18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

4. mál, stjórnarskipunarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Út af því frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr. á þskj. 4, vil ég leyfa mér að taka fram, að eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 11. þm. Reykv., var í lok síðasta Alþ. gengið frá því að endurskipa n. til þess að fjalla um stjórnarskrána og setja henni ákveðin tímamörk.

Hæstv. forsrh. hefur nú skrifað þingflokkunum, og bréf þar að lútandi barst mér í hendur nú fyrir stundu. Þetta mál mun því verða tekið til meðferðar hjá okkur á þingflokksfundi í dag, að kjósa í þessa nefnd.

Eins og ég hef áður tekið fram hef ég verið því fylgjandi að athuga um aldursmark til kosningarréttar, og ég tel sjálfsagt að þau atriði, sem hér hafa komið fram í frv.-formi, bæði um aldursmarkið og eins um að þingið fari fram í einni deild, verði meðal þeirra sem stjórnarskrárnefnd tekur til meðferðar. Ég tók eftir því um daginn í sjónvarpsþætti, þar sem þessi mál bar á góma eins og Alþ. í einni málstofu eða einni deild, að þar virtust allir vera á eitt sáttir um að svo ætti að vera. Mér er ekki kunnugt um að innan okkar flokks, Framsfl., sé nein andstaða gegn þessum málum, heldur að þessi mál eigi að ganga fram með þeim öðrum þáttum í stjórnarskrárbreytingum sem fyrirsjáanlegt eru að hljóta að verða að ganga fram á því kjörtímabili sem nú er að hefjast.