðun fór fram á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins, að haga þessu þannig, að ráðstöfunarfé Byggðasjóðs skyldi aldrei verða minna en sem svarar til 2% af fjárl. Það er gert ráð fyrir að Byggðasjóður taki að láni 1130 millj. og fái þá þar af leiðandi minna framlag úr ríkissjóði sem nemur þessum 1130 millj. kr. Og það er gert ráð fyrir að hann láni þetta fé til Orkusjóðs vegna byggðalínunnar fyrir austan og vestan.

Ég get nú ekki stillt mig um í þessu sambandi, þegar hv. sjálfstæðismenn gagnrýna þetta, að minna þá á, að fyrir kosningarnar í vor lýsti Sjálfstfl. því yfir, að það væri rétt, að Byggðasjóður annaðhvort legði fram eða lánaði um 1000 millj. kr: á ári til vegaframkvæmda, ef ég man rétt. Og það er auðvitað álitamál hvort er meira byggðamál, vegamál eða byggðalínur og orkumál. Það er álitamál, en þarna er bitamunur, en ekki fjár, sýnist mér. Líklegast er, að Byggðasjóður muni hafa til ráðstöfunar á næsta ári rétt tæplega 3 milljarða umfram lánið til Orkusjóðs, en hefur á þessu ári um 2.7 milljarða. Framlög frá ríkinu voru á þessu ári 2079 millj., en verða núna rúmlega 2400 millj. Það má til sanns vegar færa, að það sé verið að rýra ráðstöfunarfé Byggðasjóðs. Það hafa verið gerð mikil átök í byggðamálum á undanförnum árum — mjög mikil átök, og kann vel að vera að sé, þegar árar eins og nú í efnahagsmálum, réttlætanlegt að draga svolítið úr þessari starfsemi í bili og þá með þeim hætti sem hér er gert, því að ekki er hægt að skilja byggðalínurnar eftir úti á köldum klaka. Það er nokkuð stór biti fyrir ríkissjóð að kingja á einu ári að taka á sig sem framlag rúmlega 2 milljarða vegna Kröflu og 1130 millj. í viðbót vegna byggðalínanna. Í þessum efnum öllum verður ekki á allt kosið.

Það hefur verið minnst á ýmislegt í umr. Það var t.d. minnst á það, hver væru áform í sambandi við gengismál, hver væru áform í sambandi við erlendar lántökur og hvað um 1. des. o.s.frv. Ég ætla að vonast til þess, að það takist samkomulag fyrir 1. des. sem verði með þeim hætti að við getum afstýrt þeim boðaföllum verðbólgu sem blasa við ef ekkert verður að gert. Ég ætla að vonast til þess. Ég skal engu spá um það. Það er ekki langt þangað til, og reynslan sker úr því hvað gerist í þessum efnum. En ég ætla mjög ákveðið að vonast til þess, að mönnum auðnist að ná samkomulagi innan þeirra marka, sem efnahagslífið þolir og atvinnulífið þolir, þannig að við þurfum ekki að horfa á verðbólguna æða upp í 50–60% á næsta ári.

Varðandi erlendar lántökur verður kveðið á um þau mál í lánsfjáráætlun ríkisstj. sem verður lögð fram hér á Alþ. innan skamms.

Það hefur verið rætt nokkuð um stöðu ríkissjóðs á þessu ári. Ég gerði grein fyrir henni, eins og mér sýnist að hún muni verða. Ég hafði þó mjög ákveðinn fyrirvara á í þessu efni. Það hefur komið í ljós að samþykkja verður talsvert af umframfjárveitingum vegna ýmiss konar þjónustu sem ekki getur stöðvast, eins og t.d. heilbrigðisþjónustu. Ég skal ekki spá um það á þessari stundu, hver endanleg útkoma verður. Það liggur ljóst fyrir að ýmsar þjónustugreinar eru illa settar og það eru verulegar umframfjárhæðir, sem um er að tefla, einungis varðandi það að halda vissum þjónustuframkvæmdum og vissri þjónustustarfsemi gangandi.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson minntist á Orkubú Vestfjarða. Ég veit ekki hvort hann hefur lesið grg. fyrir fjárlagafrv. að öllu leyti varðandi Orkubú Vestfjarða, en ég ráðlegg honum að gera það. Á það er minnst á fleiri en einum stað, og ég hygg, að ef hann les grg. muni hann komast að raun um að það er farið að lögum í fjárlagafrv. varðandi þetta atriði.

Hv. þm. Pálmi Jónsson minntist nokkuð á launamál og launin í fjárlagafrv. Launatala fjárl. fyrir 1978 er 43 milljarðar 223 millj. kr. og þar af vegna launahækkana 11 milljarðar 414 millj. Áætluð laun á verðlagi við áramót 1977-1978 voru 38 milljarðar 450 millj. í frv. 1979 er aftur á desemberverðlagi 1978 gert ráð fyrir 54 milljörðum 186 millj. kr. eða hækkun um 40.9%. Það er engin stefnubreyting í fjárlagafrv. varðandi starfsmannahald ríkisins. Það eina, sem talandi er um í því efni, er að gert er ráð fyrir 75 millj. kr. framlagi til þess að herða skattaeftirlit, en ekki farið að ræða enn þá nánar hvernig þeirri upphæð verður ráðstafað. Það er samdráttur í rekstrarútgjöldum, það er samdráttur í framkvæmdum, það er samdráttur í framlögum til fjárfestingarlánasjóða, það er samdráttur í viðhaldi. Það hafa ekki orðið neinar breytingar á aðalkjarasamningum. Þau mál, sem hafa verið leyst í sambandi við kjaramál opinberra starfsmanna, hafa öll verið leyst innan ramma þess aðalsamnings, sem á að renna út 1. júlí á næsta sumri, og hafa þess vegna ekki gefist tilefni til þess fyrir neina einstaka flokka opinberra starfsmanna að gera kröfur um launahækkanir vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið í launamálum ríkisins.

Ég held að ég láti það verða mín síðustu orð í þessum umr. að leggja áherslu á stefnumörkun fjárlagafrv. Eins og ég sagði áður, eru fyrirvarar stjórnarflokkanna allir sniðnir á þá lund að raska ekki þeim rekstrarafgangi, sem fjárlagafrv. boðar, né heldur þeim greiðsluafgangi, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir. Það er mergurinn í fjárlagafrv., að þessi stefna verði ofan á við afgreiðslu frv. hér á Alþ., þó að menn hafi skiptar skoðanir um ýmsa þætti ríkisbúskaparins.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að frv. verði að loknum þessum umr. vísað til 2. umr. og hv. fjvn.